Boðar fjölgun lögreglumanna um 50 strax á þessu ári
20 jan. 2025
Nýr dómsmálaráðherra hyggst fjölga lögreglumönnum um fimmtíu á þessu ári. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Þar er sagt frá fundi Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra við lögregluráð síðastliðinn fimmtudag. Ráðherra ræddi þar við lögreglustjóra og átti við þá samtal. Fram kemur að þetta hafi verið fyrsti fundur nýs ráðherra með öðrum en starfsfólki ráðuneytisins.
Ráðherra sagði að fáliðuð lögregla ógni ekki aðeins öryggi lögreglumanna heldur einnig öryggi fólksins í landinu. Fólk eigi að geta lifað sínu lífi án þess að öryggis þess og öryggistilfinningu sé ógnað. Sömuleiðis þyrfti að efla öryggiskennd lögreglumanna. Einhugur sé innan ríkisstjórnarinnar um að tryggja öryggi í landinu. Um forgangsröðun og sýn dómsmálaráðuneytisins sagði Þorbjörg Sigríður:
„Verkefnið er að efla löggæslu í landinu. Dómsmálaráðuneytið er ráðuneyti almannaöryggis, sem snýst um öryggi fólksins í landinu í sínu daglega lífi. Það er frumskylda ríkisins að tryggja öryggi fólks. Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er sérstaklega vikið að skipulagðri brotastarfsemi, netbrotum og mansali og á þeim þáttum þarf að taka. Lögreglan þarf að geta tekist á við skipulagða brotastarfsemi af meiri þunga, en hún hefur því miður fest rætur á Íslandi. Með fjölgun í stéttinni verður hægt að leggja enn meiri áherslu á rannsóknir á henni.“
Nánar má lesa um fundinn hér en ráðherra hafði einnig orð á því að heildarfjöldi starfandi lögreglumanna hefði ekki haldist í hendur við fólksfjölgun á Íslandi og stórfellda aukningu á komum ferðamanna. Þá hefði vopnaburður meðal almennings aukist.