Fréttir

Sænska ástandið er orðið að norræna ástandinu

13 nóv. 2024

Fleiri aðilar verða gera meira til að Norðurlöndin verði öruggari staður

Orðræða um sænska ástandið sem lýsing á grófu brotaöldunni í Svíþjóð er notuð einnig í umræðunni á hinum Norðurlöndunum. En að tala um sænska ástandið er orðið úrelt. Í staðinn verður að ræða um norræna ástandið.

Í Danmörku hefur ástand öryggismála verið alvarlegt lengi og hótunarmál verið tíð. Glæpagengi fremja morð, árásir ungra brotamanna hafa færst í aukana og tengingar er þar að finna við sænska hópa. Danska lögreglan leggur mikla vinnu í að fylgjast með ástandinu og rannsakar mál á meðan borgararnir eru sífellt berskjaldaðri gagnvart hótunum og ofbeldisbrotum.

Í Noregi er þróunin ógnvekjandi. Ofbeldisglæpir og gróf glæpastarfsemi ungs fólks og fólks á miðjum aldri eru áberandi á sama tíma og ógnanir gegn borgurum magnast í samhengi við fréttir af öryggismálum.

Í Finnlandi eru glæpahópar að störfum frá Svíþjóð og Eystrasaltsríkjunum. Fyrr á þessu ári haldlagði lögreglan 42 kíló af amfetamíni sem er met í sögulegu samhengi en því hafði verið smyglað frá Svíþjóð ásamt töluverðu magni af skotvopnum og sprengiefni sem einnig var haldlagt.

Í Svíþjóð horfum við upp á barn sem myrðir annað barn, við sjáum barsmíðar, og sprengingar. Hótanir og ógnanir fylgja skipulagðri glæpastarfsemi sem eykst stöðugt.

Hér á Íslandi hefur metfjöldi manndrápsmála komið upp undanfarið. Jafnframt hafa komið upp mjög stór mansalsmál, auk þess sem hótanir og átök milli glæpahópa setja almenning í hættu. Loks hafa lögreglumenn í vaxandi mæli orðið fyrir hótunum og eignaspjöllum.

Þetta eru bara nokkur dæmi sem norræn lögregla er að fást. Starfsumhverfi lögreglumanna verður sífellt erfiðara og meira krefjandi.

Skipulögð glæpastarfsemi leggur undir sig nýja markaði í verslun sinni og viðskiptum með fíkniefni og vopn, smygl á fólki og vændisstarfsemi, alvarleg fjármuna- og efnahagsbrot og brotastarfsemi í tengslum við vinnumarkað. Ekkert Norðurlandanna getur fegrað þetta ástand og brotastarfsemi er orðin slík að umfangi að við getum ekki lengur unnið þessi mál með sama hætti og gert hefur verið fram að þessu.

Við sem förum fyrir landssamböndum lögreglumanna á Norðurlöndum krefjumst margþættra aðgerða til að bregðast við og ná niður brotatíðninni:

  1. Fleiri lögreglumenn

Öll Norðurlöndin þurfa fleiri lögreglumenn. Skortur er á lögreglumönnum bæði í almennri löggæslu og rannsóknum. Að auki þurfa löggæsluyfirvöld að hafa forystu um að greina hvaða hæfni þarf til framtíðar litið. Þeir sem stunda brotastarfsemi tileinka sér sífellt nýja tækni og vinnubrögð. Lögreglan þarf að vera á undan til að geta viðhaldið getu til að veikja glæpastarfsemi og koma í veg fyrir hana.

  1. Þéttara og virkara samstarf

Ef lögreglan á að geta náð til og fylgst með þróun brotastarfseminnar verður að stórefla miðlun upplýsinga. Þéttari samvinna er nauðsynleg til að geta komið í veg fyrir brot og til að geta handtekið og ákært brotamenn. Nú er vissulega verið að byggja upp lögreglustöð á landamærum Noregs og Svíþjóðar, finnska og sænska lögreglan munu vinna saman í Tornedalen og danska og sænska ríkisstjórnin hafa komist að samkomulagi um aukna lögreglusamvinnu. En þetta er ekki nóg. Meira þarf til svo dýpka megi og styrkja samstarf lögreglu á Norðurlöndunum.

  1. Þátttaka landssambanda lögreglumanna

Til að þróa nýjar vinnuaðferðir í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi sem virðir engin landamæri, verða lögregluyfirvöld á öllum Norðurlöndum að vinna saman. Við blasir að landssambönd lögreglumanna séu með í þeirri vinnu. Norrænu landssamböndin eru vön að starfa þétt saman þvert á landamæri og samböndin þekkja hvað lögregla á öllum sviðum starfseminnar getur og þarf til að skila góðu verki.

  1. Fjárfesting í fyrirbyggjandi aðgerðum

Lögreglan getur gert mikið en ekki allt og ekki eingöngu ein og sér. Öll lönd, án tillits til þess hvaða ríkisstjórn situr hverju sinni, verða að gera meira til að stöðva nýliðun í skipulögðum glæpahópum. Vel fjármagnaðir skólar og félagsleg úrræði skipta máli, en einnig möguleikinn á að fá vinnu og geta unnið á vinnumarkaði og samlagast samfélaginu. Þetta skiptir sköpum þegar kemur að því að veita börnum og ungmennum tiltrú á framtíðina og til að styrkja einnig þá fullorðnu. Fleiri aðilar þurfa gera meira til að Norðurlöndin geti orðið sterkara samfélag og öruggari staður.

Lögregluyfirvöld og stjórnmálafólk verða að taka réttar ákvarðanir svo að lögreglulið okkar á Norðurlöndum geti með sameiginlegum kröftum stöðvað það ástand sem viðgengst hefur í tengslum við skipulagða brotahópa og skipulagða glæpastarfsemi. Á því myndu allir græða nema glæpastarfsemin.

Fjölnir Sæmundsson, Landssamband Lögreglumanna, Ísland

Heino Kegel, Politiforbundet, Danmörk

Unn Alma Skatvold, Politiets Fellesforbund, Noregur

Jonne Rinne, Suomen Poliisijärjestöjen Liitto, Finnland

Katharina von Sydow, Polisförbundet, Svíþjóð

Til baka