Fréttir

Af norrænum vettvangi

5 sep. 2024

Í nýlegri útgáfu Dansk Politi er áhugaverð umfjöllun um netglæpi þar sem fram kemur m.a. það mat sérfræðings hjá Europol að alþjóðleg og dönsk löggjöf sé alls ekki nægjanleg til að meðhöndla netglæpi og á skorti markmiðssetta löggjöf sem veiti möguleika á að grípa fyrr til aðgerða og tryggja sönnunargögnin áður en þau hverfa því rafrænu sporin hverfi leifturhratt. Segir í blaðinu að netglæpir myndi í dag þriðja stærsta hagkerfið í heiminum og sett í samhengi við hagkerfi í heiminum kæmu netglæpir næst á eftir hagkerfi Bandaríkjanna og Kína. Umfang þeirra sé sífellt vaxandi. Þannig hafa sérfræðingar metið að sé allt tjón og kostnaður sem tengist netglæpum reiknað saman nemi það árlega á heimsvísu um tíu þúsund milljörðum bandaríkjadala. Nú sem fyrr sé lykillinn að árangri fólgin í alþjóðlegri samvinnu, samstarfi lögreglu við háskólasamfélagið o.fl. Er sérstaklega fjallað um J-CAT sem er aðgerðahópur um netglæpi (Joint Cybercrime Action Task Force) sem starfar undir Europol European Cybercrime Center og stafað hefur allt frá árinu 2014. Alls eiga 20 lönd aðild að J-CAT og þar inni eru öll Norðurlöndin með fastan fulltrúa nema Ísland. Þrettán af ríkjunum eru aðildarríki ESB en sjö þeirra ekki. Er m.a. haft eftir Brian Falk sem átt hefur sæti í hópnum fyrir dönsku lögregluna undanfarin tvö ár, að ekkert ríki geti barist gegn netglæpum eitt og sér. Samstarf ríkja sé algert grundvallaratriði. Þá er einnig haft eftir Lars Bergem fulltrúa Noregs í hópnum að jafnvel þótt Noregur sé ekki hluti af öllum þeim rannsóknum sem J-CAT fari fyrir hafi hann ætíð aðgang og vitneskju um rannasóknir, stöðu og skiptingar þeirra. Mikilvægt sé að vera þátttakandi í J-CAT til að hluta á og meðtaka hvaða áskoranir séu í málunum, hvaða tæki og tól séu best til að takast á við áskoranir, hver sé besta rannsóknaframkvæmdin o.fl. Eins og nærri má geta og í ljósi gríðarlegs umfangs netglæpa í dag á heimsvísu er um mjög fjölbreytt brot og brotastarfsemi að ræða, allt frá gagnagíslatöku á netsíðum m.a. yfirvalda, félaga, stofnana, einkaaðila o.fl. og spilliforritum í tengslum við síður, yfir í peningaþvætti, ólöglega verslun með vopn, fíkniefni, kynferðisbrot gegn börnum á netinu, stuld á skilríkjum og persónuauðkennum, auðgunarbrot o.s.frv., þar sem m.a. myrkranet kemur einnig við sögu.

Í Svíþjóð stendur fyrir dyrum á komandi vetri innleiðing á nýju valdbeitingartæki í sænsku lögreglunni sem er vopn sem inniheldur gúmmískothylki. Toppur kúlunnar er úr gúmmíi og botninn samanstendur af plasthylki. Er markmiðið með innleiðingunni að tryggja betur öryggi lögreglumanna við störf og starfsumhverfi þeirra og um leið minnka áhættuna í tenglsum við alvarlegt líkamstjón vegna aðgerða lögreglu. Er innleiðing þessa nýja valdbeitingartækis hluti af stefnumörkun yfirvalda sem unnin var í kjölfar greiningar á ofbeldi og óeirðum sem urðu í sænskum borgum og bæjum kringum páskana 2022. Þó verður þetta tæki eingöngu ætlað sérþjálfuðum lögreglumönnum sem eru hluti af óeirðalöggæslu, hafa sérstaka menntun og þjálfun til að bera og við sérstakar aðgerðir í tengslum við mannfjölda.

Í Noregi hefur verið í gangi vinna og umræða um endurskipulagningu á norska lögregluháskólanum en fyrir liggur að skólanum verður skipt í þrjár megineiningar. Eina um forvarnir, greiningar og lögreglufræði, aðra um starfsnám og öðru sem því tengist og þá þriðju um rannsóknir og ákærumeðferð. Markmið breytinganna er m.a. að styrkja kennslu í rannsóknum, nýta betur rekstrarfjármagn til skólans og bæta faglega þætti með m.a. að innleiða og uppfylla formlega gæðastaðla með fleiri námskeið en verið hefur, en einnig verði breytingarnar til að auka og bæta samstarf við  aðrar starfsgreinar, aðra háskóla og innlenda og erlenda aðila. Hefur starfseining skólans í Bodö m.a. verið í umræðunni en áhyggjur í Bodö lúta einkum að því að þessi endurskipulagning muni leiða það af sér að starfsemi skólans  þar verði forgangsraðað skör lægra þar sem stjórnendur þriggja megineininga skólans verði staðsettir annað hvort í Osló eða Stavanger. Því muni Norðlendingar sitja á hakanum. Áform hafi verið uppi hjá Stórþinginu að hafa sí- og endurmenntun í Bodö en skipulagsbreytingarnar kunni að leiða af sér að ekkert verði af slíkum áformum. Hefur þessari gagnrýni einkum verið mætt með sjónarmiðum um að ákvarðanir um fagleg málefni verði innan megineininga skólans sem verða eins og áður segir þrjár en þær munu samt starfa náið með öðrum. Þannig verði millistjórnendur í Bodö einnig þátttakendur í starfi innan þeirrar einingar sem tilheyrir þeirra starfsemi og fái að koma að ákvarðanatöku. Breytingarnar feli þannig í sér þá nálgun að byggt sé á faglegum grundvelli við frekari þróun og vinnu fremur en að byggt sé á hreinni landafræði.

Til baka