Fréttir

Ævintýri í Norður-Makedóníu: Upplifun af Heimsþingi IPA 2024

19 des. 2024

Aðsend grein frá Ingvari Leví Gunnarssyni.

Það byrjaði allt með stírurnar í augunum, kaffibollann í annarri og tölvumúsina í hinni. Hvern hefði grunað að það sem ég gerði næst, að lesa tölvupóstinn minn, hefði reynst svo örlagaríkt? Frítt flug, frítt hótel, frítt að borða, frítt að drekka, frítt að hafa gaman, svo ég tali nú ekki um góða veðrið og fimm stjörnu félagsskapinn. Það eina sem ég þurfti að gera var að skrá mig í IPA, fylla út eyðublaðið, treysta á Guð og góða lukku og ekki söguna meir. Ég var á leiðinni á Heimsþing IPA 2024 í Norður-Makedóníu!

Upphafleg veðurspá hafði verið blekkjandi og varð til þess að við Ragnar – hinn lögreglumaðurinn sem las tölvupóstinn sinn – tókum með okkur pollaföt, en það reyndist síðar óþarft þar sem sólin skein svo sannarlega í Norður-Makedóníu, Jerúsalem Balkanskaga eins og heimamönnum var tíðrætt um!

Miðvikudagur 18. september:

Okkur Ragnari hafði verið sagt að taka með okkur lögreglubúning númer tvö, og eins og góðum lögreglumönnum sæmir tókst okkur að fylgja þessum annars einföldu fyrirmælum. Þar með mættum við prúðbúnir til setningarathafnar heimsþingsins. Maður minn lifandi, þvílík fyrirmenni í öllu sínu flottasta! Hattar á stærð við stóra pottinn hennar ömmu og medalíur og með því svo fylla mætti páskaegg númer tíu! Ég var ekki lengi að gera mig breiðan og spennti út kassann svo ég liti út fyrir að vera eitthvað annað en meðalmaðurinn sem ég er, tók upp símann og safnaði ljósmyndum eins og krakkarnir safna glansmyndum. Sama ógleymanlega stemmningin var svo til staðar í skrúðgöngunni í gegnum miðbæ Ohrid við mikla kátínu bæjarbúa. Þar féllu reyndar allt og allir í skugga Baldurs, forseta íslenskrar deildar IPA. Hann var sá allra vinsælasti, en svo stóra löggu höfðu fáir á ævi sinni séð og margir vildu fanga ljósmynd með honum.

Um kvöldið var svo boðið til mikillar menningarveislu þar sem flest lönd buðu upp á þjóðlegar veitingar í föstu- og fljótandi formi. Íslenska hangikjötið sló í gegn, skolað niður með vænum sopa af íslensku brennivíni. Hákarlinn var þó helst umtalaður, en margir stórkarlar söknuðu þess frá fyrri viðburðum að gleypa hann í lófafylli í viðurvist margra.

Fimmtudagur 19. september:

Á meðan dugnaðarfólkinu sem komið hafði á heimsþingið til að vinna og leggja hart að sér, skelltum við Ragnar okkur ásamt öðrum skemmtilegum í skoðunarferð til Vevcani, fallegs þorps í fjallshlíðum Norður-Makedóníu. Þar gátu áhugasamir keypt sér Vevcani vegabréf og gjaldmiðil, en bærinn lýsti á táknrænan og kannski helst til kátlega hátt, yfir sjálfstæði árið 1991. Eitthvað minnti andi bæjarbúa mig á Vestmannaeyinga.

Um kvöldið hélt svo endalaus menningin áfram í Ohrid. Gestgjafarnir dönsuðu fyrir okkur framandi þjóðdansa við undirspil þjóðlagatónlistar, ásamt því að gefa okkur að smakka á ýmsu lókal í föstu- og fljótandi formi. Þetta fékk mig þó helst til að velta fyrir mér hvernig maður færi að ef stíga ætti þjóðlegan menningardans heima á Íslandi, og hvort niður í bæ að dansa eftir fjóra eða fimm gæti talist þar á meðal.

Föstudagur 20. september:

Þriðji dagurinn var svo frjáls og okkur sleppt lausum í gamla bæ Ohrid. Heimamönnum lá þar mikið á að segja okkur frá einstöku perlunum sem kenndar eru við Ohrid-vatn, sem sögur segja að jafnvel konungbornir skarti opinberlega. Auðvitað hafði það tilætluð áhrif og ég kom eitthvað fátækari heim!

Eftir að hafa svo þverað bæinn gengum við upp að Ohrid-virki sem stendur á hæsta punkti bæjarins. Útsýnið var magnað en gangan löng og brött og virkið ef til vill illviðráðanlegt sökum þess, allavega miðað við göngulag okkar þegar á hólminn var komið!

Svangir eftir gönguna þurftu þrír úr sér gengnir og ofaldir íslenskir karlmenn í þriggja stafa tölu að næra sig. Ekkert dugði nema kjötplatti fyrir sex og með því sagði þjónustustúlkan þegar hún sá okkur arka inn á staðinn, eða það var að minnsta kosti það sem við vildum og töldum okkur heyra. Að leik loknum, í það er virtist vara aðeins fáein augnablik, tjáði þjónustustúlkan mér heldur kímin á svip að við hefðum þó fengið extra stóran skammt og svo aukalega trefjar svo við fengjum ekki hægðatregðu. Yndislegur dagur með mörgum nýjum og góðum IPA vinum.

Á meðan á öllu þessu stóð sá Ragnar sér leik og borði, leigði sér bíl og ók yfir til Albaníu í ævintýraleit, fór á vafasaman stað til þvagláts og bakkaði næstum því á bíl. Hann komst þó heill til baka og með öllu laus við hægðatregðu.

Um kvöldið fengum við Ragnar sem sérstakir áhangendur íslensku stjórnarinnar, að sitja samsæti með Martin, forseta IPA og Mick, fráfarandi varaforseta IPA, ásamt öðru góðu fólki. Ótrúlega almennilegir náungar í forsvari vináttusamtaka sem telja ekki nema rétt tæplega fjölda íbúa okkar ástkæra Íslands. Skynja mátti á samtalinu sem við áttum að eftirspurn væri eftir ungu fólki til þátttöku í starfsemi IPA og af nægu væri að taka. Þakklátur fyrir áhuga okkar spurði Martin hvort við færum ekki með þetta beint til félaga okkar í lögreglunni á Íslandi. Jú sögðum við, og hér er það, tvær flugur í einu höggi og það eina sem ferðin til Makedóníu kostaði, að drita smá frásögn á blað!

Laugardagur 21. september:

Síðasti dagurinn var frábær eins og þeir fyrri. Laust við fundarhöld og skriffinnsku var allt stóðið sent í bátsferð út á Ohrid-vatn að Sveti Naum klaustri. Þar segir að Sankti Naum hvíli og hægt sé að heyra hjartslátt hans leggi maður eyra að gröf hans. Ég velti fyrir mér hvað maðurinn hafist þá við og hvort um lögreglumál sé að ræða ef satt reynist.

Öllu er þó afmörkuð stund eins og Prédikarinn segir og eins var því farið með þessa ferð. Herlegheitunum lauk með galakvöldi þar sem öllu var til tjaldað. Að sjálfsögðu hélt ég áfram að taka sjálfumyndir með þeim sem höfðu mesta búningablætið með tilheyrandi glamúr og glans, gefandi að skilja gríðarlega ánægðir með athyglina.

Að lokum. Það var mjög gaman í ferðinni, mikið hlegið og það má ekki vanmeta. IPA snýst nefnilega um meira en bara faglega tengslamyndun, IPA leggur áherslu á eflingu persónulegra tengsla lögreglumanna hvaðanæva að. Það eru ótal möguleikar í boði innan IPA í formi ýmissa viðburða, ferðatækifæra, námskeiða og svo framvegis. Svo ekki sé minnst á myndun nýrra og ómetanlegra vináttutengsla. Það er þó eins með þetta og allt annað í lífinu – nema reyndar vexti, verðbólgu og arfaslök laun lögreglumanna – að það er undir hverjum og einum komið að sækjast eftir því sem lífið og IPA hefur upp á að bjóða. Ekkert gerist af sjálfu sér!

Ef þú vilt ganga í IPA þarftu að senda tölvupóst á ipaisland@gmail.com með efninu „nýr félagi“. Þá þarf að fylgja með nafnið þitt, kennitala, heimilisfang, lögregluembætti og lögreglunúmer. Árgjaldið er 5000 kr. og er innheimt af launum 1. mars ár hvert. Persónuupplýsingar eru varslaðar hjá forseta, ritara og gjaldkera til að útbúa félagsskírteini og innheimta árgjald.

Á efstu myndinni  hér fyrir ofan er Gunnar með vinum sínum frá Spáni. Á þeirri vinstra megin er Ragnar að kaupa vegabréf ofl. Ragnar og greinarhöfundur eru á þeirri þriðju, hér fyrir ofan.

Virkið í Ohrid.

Um þetta var slegist.

 

 

Baldur í einni af fjölda myndataka.

Skrúðganga í Ohrid.

 

Til baka