Af norrænum vettvangi
11 des. 2024
Grein úr Lögreglumanninum / nóvember 2024
Noregur
Mikil áform eru um verulega styrkingu í norsku lögreglunni samkvæmt markmiðssetningu og ákvörðun norskra yfirvalda. Umtalsverð aukning stendur fyrir dyrum á fjárveitingum eða sem nemur um 2,8 milljörðum norskra króna vegna næsta árs. Markmið aukinna fjárveitinga eru aðallega að styrkja norsku lögregluna í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, en þar er fjármagnið um 2,4 milljarðar. Um er að ræða svokallaðan „Gjengpakke 2”, ekki síst til að bregðast við málum vegna glæpahópa sem rætur eiga rekja til ástandsins sem verið hefur í Svíþjóð um nokkurt skeið og hafa skotið niður starfsemi í Noregi.
Þá er einnig ætlunin að styrkja almennu löggæsluna og fjölga stöðugildum þar en um þetta síðastnefnda eru þó skiptar skoðanir því að þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálanna í þá veru er það mat stjórnenda hjá norska landssambandinu að ekki verði um raunverulega aukningu og fjölgun stöðugilda í almennri löggæslu úti í umdæmunum að ræða. Fjármagnið muni fremur renna til aukins eftirlaunakostnaðar, aukningar vegna tæknirannsókna, svo og launaskriðs- og almennra kostnaðarhækkana. Þá er rúmlega 400 milljónum ætlað að renna til fyrirbyggjandi aðgerða og forvarna í tengslum við brot og brotastarfsemi ungmenna. Nánari umfjöllun um þessi mál má m.a. finna í fréttum norskra fjölmiðla, hjá norska landssambandinu og í útgáfu Politiforum.
Svíþjóð
Í umfjöllun Göteborgs Posten seint í sumar er fjallað um starfsmannamál í lögreglu og þá þróun í Svíþjóð, að á undanförnum fimm árum hafi fleiri lögreglumenn og borgaralegir sérfræðingar í lögreglu fengið reisupassann í tengslum við ótilhlýðilega háttsemi, brot og óvandvirkni í starfi. Þannig hafi 73 þurft að hætta störfum vegna slíkra starfsmannamála á árunum 2019-2023, eða næstum því þrefalt fleiri samanborið við árin 2014-2018.
Meðal helstu málategunda sem eru orsakir þessa eru ólöglegar uppflettingar starfsmanna í málaskrám en einnig ölvunarakstursdómar o.fl. Eru uppi ótvíræð merki þess að mun ríkari kröfur séu gerðar til starfsfólks lögreglu en var fyrr á tíð en auk þess skýrir fjölgun í sænsku lögreglunni á tímabilinu einnig að hluta til fjölgun mála.
Danmörk
Í nýlegri útgáfu Dansk Politi er umfjöllun um danska lögregluskólann þar sem fram kemur að uppi séu merki um þverrandi les- og skriflega færni yngri kynslóða úr hópi umsækjenda og nemenda. Kemur m.a. fram að um helmingur umsækjenda standist ekki skriflegan hluta inntökuprófa og í náminu sjálfu þarfnist fleiri og fleiri aukinnar þjálfunar og menntunar í tengslum við skýrsluskrif. Haft er eftir Jan Bjørn rektor skólans að lögð hafi verið meiri áhersla á að bæta þessa þætti, bæði gagnvart umsækjendum og nemendum, enda þörf á að mennta fleiri lögreglumenn bæði nú og til framtíðar. Kemur fram að þessi vandi lýsi sér helst í því að nemendur séu lakari en áður var með að orða hlutina skriflega og koma frá sér. Sérstaklega eru vandamál við að byggja upp setningar, stafa rétt og einnig að orðaforði sé ekki nægilega mikill.
Þá er einnig rætt við Simon Skov Fougt, lektor við Háskólann í Árósum, en hann fjallar m.a. um það hversu alvarleg staða það sé í samfélagi þegar læsi og lestrarhæfni yngri kynslóða sé orðin verulega verri heldur en áður var. Kemur fram í ítarlegri umfjöllun blaðsins að þessi staða hafi verið uppi undanfarin ár en á sama tíma hafi umsækjendum um námið fækkað þannig að segja má að vandamálið sé margþætt.