Sumarferð lífeyrisþegadeildar LL 2025
6 jún. 2025
Landssamband lögreglumanna minnir á að sumarferð lífeyrisþegadeildar félagsins verður farin miðvikudaginn 18. júní n.k. en búið er fyrir nokkru að senda út boðsbréf. Skráning í ferðina stendur yfir og geta áhugasamir eftirlaunaþegar úr röðum lögreglumanna skráð sig með því að hafa samband við skrifstofu LL á opnunartíma eða með því að senda félaginu tölvupóst á ll@logreglumenn.is. Makar eru velkomnir í ferðina. Skráning stendur yfir til og með þriðjudeginum 10. júní n.k.
Ferðir þessar hafa gjarnan mælst vel fyrir og verið vel heppnaðar en þær eiga rætur áratugi aftur í tímann. Safnast verður saman við Perluna að morgni miðvikudagsins 18. júní og er brottför áætluð klukkan 08 og heimkoma um kvöldið. Verð er 9.000 krónur á mann en innifalið er hádegismatur, kvöldverður, rútuferð ásamt leiðsögn, ásamt mjög skemmtilegum ferðafélögum og góðum félagsskap. Í ár er förinni heitið um Borgarnes, Mýrar og Snæfellsnes og er fararstjóri Örn Árnason leikari og leiðsögumaður.