Kjara- og réttindamál
Rétt er að vekja athygli á þeirri staðreynd, sem fram kemur í 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda að kjarasamningar eru samningar um lágmarksréttindi:
„1. gr. [Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.]“
Um kjarasamninga opinberra starfsmanna fer skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Einnig gilda um samningana lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, eftir því sem við á, sem og lög nr. 30/1987 um orlof (þar er t.d. að finna ákvæði í 12. gr. þess efnis að launþega er óheimilt að vinna fyrir launum í starfsgrein sinni eða skyldum störfum meðan hann er í orlofi).
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) heldur úti ágætri heimasíðu – EKKERT SVINDL – þar sem er að finna ýmsan fróðleik um réttindi launafólks, kjarasamninga og gerð þeirra, aðild að stéttarfélögum, hlutverk og tilgang stéttarfélaga auk annars. Upplýsingarnar á þessari síðu eru fróðlegur lestur en hafa verður í huga við þann lestur að launaumhverfi opinberra starfsmanna er í nokkru frábrugðið því sem viðgengst á almenna vinnumarkaðnum.