Staðan í kjaraviðræðum – Helstu niðurstöður könnunar
5 sep. 2024
Líkt og flestum er kunnugt felldu lögreglumenn tillögu að nýjum kjarasamningi við ríkið í atkvæðagreiðslu í júnímánuði síðast liðnum. Þegar í kjölfarið hófst vinna við að greina niðurstöðuna og sem mikilvægur liður í því svo og vinnunni framundan fékk LL Vörðu Rannsóknarstofnun Vinnumarkaðarins til þess að leggja könnun fyrir lögreglumenn. Liggja helstu niðurstöður nú fyrir og verður skýrsla Vörðu birt á læstu félagssvæði LL-félaga. Könnunin var lögð fyrir í júlí og ágúst og svöruðu alls 539 lögreglumenn sem nemur svarhlutfalli upp á um 58%.
Samninganefnd LL sem er stjórn félagsins fer með samningsumboð og skipar hún m.a. sérstaka viðræðunefnd sem annast viðræður við samninganefnd ríkisins (SNR). Tillögur um nýjan kjarasamning eru aldrei lagðar í kosningu LL-félaga nema samninganefndin hafi trú á tillögunum og telji ekki lengra verða komist í þeirri atrennu. Núgildandi kjarasamningur hefur að geyma alls 18 efniskafla sem hver um sig fjallar um mikilvæg réttindi. Ljóst er af niðurstöðum könnunar Vörðu og LL nú í sumar, að langsamlega algengasta ástæða þess að tillaga um nýjan kjarasamning var felld liggur í óánægju með stofnanasamning og framkvæmd hans. Má ráða af niðurstöðum að aðrar ástæður á borð við krónutöluhækkanir og prósentuhækkanir o.fl. séu það langt á eftir, að draga má skýrar ályktanir um, að tillaga um nýjan kjarasamning hafi í júnímánuði síðast liðnum verið felld út af stofnanasamningi og stöðu hans. Af þeim sem samþykktu tillögu um nýjan kjarasamning var yfirgnæfandi ástæða samþykkis sú að þeir teldu að ekki væri hægt að ná fram ríkari kröfum.
Alls sögðust 72% þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni vilja sjá breytingar á stofnanasamningi en einungis 10% þátttakenda vilja ekki breytingar. Um 19% sögðust ekki vita hvort þeir vildu slíkar breytingar. Unnt er að greina þessar niðurstöður nánar og sem dæmi má nefna að af starfsstigunum eru það millistarfsstigin sem helst vilja sjá breytingar, þ.e. varðstjórar, rannsóknarlögreglumenn, aðalvarðstjórar og lögreglufulltrúar. Þær breytingar sem lögreglumenn vilja sjá á stofnanasamningi eru í langflestum tilvikum að teknar verði upp aftur sjálfvirkar starfsaldurshækkanir. Þar langt á eftir koma áherslur um að meira verði greitt fyrir námskeið og endurmenntun og að greitt sé fyrir háskólamenntun. Um 31% vilja fella stofnanasamning úr gildi og þá sögðust 26% vilja að sömu starfsstig fái sömu grunnlaun. Þá svöruðu tæplega þrír af hverjum fjórum því til að stofnanasamningur skili sér ekki hærri launum, þ.e. voru annað hvort frekar sammála eða mjög sammála þeirri fullyrðingu. Þrátt fyrir skýr merki um að vilji langflestra sé að sjálfvirkar starfsaldurshækkanir verði innleiddar á nýjan leik eru þó um 40% félaga þeirrar skoðunar að hækkanir í stofnanasamningi eigi að vera á grundvelli persónubundinna þátta. Í þeirri niðurstöðu felst þó vitaskuld ekki að eitt útiloki annað. Mögulega er rétta leiðin fram á við að reyna fara blandaða leið sjálfvirkra starfsaldurshækkana og hækkana á grundvelli persónubundinna þátta. Áfram verður unnið með niðurstöðurnar og þær ræddar og kynntar LL-félögum, lögreglustjórum og SNR á næstunni.
Ýmsar aðrar áhugaverðar og mikilvægar niðurstöður koma fram. Þannig sögðust 82% að laun væru mikilvægari en önnur réttindi. Einungis 14% svöruðu önnur réttindi samkvæmt kjarasamningi. Áberandi er að um 70% svarenda telja að grunnlaun þurfi að hækka á bilinu 121-160 þúsund krónur á þeim samningstíma sem fyrri tillaga að kjarasamningi fól í sér. Almennt fela launahækkanir nýgerðra kjarasamninga í sér um 90 þúsund króna hækkanir á um fjögurra ára samningstíma.
Þá er það einnig mat Vörðu í greiningum og samanburði við aðra hópa, að fjárhagsstaða lögreglumanna sé almennt séð betri en annars launafólks á öllum mælikvörðum fjárhagsstöðu. Þannig eiga lögreglumenn auðveldara með að ná endum saman, þeir meta fjárhagsstöðu sína betri núna en fyrir ári, lægra hlutfall þeirra býr við efnislegan skort og lægra hlutfall er með yfirdrátt, smálán eða önnur skammtímalán heldur en samanburðarhópar. Þá er lægra hlutfall meðal lögreglumanna en annarra sem ekki hafa haft efni á grunnþáttum fyrir börn sín.
Þrátt fyrir þessa stöðu er engu síður ákveðinn hópur lögreglumanna sem býr við slæma fjárhagsstöðu. Þannig sögðust 7% eiga erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman en þetta hlutfall er þó mun lægra en hjá öðrum viðmiðunarhópum þar sem það liggur í um 15%. Þá segjast 6% búa við skilgreinda fátækt en hlutfallið almennt í öðrum mælingum er um 11%. Þá höfðu um 7% ekki efni á fjórum eða fleirum þeirra grunnþátta sem spurst var fyrir um og varða börn. Þrátt fyrir að hér sé ekki um stóran hóp LL-félaga að ræða er ljóst að taka verður þessum niðustöðum alvarlega.
Ekki verður fjallað um frekari niðurstöður könnunarinnar hér. Um þær verður fjallað nánar á öðrum vettvangi. Ástæða er til að þakka LL-félögum fyrir þátttöku í könnuninni. Niðurstöður hennar gagnast LL í næstu skrefum vinnunnar með að reyna ná fram nýjum kjarasamningi fyrir lögreglumenn. Eins og nærri má geta er verkefnið flókið og ljóst að óánægja með stofnanasamning gerir að verkum að reyna verður nýjar leiðir við að ná fram ásættanlegum kjarabótum fyrir lögreglumenn. Er næsti fundur viðræðunefndar LL með samninganefnd ríkisins fyrirhugaður í næstu viku. Þá er einnig vert að hafa í huga að Landssamband lögreglumanna semur um og gerir kjarasamning fyrir hönd félagsmanna sinna við íslenska ríkið þar sem samninganefnd ríkisins er í fyrirsvari gagnaðila. Á sama tíma er mikilvægt að hafa hugfast að það eru lögreglustjórarnir sem eru gagnaðili stofnanasamnings lögreglumanna.
Í tengslum við könnunina efndi LL til happadrættis meðal þátttakenda. Fulltrúi Vörðu Rannsóknarstofnunar Vinnumarkaðarins dró út fimm númer þátttakenda/vinningshafa og hljóta þeir eitt gjafabréf Icelandair hver. Númerin sem upp komu voru 72, 135, 427, 55 og 118. Haft verður samband við þá vinningshafa sem um ræðir.