Fréttir

Lögreglumaðurinn er kominn út

11 nóv. 2024

Lögreglumaðurinn kemur nú út í hundraðasta skipti. Fyrsta blaðið undir þessu heiti var gefið út árið 1981 en nafnið hefur haldist óbreytt til dagsins í dag. Nokkrar sviptingar hafa verið í útgáfu Lögreglumannsins í gegnum tíðina, eins og raunar má segja um útgáfu fleiri blaða og tímarita á Íslandi. Þannig lá útgáfa blaðsins niðri á árunum 1984 til 1988, þegar út kom afmælisblað í tilefni 20 ára afmælis sambandsins.

Lengi vel upp frá því voru þrjú blöð gefin út á ári, með einhverjum undantekningum, en undanfarin ár hafa þau verið eitt til tvö. Núverandi stjórn ákvað í fyrra að gefa út eitt veglegt prentað blað að hausti en setja á móti aukinn kraft í rafræna útgáfu. Þannig hafa fjögur rafræn fréttabréf verið send út árið 2024. Upplýsingagjöf til félagsfólks LL hefur þannig aukist frá því sem áður var, þrátt fyrir að færri prentuð blöð séu gefin út.

Þess má geta að blaðið hefur verið gefið út með rafrænum hætti (PDF) frá árinu 2004. Blöðin upp frá því eru aðgengileg á vef LL. Lögreglumenn sjálfir skrifuðu lengi vel allar greinar í blaðið. Í dag annast verktaki á vegum LL að mestu greina- og viðtalaskrif, í nánu samráði við stjórn og starfsfólk skrifstofu. Í blaðinu er fjallað nánar um þessi tímamót.

Vel er við hæfi að 100. tölublaðið sé veglegt. Blaðið að þessu sinni telur 56 síður, sem gerir útgáfuna þá stærstu í seinni tíð. Útgáfu blaðsins leggja fjölmörg fyrirtæki og velunnarar lögreglunnar um allt land lið í formi auglýsinga. Þeim eru færðar þakkir fyrir stuðninginn.

Viðmælendum blaðsins, sem margir gáfu mikið af sér, eru færðar sérstakar þakkir fyrir framlag þeirra til blaðsins.

Allt félagsfólk LL á að fá blaðið sent heim.

Efnistökin eru að venju fjölbreytt en forsíðu blaðsins prýðir tilvísun í viðtal við Ragnar Jónsson, sem kynnir starfsemi tæknideildar. Óhætt er að segja að deildin hafi haft í nógu að snúast á árinu og þurft að takast á við afar þung mál.

Lesa blaðið hér

Hér fyrir neðan má sjá efnisyfirlit blaðsins

Pistill formanns
Þing LL á Þórisstöðum
– Mikill kraftur í þingstörfum
– Skipan stjórna, sjóða og nefnda

Tölublað nr. 100

Umfjöllun um orlofsmál
– Spennandi nýjung í Ferðaávísun
– Framkvæmdir á Geysi
– Hitaveita og heitur pottur á Eiðum
– Hyrnulandið vel nýtt

Af norrænum vettvangi

Innflytjendur vantreysta lögreglu
– Afbrotafræðingur rannsakaði viðhorf Albana til lögreglu.

Ákvað sex ára að verða lögga
– Viðtal við nýjan varaformann stjórnar LL

Umfjöllun um tæknideild
– Ragnar Jónsson kynnir starfsemi tæknideildar lögreglu

Trúnaðarmenn 
– Umfjöllun um uppbyggingu trúnaðarmannakerfis LL

Viðtal við Víði Reynisson
– Víðir ræðir mikilvægi félagastuðnings og sálfræðiþjónustu

Umfjöllun um unga lögreglumenn
– Ólafur Örn Bragason ræðir áskoranir ungra lögreglumanna
– Á vakt með Guðlaugu Bergmann Sigfúsdóttur og Jóhanni Axel Vignissyni í Reykjavík
– Viðtal við Lillý Óladóttir og María Borg Gunnarsdóttir á Akureyri
– Rætt við Gunnar Helga Friðriksson varðstjóra á Tröllaskaga

Heimsókn til National Center for IT-kriminalitet
– Aðsend grein frá G. Jökli Gíslasyni

Ferð lífeyrisþega um Suðurland
– Ferðasaga frá formanni LL

Íþróttir lögreglumanna á liðnu ári
– Anna Kara og Sandra Rún hraustastar
– LRH sigraði í innanhússknattspyrnu
– Spennandi leikir í Stokkhólmi
– Árið hans Birgis í golfinu
– Pílan er komin til að vera
– Frækin frammistaða á Krít
– Þrír íslenskir keppendur í júdó
– Magnús hitti í mark
– Mótalisti 2024/2025

 

Til baka