Þröng og erfið staða
11 des. 2024
Þegar þessi orð eru rituð hafa lögreglumenn verið án nýs kjarasamnings síðan í lok mars 2024. Mánuðirnir án kjarabóta eru að nálgast sjö talsins. Eins og þekkt er hafnaði mikill meirihluti lögreglumanna nýundirrituðum kjarasamningi um miðjan júní. Sá kjarasamningur var mjög í sama anda og önnur stéttarfélög á opinbera og almenna markaðnum höfðu samið um á þeim tíma. Eðlilegt þótti að gefa lögreglumönnum kost á að kynna sér og kjósa um þann samning.
Það að nú sé búið að semja við meirihluta opinberra starfsmanna hefur gert lögreglumönnum erfiðara fyrir í áframhaldandi viðræðum. Á vinnumarkaði var búið að marka mjög ákveðinn ramma sem miðaði að því að lækka vexti og verðbólgu auk þess sem ríkisstjórnin kom með ýmsar aðgerðir sem stuðla áttu að auknum kaupmætti; svo sem gjaldfrjálsar skólamáltíðir, hærri greiðslur í fæðingarorlofi og vaxtabætur.
Rýnt í niðurstöðuna
Eftir að lögreglumenn höfnuðu samningnum lagði stjórn LL, með fulltingi Vörðu, könnun fyrir lögreglumenn um ástæður þess að samningnum var hafnað. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi. Ástæðan var stofnanasamningur frá 2021 og vanefndir á honum. Það að aðalkjarasamningi sé hafnað – ekki vegna innihalds hans eða þess sem samið var um, heldur vegna innihalds stofnanasamnings frá 2021 – flækir auðvitað samningsstöðuna.
Greinilegt er að lögreglumenn gera ekki greinarmun á aðalkjarasamningi sem samið er um við ríkið og á stofnanasamningi sem samið er um við lögreglustjórana.
Stjórn LL fékk því það verkefni í hendurnar nú í sumar að ráðast í lagfæringar á báðum þessum samningum til þess að sátt geti skapast.
Lögreglumenn nefna í könnuninni þrjár meginástæður fyrir því að þeir kusu að hafna samningnum:
- Í fyrsta lagi að í stofnanasamningi væru ekki lengur starfsaldurshækkanir líkt og hjá öðrum stéttum hins opinbera.
- Í öðru lagi að þeim væri ekki greitt fyrir aukna menntun sem þeir hafa aflað sér, líkt og öðrum stéttum.
- Í þriðja lagi sögðust þeir ósáttir við að launamunur væri vegna sama starfsstigs milli mismunandi embætta.
Tilraun hafði verið gerð í felldum kjarasamningi til að lagfæra þriðja atriðið, sem talið er upp hér að ofan. Í honum var ákvæði um að hækka grunnröðun varðstjóra og rannsóknarlögreglumanna í því skyni að minnka þetta bil. Þess bera að geta að um þá útfærslu sem lögð var til var ekki fullkomin sátt. Þannig lögðust nokkrir lögreglustjórar gegn henni en erfitt er að fullyrða um að það hafi haft áhrif á þá sem greiddu atkvæði gegn samningnum.
Mikilvægt að kynna sér samninga
Þá kom í ljós að einhver fjöldi lögreglumanna leit á það sem aðför að sínum kjörum að aðrir lögreglumenn nálguðust þá í launum. Því miður hef ég líka fundið í samtölum mínum við lögreglumenn nú í sumar og haust að margir þeirra sem greiddu atkvæði um kjarasamninginn virðast ekki hafa kynnt sér innihald hans sjálfir. Ég vil af þessu tilefni hvetja félagsfólk til að kynna sér vel þá nýju samninga sem gerðir eru og kjósa um þá út frá eigin sannfæringu og hagsmunum.
Áherslur LL í þeim viðræðum sem verið hafa staðið yfir frá því samningum var hafnað hafa verið að fá leiðréttingu á þessum þremur atriðum.
Segja svigrúmið lítið
Líkt og áður segir segjast fulltrúar ríkisins hafa lítið svigrúm til samninga þar sem búið er að semja við yfirgnæfandi meirihluta á vinnumarkaði á ákveðnum nótum. Tollverðir fóru með sín samningamál fyrir gerðardóm þar sem þeir fengu þau skilaboð að þeir fengju ekki meira en aðrar stéttir eru þegar búnar að semja um.
Þegar þetta er skrifað stefnir í harða kjaradeilu hjá kennurum með tíðum verkföllum. Að sama skapi eru læknar að undirbúa aðgerðir. Það er kunnara en frá þurfi að segja að lögreglumenn eru ekki með verkfallsrétt. Það þýðir ekki aðeins að okkur er óheimilt að fara í allsherjarverkfall heldur líka að okkur er óheimilt að grípa til hvers konar skipulagðra aðgerða sem trufla störf okkar til þess að knýja á um kjarabætur.
Snúin staða
Það er því úr vöndu að ráða eins og staðan er núna. Stéttin hefur sem fyrr segir verið án kjarabóta í yfir sjö mánuði. Mögulega þarf að hugsa hlutina upp á nýtt og meta hvað er mikilvægast ef ekki sést fljótlega til lands. Ég tel þó ljóst, eftir þær viðræður sem hafa farið fram við fulltrúa lögreglustjóra, að einhverjar breytingar verði gerðar á stofnanasamningi. Þær breytingar verða samt að mestu tilfærslur innan samningsins.
Vandamál bæði okkar lögreglumanna og lögreglustjóra hefur verið að það vantar meira fé til að hægt sé að efna og greiða fyrir öll þau þrep sem lögreglumenn telja sig eiga rétt á. Almennt hefur verið samhljómur um það á milli lögreglumanna að í núgildandi stofnanasamningi sé allt of mikið af orðfæri á borð við: „heimilt er að greiða“ í stað „skal greiða“.
Lögreglumenn eru ósáttir við hversu mikil völd núgildandi stofnanasamningur gefur lögreglustjórum til að ákveða hvað sé greitt á meðan lögreglustjórar segja að þeir verði að hafa stjórnunarlegt svigrúm til að greiða fyrir hæfni einstakra lögreglumanna eða í þágu tímabundinna verkefna. Allir samningar um kjör snúast um skiptingu á takmörkuðum gæðum og því fá aldrei báðir aðilar allt sem þeir vilja út úr samningaviðræðum.
Við í stjórn LL erum aftur á móti nú sem fyrr algerlega einbeitt í því verkefni okkar að ná sem allra fyrst bestri niðurstöðu fyrir lögreglumenn.
Fjölnir Sæmundsson, formaður LL
Pistillinn birtist í Lögreglumanninum 40. árg. 100.tbl. í nóv. 2024.