Saga LL

Landssamband lögreglumanna

– Forysta í 40 ár –

 

Grein Jónasar Magnússonar, fyrrverandi formanns Landssambands lögreglumanna sem birtist í 3. tbl. Lögreglumannsins 2008 í tilefni af 40 ára afmæli LL.

Þó að saga lögreglunnar spanni yfir 200 ár þróaðist stéttvísi seint með okkur og það á reyndar við um fleiri starfsgreinar í íslensku samfélagi. Er það eflaust hluti sögu okkar enda fagna Íslendingar 90 ára fullveldisafmæli þennan sama dag, þótt við yrðum ekki sjálfstæð þjóð fyrr en 17. júní 1944. Heimildir herma að svo hafi verið fyrir mælt að lögreglumenn ættu að fá þóknun við hæfi fyrir störf sín að mati þar til bærra aðila.

Stofnun stéttarfélaga lögreglumanna:

Á þriðja áratug síðustu aldar voru uppi áform lögreglumanna í Reykjavík um stofnun stéttarfélags en stofnun Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar 17. janúar 1926 frestaði framkvæmdinni og lögreglumenn gengu í starfsmannafélagið enda lögreglumenn þess tíma starfsmenn bæjar- og sveitarfélaga. Hugmyndinni var þó haldið til haga og á vaktaskiptum klukkan 6 að morgni 16. desember 1936 var Lögreglufélag Reykjavíkur stofnað, fyrst íslenskra lögreglufélaga. Engu að síður höfðu lögreglumenn skipst á skoðunum um möguleika á stofnun landssamtaka en fyrstu skráðar heimildir er að finna í bréfi Stefáns Árnasonar, yfirlögregluþjóns í Vestmannaeyjum, til Lögreglufélags Reykjavíkur, þar sem hann hvetur til stofnunar lögreglufélags fyrir landið allt. Í bréfinu nefndi hann m.a. að slíkt félag ætti að hafa að markmiði; launakjör, þjónustubúning, starfstíma, tryggingamál og menntun. Í bréfinu kemur fram að umræða sé komin í gang um að lögreglan verði gerð að ríkislögreglu. Bréfið vakti mikla athygli og var rætt á fundum Lögreglufélags Reykjavíkur en sennilega hefur hugmyndinni ekki verið fylgt nægilega eftir þannig að framvinda dróst á langinn. Lögreglufélag Reykjavíkur var svo eitt stofnfélaga BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, 14. febrúar 1942.

Þróunin heldur áfram og 1949 stofna lögreglumenn á Suðurnesjum stéttarfélag, Lögreglufélag Suðurnesja. Félagið gekk í raðir BSRB og þessi tvö lögreglufélög voru á þeim tíma fullburða stéttarfélög, með samningsrétt við launagreiðendur. Árið 1955 var svo Lögreglumannafélag Hafnarfjarðar stofnað, síðar Lögreglufélag Hafnarfjarðar. Skriður kemst svo á stofnun landssamtaka árið 1966, í kjölfar greinar sem Erlingur Pálsson yfirlögregluþjónn ritaði í Morgunblaðið í júnímánuði, þar sem hann bendir á að öll rök hnígi í þá átt að stofnað verði Lögreglusamband Íslands. Í greininni nefnir hann einnig þau markmið sem sambandið ætti að vinna að sem voru helst; að koma öllum starfandi lögreglumönnum undir eina faglega stjórn, að stofna lögreglufélög þar sem lögreglumenn hafi ekki myndað fagleg samtök og verði að fela öðrum félagasamtökum að fara með kjaramál sín, að aðstoða sambandsfélög við samninga um ýmis hagsmuna- og menningarmál, að hafa forystu í samningum um kjaramál, réttindi og skyldur eftir því sem þörf krefði, að kynna sér starfsaðferðir lögreglu í öðrum löndum og kynna sér árangur sem þar hafi náðst í hagsmuna- og menningarmálum lögreglumanna, að gefa út sameiginlegt málgagn til að auka skilning fólks á nauðsyn góðs samstarfs við lögreglu svo sem bestum árangri verði náð við löggæslu.

Erlingur lést síðar það sama ár og sá því ekki markmiðin rætast. Það kom í hlut annarra að halda merki hans á lofti og í apríl 1967 flutti Jónas Jónasson tillögu á fundi Lögreglufélags Reykjavíkur um að kjörin yrði nefnd til að kanna grundvöll fyrir stofnun Landssambands lögreglumanna. Í nefndina voru kosnir auk Jónasar, þeir Ívar Hannesson og Gísli Guðmundsson. Nefndin fundaði með fulltrúum lögreglumanna í nágrenni Reykjavíkur og mættu til fundarins Björn H. Björnsson frá Akranesi, Björn Pálsson frá Keflavíkurflugvelli, Garðar Sigfússon frá Kópavogi, Steingrímur Atlason frá Hafnarfirði, Sigtryggur Árnason frá Keflavík og Tómas Jónsson frá Selfossi. Kom berlega í ljós að mikill áhugi var fyrir stofnun heildarsamtaka og niðurstaðan að fela Lögreglufélagi Reykjavíkur að beita sér fyrir stofnun landssambands fyrir lögreglumenn. Frá þeim tíma var forystan ótvírætt í höndum Jónasar Jónassonar.

Á aðalfundi Lögreglufélags Reykjavíkur í febrúar 1968 var samþykkt að hrinda máli þessu í framkvæmd og aftur var fundað með lögreglumönnum úr nágrannasveitarfélögum og undirbúningsnefnd sett á laggirnar í septembermánuði. Hana skipuðu auk Jónasar þeir Kristján Sigurðsson Reykjavík og Ingólfur Ingvarsson Kópavogi. Jafnframt var ákveðið að unnið yrði að stofnun lögreglufélaga víðs vegar um landið, helst í hverju kjördæmi fyrir sig. Í október og nóvember voru síðan stofnuð Lögreglufélag Norðurlands, Lögreglufélag Vestmannaeyja, Lögreglufélag Keflavíkur, Lögreglufélag Kópavogs og Lögreglufélag Suðurlands. Á fullveldisdaginn 1. desember var svo blásið til stofnfundar að viðstöddum 18 fulltrúum 9 lögreglufélaga en auk framantalinna var rétt óstofnað Lögreglufélag Vesturlands. Á Austurlandi og Vestfjörðum var ekki búið að stofna lögreglufélög en fréttir bárust á stofnfundinn af miklum áhuga lögreglumanna á þessum svæðum fyrir að gerast aðilar. Jónas Jónasson var kjörinn fyrsti formaður Landssambands lögreglumanna og aðrir í stjórn Bogi Jóhann Bjarnason, Kristján Sigurðsson og Ólafur Guðmundsson. Varastjórn skipuðu þeir Gísli Guðmundsson, Tómas Jónsson og Axel Kvaran. Frá upphafi hafa 9 einstaklingar gegnt formennsku Landssambands lögreglumanna, þeir eru; Jónas Jónasson 1968-1982, Hrafn Marinósson 1982-1984, Tómas Jónsson 1984-1986, Einar Bjarnason 1986-1988, Þorgrímur Guðmundsson 1988-1992, Jónas Magnússon 1992-2002, Óskar Bjartmarz 2002-2005, Sveinn Ingiberg Magnússon 2005-2008 og Snorri Magnússon frá 2008.

Kjaramál:

Eðli máls samkvæmt voru kjaramál aðalverkefni nýstofnaðra samtaka. Þau voru ekki einföld þá frekar en nú á dögum. Í upphafi voru lögreglumenn starfsmenn bæjar- og sveitarfélaga auk lítils hóps ríkisstarfsmanna. Skriður komst á þessi mál 1972 þegar Alþingi ákvað að færa lögregluna frá sveitarfélögum til ríkis og samþykkt voru lög um lögreglumenn. Samningsrétturinn var þá á hendi BSRB sem gerði aðalkjarasamning eins og hann var þá kallaður en einstök stéttarfélög gerðu í kjölfar hans sérkjarasamning, hvert fyrir sína umbjóðendur. Samningsréttarlög breyttust síðan 1986 og færðist samningsrétturinn þá í hendur hvers stéttarfélags fyrir sig. Aðildarfélög BSRB hafa engu að síður átt víðtækt samstarf við gerð kjarasamninga og bandalaginu oft falið að annast samninga um ýmis sameiginleg réttindamál þótt í framhaldinu hafi oft orðið breytingar á lokafrágangi í ljósi mismunandi hagsmuna ólíkra hópa. Það lá í loftinu 1986 að Alþingi hygðist leggja bann við verkföllum lögreglumanna. Verkfallsréttinum hafði þó ekki verið hægt að beita sem slíkum en athygli hafði vakið, ekki síst erlendis, virk þátttaka lögreglumanna í verkfallsaðgerðum BSRB. Forystan á þeim tíma kaus að ræða leiðir sem komið gætu í stað verkfallsréttar og var fundin sú lending að sérstakur viðmiðunarsamningur var felldur inn í kjarasamning þar sem Hagstofan átti að meta út frá ákveðnum forsendum hvort lögreglumenn hefðu haldið kjaralegri stöðu sinni miðað við valda hópa og yrði niðurstaðan neikvæð skyldi þeim bættur mismunurinn frá þeim tíma sem hans varð vart. Í fyrstu voru vanefndir af hálfu viðsemjandans, útreikningar fóru ekki fram og seint og um síðir voru þeir gerðir en ekki virtust aðilar þá á einu máli um forsendur útreikninga. Árið 1992 var ákveðið að leggjast í rannsókn á tilurð samningsins og þeirra forsendna sem honum var ætlað að uppfylla. Var þá skipaður sérstakur vinnuhópur sem hafði það verkefni að fara yfir stöðu mála frá upphafi og að tillögu fjármálaráðuneytisins var Þóri Einarssyni, prófessor við Háskóla Íslands og síðar Ríkissáttasemjara, falið að veita starfshópnum formennsku. Aðrir í hópnum voru Jónas Magnússon og Kristján Kristjánsson frá LL og Indriði Þorláksson og Benedikt Jóhannesson frá fjármálaráðuneyti. Undir dyggri forystu Þóris komst hópurinn loks að niðurstöðu og hækkuðu grunnlaun nokkuð, afturvirkt til þess tíma sem mismunur var talinn rakinn til. Þetta fyrirkomulag átti um nokkurra ára tímabil eftir að virka og skilaði stéttinni nokkrum kjarabótum á komandi árum. Það var hins vegar ljóst að samningurinn var þyrnir í augum viðsemjandans og var hann í byrjun þessarar aldar felldur brott úr kjarasamningi, þó að segja megi að hann hafi verið keyptur fyrir nokkrar bætur. Leifar hans eru þó enn til staðar og heimilt að efna til rannsókna á kjörum lögreglumanna og annarra, og leiði niðurstaðan í ljós að hallað hafi á lögreglumenn, skal það notað til viðmiðunar í komandi kjaraviðræðum aðila. Ekki hefur enn reynt á þetta fyrirkomulag. Í öllu falli má þó segja að við stofnun sambandsins voru grunnlaun íslenskra lögreglumanna um helmingi lægri en lögreglumanna á Norðurlöndum en það hefur breyst verulega og í dag eru grunnlaun á líku róli.

Þegar íslenskir lögreglumenn fóru að kynnast í auknum mæli starfsháttum og kjörum lögreglumanna í nágrannalöndum kom ýmislegt í ljós sem var lakara hjá félagsmönnum LL en aðrir áttu að venjast. Hvergi þekktist að lögreglumenn ynnu um eða yfir 100 klst. í yfirvinnu á mánuði og hvergi þekktist að lögreglumenn ynnu til 70 ára aldurs. Var lækkun starfslokaaldurs því eitt af helstu baráttumálum LL frá stofnun þess. Á löngum tíma voru skipaðir starfshópar LL og ráðuneyta til að leita leiða til breytinga. Undir lok síðustu aldar komst þó skriður á þessi mál og þáverandi fjármálaráðherra, Geir Haarde, lýsti vilja sínum f.h. ríkisstjórnar til að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, svo hægt yrði að tryggja lögreglumönnum full eftirlaun við 65 ára aldur. Þáverandi dómsmálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir, studdi framgang þessa máls heils hugar og lýsti einnig vilja sínum f.h. ríkisstjórnar til að leggja fram frumvarp til breytinga á lögreglulögum þar sem lögreglumönnum yrði gert að láta af störfum við 65 ára aldursmark. Aðlögun var gefin fyrstu árin gagnvart þeim sem næst þessum tímamótum stóðu í lífaldri. Þar með komumst við skrefi nær starfsfélögum í nágrannalöndum þótt meira þurfi til svo við séum jafnfætis.

Erlent samstarf:

Árið 1978 gerðist Landssamband lögreglumanna aðili að Norræna lögreglusambandinu, (Nordiska polisförbundet NPF) sem var stofnað 1921. Við inngönguna gerðumst við samtímis aðilar að Alþjóðasambandi lögreglumanna (Union Internationale des Syndicats de Police, UISP). Alþjóðasambandið starfaði í reynd aðeins innan Evrópu og í kjölfar klofnings var ákveðið að endurreisa það á stofni hins eldra undir nýju nafni, European confederation of police, EuroCOP árið 2002. Aðild okkar að báðum þessum samtökum hefur í tímans rás víkkað sjóndeildarhring forystumanna í tíma og rúmi og verið mótandi í stefnumörkun okkar frá einum tíma til annars. Tveir íslenskir lögreglumenn hafa gegnt formennsku í NPF, þeir Þorgrímur Guðmundsson 1988-1990 og Jónas Magnússon 1998-2000. Þá liggur fyrir að Snorri Magnússon á að taka við formennskunni á næsta ári og leiða starfið til tveggja ára eða til ársins 2011. Jónas var einnig skoðunarmaður ársreikninga UISP um árabil, f.h. NPF.

Starf skrifstofu LL:

Landssamband lögreglumanna hefur átt sérlegu starfsmannaláni að fagna í áranna rás. Forfeður okkar áttu við þrengsli að stríða og sátu meira og minna með bókhaldið á hnjánum fyrsta áratuginn. Þann 13. desember 1976 fjárfesti Landssambandið í eigin húsnæði að Rauðarárstíg 16, síðar Grettisgötu 89, í samvinnu við BSRB, Landssamband framhaldsskólakennara, Samband íslenskra barnakennara, Póstmannafélag Íslands, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélag ríkisstofnana. Kaupverð hússins, sem þá var í byggingu, var 90 milljónir og hlutur LL 5%. Þar hafa höfuðstöðvar sambandsins verið frá þeim tíma. Fyrsti fundur stjórnar LL var haldinn í nýju húsnæði 27. apríl 1978 eða fyrir rúmum 30 árum. Í febrúar 1979 var Jóhanna Thors ráðin til starfa á skrifstofu LL í hlutastarf. Var vinnutími hennar tvo hálfa daga í viku og ákveðið að afgreiðslutími skrifstofu væri frá kl. 13 – 15 en tíminn frá kl. 15 – 17 yrði notaður til bréfaskrifta og útréttinga. Jóhanna starfaði hjá LL til júnímánaðar 1986 þegar Sjöfn Óskarsdóttir var ráðin í hennar stað sem framkvæmdastjóri. Álagið jókst ár frá ári og í október 1990 var aukið við starfsemina og Stefanía Vigfúsdóttir ráðin til starfa sem skrifstofustjóri en hún hafði reynslu af stéttarfélagsstörfum frá fyrri vinnustað sem var Starfsmannafélag ríkisstofnana. Skiptu þær stöllur um tíma með sér 50% starfshlutfalli en þegar Sjöfn sagði starfi sínu lausu í október 1998 var gengið til samninga við Stefaníu um fullt starf sem hún gegnir enn. Í kjölfar uppsagnar Sjafnar sótti Jónas Magnússon þáverandi formaður um heimild til að gegna 50% starfi við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, sennilega fyrstur karla í þessu starfi til að sækja um slíkt. Var fallist á umsókn hans og var hann í framhaldi af því í 50% starfi á skrifstofu LL frá febrúarmánuði 1999 þar til hann hætti sem formaður í apríl 2002. Breyttar áherslur nýrrar forystu leiddu til þess að ráðinn var löglærður framkvæmdastjóri, fyrst Grétar Jónasson, núverandi framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, og gegndi hann starfinu til júlímánaðar 2004. Í febrúar 2005 var Páll Winkel, núverandi fangelsismálastjóri, ráðinn í hans stað og gegndi hann starfinu til loka janúar 2007 er núverandi framkvæmdastjóri, Seinar Adolfsson, var ráðinn til starfans. Með hliðsjón af 40 ára starfsemi sambandsins verður ekki annað ráðið en starfsmannalán hafi fylgt okkur, við haft góða starfsmenn og verið góðir vinnuveitendur, nema hvort tveggja sé. Allir þessir starfsmenn eiga skilið bestu þakkir okkar fyrir vel unnin störf í áranna rás.

Kæru vinnufélagar nær og fjær, innilegar hamingjuóskir á tímamótum og megi forysta okkar í nútíð og framtíð njóta blessunar og árangurs í störfum sínum, í okkar þágu.

 

Jónas Magnússon, fyrrverandi formaður LL.

Til baka