Úthlutunarreglur styrktar- og sjúkrasjóðs LL

Reglurnar tóku gildi 8. mars 2023

1. Inngangur

Sjóðurinn greiðir bætur til sjóðfélaga í slysa- og veikindatilfellum eða við dauðsfall eftir því sem nánar er mælt fyrir í reglum þessum.

2. Sjóðsaðild

Almenn réttindi: Réttur til úthlutunar úr sjóðnum er háður því að greitt hafi verið styrktarsjóðsframlag vegna sjóðfélaga samfellt í 6 mánuði áður en tekjutap varð eða til útgjalda, sem veita rétt til styrks úr sjóðnum, var stofnað. Héraðslögreglumenn geta fengið allt að 20% styrk.

Í fæðingarorlofi: Sjóðfélagar sem fara í fæðingarorlof og velja að greiða stéttarfélagsgjald til LL meðan á því stendur halda fullum réttindum.

Í veikindum: Sjóðfélagi sem hefur fullnýtt rétt sinn til dagpeninga nýtur áfram annarra réttinda í sjóðnum í allt að eitt ár stofni hann ekki til réttinda annars staðar.

Atvinnulausir: Sjóðfélagar sem orðið hafa atvinnulausir og skráðir eru hjá atvinnuleysistryggingarsjóði og greiða félagsgjöld til LL geta sótt um og fengið styrk úr sjóðnum ef viðkomandi hefur átt aðild að sjóðnum einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum.

Aðild í launalausu leyfi: Sjóðfélagar í launalausu leyfi eiga ekki rétt til úthlutunar. Réttur stofnast strax og viðkomandi hefur að nýju störf í lögreglu að leyfi loknu.

Aðild við eftirlaun: Félagsmenn lífeyrisþegadeildar LL halda rétti til styrkja samkvæmt stafliðum 5 – 8  í 24 mánuði eftir starfslok við 65 ára aldur svo fremi sem þeir eiga engan rétt hjá öðru stéttarfélagi á sama tíma.  Að þeim tíma liðnum eiga félagsmenn lífeyrisþegadeildar aðeins rétt á styrk samkvæmt staflið nr. 8.

3. Umsóknir og gögn

 • Umsóknir: Umsókn um sjúkradagpeninga skal gerð á sérstökum eyðublöðum og henni skilað inn ásamt nauðsynlegum gögnum fyrir 20. hvers mánaðar.
 • Gögn: Með umsókn um dagpeninga skal fylgja læknisvottorð um vinnuhæfni, síðasti launaseðill (eða fleiri eftir atvikum) ásamt staðfestingu á heildarlaunum sl. 12 mánuði.
 • Vegna sjúkraþjálfunar, sjúkranudds, meðferðar á NLFÍ og hnykklækninga skal fylgja frumrit af reikningi/kvittun sem ber með sér fjölda meðferða og dagsetningu þeirra.  Kvittun skal vera með nafni og kennitölu umsækjanda og stimpli þjónustuaðila. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál.
 • Afgreiðsla umsókna: Heimilt er stjórn sjóðsins að hafna umsóknum, eða fresta afgreiðslu þeirra, ef þær eru ekki fullnægjandi að mati stjórnar eða ef ekki eru fyrirliggjandi þau gögn sem stjórn sjóðsins telur nauðsynleg vegna afgreiðslu umsóknarinnar. Styrkir úr sjóðnum greiðast vikulega, en vafamál fara fyrir fundi stjórnar sjóðins sem eru að jafnaði síðasta miðvikudag í mánuði.
 • Ákvarðanir sjóðstjórnar eru endanlegar.  Umsækjandi getur krafist skriflegs rökstuðnings vegna synjunar.
 • Leyfi fjárhagsstaða sjóðsins ekki fullar greiðslur til félaga í samræmi við framangreindar reglur er sjóðsstjórn heimilt að skerða greiðslur til sjóðfélaga.
 • Fyrning umsókna: Réttur til greiðslna úr sjóðnum fyrnist sé ekki sótt um þær innan 12 mánaða frá því að til útgjalda var stofnað eða tekjutap varð. Réttur til greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar eða starfsmanns sjóðsins fyrnist ef hennar hefur ekki verið vitjað innan 6 mánaða frá því að tilkynning um úthlutunarrétt var send til viðkomandi.
 • Skilgreiningar: Með barni, þ.e. einstaklingi undir 18 ára aldri, er í reglum þessum auk kynbarns, kjörbarns og fósturbarns átt við stjúpbarn og barnabarn sem býr á heimili sjóðsfélaga eða þarfnast greinilega umönnunar sjóðfélaga.
 • Með langtímaveikindum er átt við veikindi sem vara samfellt lengur en í 30 almanaksdaga.

4. Dagpeningar vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu

Dagpeningar greiðast úr sjóðnum með eftirfarandi hætti:

 • Fjárhæð: Upphæð dagpeninga skal vera kr. 19500,- á dag miðað við fullt starf og hlutfallslega í samræmi við lægra starfshlutfall. Fjárhæðin skal þó aldrei vera hærri en þær tekjur sem falla niður vegna veikindanna. Heimilt er að greiða hlutfallslega dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna veikinda unnið fulla vinnu samkvæmt læknisráði.
 • Upphaf greiðslutímabils: Dagpeningar greiðast frá þeim tíma sem samningsbundinni launagreiðslu ríkissjóðs eða þriðja aðila, sem greiðir sjóðfélaga laun í stað atvinnurekanda t.d. vátryggingafélag, lýkur og veikindin hafa staðið í minnst 10 daga fram yfir áunninn veikindarétt. Dagpeningar greiðast ekki þegar um varanlega örorku er að ræða eða félagsmaður á rétt á örorku- eða ellilífeyri og nýtur fullrar tekjutryggingar.
 • Tímalengd greiðslutímabils: Réttur sjóðsfélaga til dagpeninga á hverjum 12 mánuðum skal vera þannig:
  Starfstími 0 – 1 ár, 45 dagar
  Starfstími yfir 1 ár, 120 dagar. Þó getur stjórn sjóðsins í sérstökum undantekningartilvikum lengt rétt sjóðsfélaga þannig að heildarréttur verði allt að 180 dagar.

  Stjórn sjóðsins getur vikið frá framangreindum dagaviðmiðunum. Dagpeningar greiðast ekki lengur en ráðningu starfsmanns er ætlað að standa.

 • Veikindi maka eða barna sjóðfélaga: Heimilt er að greiða dagpeninga í allt að 60 daga vegna langvarandi veikinda maka eða barna sjóðsfélaga enda missi hann launatekjur vegna þeirra. Sjóðfélagi skal þó hafa náð eins árs félagsaðild til að njóta þessarar heimildar.

5. Styrkir vegna þjálfunar, forvarna og fyrirbyggjandi aðgerða

Sjóðurinn styrkir þjálfun, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir á eftirfarandi hátt:

 • Sjúkraþjálfun, sjúkranudd o.fl: Styrkur til sjúkraþjálfunar, sjúkranudds, nálastungumeðferðar og hnykklækninga (kiropraktor) eru kr. 3.000,- fyrir hvert skipti, allt að 25 skipti á ári.
 • Sálfræðimeðferð: Styrkur til sálfræðimeðferðar er kr. 10.000,- fyrir hvert skipti í allt að 10 skipti á ári. Fyrir greiningarviðtal er gr. 50% , hámark 25 þúsund.
 • Meðferð á dvalar- eða heilsustofnun að læknisráði: Styrkur til meðferðar hjá Heilsustofnuninni í Hveragerði, einnig til þjálfunar hjá Hjarta- og lungnastöðinni eða sambærilegum stofnunum að hámarki 150.000,- á ári.
 • Krabbameins- og hjartaskoðun: Styrkur vegna krabbameinsskoðunar er greiddur einu sinni á ári. Einnig vegna skoðunar hjá Hjartavernd eða sambærilega skoðun hjá sérfræðingi einu sinni á ári. Hámarksstyrkur er 50.000,- á ári.
 • Ferðakostnaður: Sjóðurinn tekur þátt í ferðakostnaði sjóðsfélaga sem þurfa að fara landshluta á milli til aðgerða eða rannsókna að læknisráði vegna þeirra sjálfra, maka eða barna, hafi verið greidd félagsgjöld í sjóðinn í 6 af síðustu 12 mánuðum. Sækja verður um styrk til Tryggingastofnunar.  Sé beiðni hafnað greiðir sjóðurinn kr. 20.000,- fyrir 250 – 400 km akstur og kr.30.000,- fyrir akstur umfram 400 km.  Fyrir flugfargjöld greiðir sjóðurinn allt að kr. 30.000,-.  Greitt verður að hámarki fyrir þrjár ferðir á hverju 12 mánaða tímabili.  Sjóðstjórn er heimilt að víkja frá þessum viðmiðunum ef fyrir því liggja ríkar ástæður.
 • Meðferð á glasafrjóvgunardeild: Greitt er 50% af reikningi vegna smásjár- eða glasafrjóvgunarmeðferða (lyf ekki innifalin). Hámarksstyrkur er kr. 300.000,- á ári. Styrkur vegna ættleiðingar barns er að hámarki kr. 250.000,-.
 • Gleraugu, linsur, augnaðgerðir og heyrnatæki: Styrkur vegna „laser“-aðgerðar á öðru auga kr. 150.000,- eða kr. 300.000,- fyrir bæði augu. Greitt er að hámarki kr. 100.000,- af gleraugnaverði (glerjum og umgjörð) á tveggja ára fresti, en ekki er tekið þátt í fyrstu 30.000.- kr.. Nýta má styrkréttinn til linsukaupa í stað gleraugna. Þá er greitt 50% af linsuverði, hámark 15.000.- á ári. Styrkur vegna kaupa á heyrnartæki kr. 125.000,- fyrir hvort tæki eða samtals kr. 250.000,- á þriggja ára fresti.
 • Tannviðgerðir: Styrkur vegna tannlæknakostnaðar er á 24 mánaða fresti.  Styrkurinn nemur 60% af kostnaði sem er umfram kr. 100.000,-, þó að hámarki kr. 300.000,-.
 • Göngugreining/Innlegg/Spelkur: Styrkur vegna göngugreiningar, innleggja og spelkna er að hámarki kr. 25.000,-á ári.
 • Líkamsrækt: Styrkur til líkamsræktar er kr. 25.000,- á ári. Styrk má nýta f. tækjabúnaði til íþróttaiðkunar. Fatnaður og fylgihlutir eru ekki styrkt.

6. Styrkur vegna sérstakra aðstæðna

Heimilt er, eftir mati sjóðstjórnar hverju sinni, að veita styrk vegna sérstakra aðstæðna sem hafa í för með sér launamissi eða veruleg fjárútlát sjóðsfélaga vegna veikinda hans sjálfs eða nánustu fjölskyldu.

7. Læknis- og/eða lyfjakostnaður

Heimilt er sjóðstjórn að greiða læknis- og/eða lyfjakostnað, ekki er tekið þátt í kostnaði undir 30 þúsundum en eftir það  allt að kr. 60.000,- á ári. samkvæmt mati stjórnar hverju sinni.

8. Andlát sjóðfélaga

Við andlát sjóðfélaga er heimilt að greiða allt að kr. 250.000,- vegna dánarbóta/útfararkostnaðar.  Dánarbæturnar/útfararstyrkurinn nær einnig til þeirra sem látið hafa af störfum og farið á ellilífeyri, hafi þeir verið félagsmenn í LL síðustu 12 mánuði fyrir starfslok.  Við andlát maka eða barna sjóðfélaga er heimilt að greiða allt að kr. 200.000,- vegna dánarbóta/útfararkostnaðar.

9. Fæðingarstyrkur

Frá og með 1. janúar 2009 er fæðingarstyrkur greiddur úr Styrktar- og sjúkrasjóði LL.  Styrkurinn er jafnhár til kvenna og karla en hliðsjón er höfð af starfshlutfalli.  Fullur styrkur er kr. 300.000,- vegna hvers barns og miðast við að foreldri hafi stundað 100% starf síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns/barna.

 1. Foreldrar sem eru félagsmenn í LL eiga rétt á styrk séu þeir aðilar að sjóðnum og uppfylla skilyrði um sjóðaðild, karlar jafnt sem konur.
 2. Séu báðir foreldrar í LL sækja þau um hvort í sínu lagi.
 3. Umsækjandi þarf að vera að lágmarki í 25% starfshlutfalli til að eiga rétt á styrk. Styrkurinn lækkar í hlutfalli við skert starfshlutfall. Héraðslögreglumenn geta fengið allt að 20% styrk.
 4. Um ættleiðingar gilda sömu reglur og um venjulega fæðingu væri að ræða.
 5. Sé um fósturlát eftir 18 vikna meðgöngu er greiddur hálfur fæðingarstyrkur.
 6. Hægt er að nýta styrkinn upp að 18 mánaða aldri barns/barna.

Fæðingarstyrkur er veittur til foreldris gegn framvísun fæðingarvottorðs og staðfestingu atvinnurekanda um að umsækjandi sé með ráðningu þar sem fram koma upplýsingar um starfshlutfall hans sl. 6 mánuði fyrir fæðingu barns/barna.

10. Breytingar og gildistaka á reglum sjóðsins

Stjórn sjóðsins áskilur sér allan rétt til að breyta reglunum í samráði við stjórn LL, sem þarf að staðfesta þær hverju sinni.  Reglurnar taka gildi við staðfestingu stjórnar LL og skulu birtar á heimasíðu Landssambandsins.

Samþykkt á fundi stjórnar sjóðsins 26. janúar 2009, 15. mars. 2010, 10. janúar 2011, 18. janúar 2012, 4. desember 2017 og 28. febrúar 2023.

Staðfestar af stjórn LL 28. janúar 2009, 24. mars 2010, 8. febrúar 2011,  21. janúar 2012 , 26. janúar 2015, 12.desember 2015, 2. desember 2016 ,15. janúar 2018, 21. janúar 2019,13. janúar 2020, 13. desember 2021 og 6. mars 2023.

Til baka