Allt að fjórðungur umferðarslysa vegna símanotkunar
6 nóv. 2024
Tólf til tuttugu og fimm prósent umferðarslysa má rekja til símanotkunar. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi þessi mál Hildur Kristín Þorvaldsdóttir lögreglukona. Í máli hennar kom fram að mjög algengt sé að fólk sendi skilaboð undir stýri, skoði myndbönd og samfélagsmiðla.
Hildur sagðist hafa greint breytingu á atferli ökumanna þegar komi að símanotkun. „Þetta er búið að breytast í að fólk sé að skrifa skilaboð. Ég hef meira að segja orðið vitni að því að fólk sé að skrifa skilaboð með báðum höndum og stýra með hné,“ sagði hún meðal annars og bætti við að dæmi séu um að fólk horfi á myndbönd undir stýri. Sumir hafi jafnvel komið símunum áföstum við mælaborð. Það sé algengara að fólk sé með símann í hendinni og skoði samfélagsmiðla.
Í þættinum benti Hildur Kristín á að nýlega hafi fallið dómur um banaslys þar sem ökumaður hafi verið í farsíma undir stýri. Við því að vera í síma undir stýri sé viðurlögin sekt upp á 40 þúsund krónur og punktur í ökuferilsskrá.
„Samkvæmt könnun Samgöngustofu voru 98 prósent svarenda sem töldu þetta atferli hættulegt. Svo er alltaf einhver hluti sem gerir þetta samt,“ segir Hildur Kristín.