Lögmannsaðstoð
Reglur um lögmannsaðstoð hjá LL
- Markmið reglna þessara er að styðja við bak félagsmanna LL vegna ágreiningsmála er varða réttindi þeirra og skyldur sem lögreglumenn. Óski félagsmaður LL eftir lögmannsaðstoð á kostnað LL ber hann fram ósk um það við félagið með skriflegum hætti.
- Málskostnaðarnefnd LL tekur ákvörðun um hvort lögfræðileg aðstoð sé veitt, hve mikla aðstoð skuli veita og hvert skuli sækja hana. Ef mál varðar umtalsverða hagsmuni, fyrirséð þykir að kostnaður við málarekstur verði verulegur og fari umfram hámarks viðmiðunarfjárhæð samkvæmt reglum þessum eða mál kunni að vera stefnumarkandi og hafa ríkt fordæmisgildi og varði þannig mikilvæga hagsmuni fyrir LL og lögregluna, leggur málskostnaðarnefnd tillögur sínar fyrir stjórn LL til umfjöllunar og lokaákvörðunar.
- Málskostnaðarnefnd skal funda með reglubundnum hætti og taka beiðnir um styrk vegna lögmannskostnaðar til umfjöllunar og ákvörðunar á fundum sínum. Þá fylgist nefndin með þróun útgjalda vegna styrkveitinga, upplýsir stjórn LL þar að lútandi og leggur tillögur fyrir stjórn LL að breytingum á reglum, um viðmiðunarfjárhæð styrkja og öðru er varðar hlutverk nefndarinnar. Í þessu skyni getur nefndin jafnframt óskað aðstoðar skrifstofu LL við upplýsingaöflun og ráðgjöf.
- Sé um mjög brýnt mál að ræða sem þarfnast tafarlausrar aðstoðar er heimilt að leita beint til formanns eða framkvæmdastjóra LL sem geta veitt bráðabirgðaheimild varðandi aðstoð, en viðkomandi aðili skal síðan leggja fram skriflega beiðni í samræmi við 1. gr. og ákvörðun formanns eða framkvæmdastjóra send málskostnaðarnefnd til staðfestingar. Í þessum bráðabirgðatilvikum getur formaður eða framkvæmdastjóri jafnframt ráðfært sig við formann málskostnaðarnefndar.
- Félagsmaður LL getur átt rétt á lögmannsaðstoð á kostnað LL að mati málskostnaðarnefndar m.a. í eftirfarandi tilfellum:
- Þegar ætla má að um sé að ræða brot á ákvæðum kjarasamnings gagnvart honum.
- Aðstoð vegna andmælaréttar vegna fyrirhugaðrar áminningar eða lausnar um stundarsakir (málsmeðferð fyrir 27. gr. nefnd STML) ef um er að ræða ætlað brot í starfi eða ef talið er að ákvæði laga eða reglna séu brotnar á honum í málsmeðferðinni.
- Við að fá hnekkt fyrir dómi áminningu eða brottvikningu ef talið er að ákvæði laga eða reglna séu brotnar á honum í málsmeðferðinni.
- Við réttargæslu vegna kæru vegna brota í starfi sem leiðir til ákæru og dómsniðurstöðu sem hefur kostnað í för með sér fyrir viðkomandi.
- Við málatilbúnað á bótakröfu og framhald máls fyrir dómstólum ef nauðsynlegt telst að mati lögmanns LL og hefur kostnað í för með sér fyrir viðkomandi.
- Vegna kostnaðar við varnir í einkamáli sem höfðað er gegn honum til greiðslu skaðabóta vegna meintra mistaka í starfi. Þar sem viðkomandi er sýknaður en eftir standi lögfræðikostnaður vegna málsins.
- Þá getur félagsmaður LL átt rétt á lögmannsaðstoð ef að mál hans varðar ýmis lög t.d. starfsmannalög, stjórnsýslulög, upplýsingalög ofl. sem að tengjast rétti hans til að ná fram réttindum sínum er varðar starf hans, starfslok eða vegna annarra þeirra atriða sem málskostnaðarnefnd telur eðlilegt að veita lögmannsaðstoð vegna.
- Styrk vegna lögmannskostnaðar má takmarka þannig að styrkur nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð, sbr. einnig nánar 16. grein um viðmiðunarfjárhæð.
- LL ber einungis kostnað vegna lögmannsaðstoðar frá þeim tíma sem beiðnin um lögmannsaðstoð er afgreidd, nema annað, sé ákveðið við afgreiðslu málsins.
- LL ber ekki ábyrgð á áður tilkomnum kostnaði hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum eða sérfræðingum, nema annað sé ákveðið, annars er það á ábyrgð viðkomandi félagsmanns.
- LL greiðir einungis lögfræðikostnað í samræmi við bestu fáanlegu kjör LL hverju sinni vegna þjónustu lögfræðinga. Ekki er greiddur umframkostnaður sem hlýst af hærra tímagjaldi lögfræðinga annarra en þeirra sem LL nýtur bestra kjara hjá hverju sinni.
- LL greiðir ekki lögfræðikostnað sem út af kann að standa vegna mismunar á reikningi lögmanns og dæmdrar lögmannsþóknunar fyrir Héraðsdómi, Landsrétti eða Hæstarétti.
- LL greiðir ekki sektir sem umsækjandi er dæmdur til þess að greiða.
- Hafi LL veitt styrk vegna kæru útaf brota í starfi sem leiðir til ákæru og dóms í héraði skal viðkomandi sækja aftur um styrk áður en máli er áfrýjað. Í þeim tilvikum sem það er ekki gert er LL heimilt að synja um áframhaldandi aðstoð.
- Málskostnaðarnefnd / framkvæmdastjóra- stjórn / stjórn LL er heimilt að synja um aðstoð á kostnað LL ef:
- Félagsmaður er kærður, ákærður eða dæmdur fyrir vítaverða vanrækslu, stórfellt gáleysi, ásetning eða stórfellt brot í starfi.
- Þá er og heimilt að synja um lögfræðilega aðstoð ef telja má að lögfræðileg aðstoð hafi enga þýðingu. Málskostnaðarnefnd / framkvæmdastjórn / stjórn metur það, eftir atvikum að höfðu samráði við lögmann LL, hve mikla lögfræðilega aðstoð félagsmanni skuli veitt.
- Ekki skal veita aðstoð vegna lögfræðikostnaðar vegna máls sem koma upp utan starfs nema málið varði lið 5a. og b.
- Heimilt er málskostnaðarnefnd / framkvæmdastjóra- stjórn / stjórn LL að skilyrða ábyrgð á greiðslu lögfræðikostnaðar við niðurstöðu máls í samræmi við gr. 9. Þá er jafnframt heimilt að skilyrða ábyrgð á greiðslu lögmannskostnaðar við að félagsmaður innheimti ekki sjálfur hluta dæmds málskostnaðar eða gert sé að skilyrði að sé málskostnaður dæmdur til greiðslu gagnaðila í heild eða hluta, skuli sá málskostnaður greiðast til LL. Þá getur LL einnig gert að skilyrði að leitað sé hagkvæmustu leiða með lögmannsþjónustu og lagt til lögmann í þessu skyni.
- Heimilt er að synja beiðni um styrk ef styrkbeiðni á frekar undir meðferð annarra aðila, svo sem gjafsóknarnefndar, ef umsækjandi nýtur einkaréttarlegrar málskostnaðartryggingar eða eðlilegt/nærtækt þykir að styrkbeiðni sé fyrst send öðrum aðilum til meðferðar áður en málskostnaðarnefnd LL tekur beiðni til meðferðar.
- Ákvörðun málskostnaðarnefndar vegna umsóknar er varðar beiðni um styrk vegna lögmannskostnaðar skal vera skrifleg og skal send umsækjanda. Í skriflegri ákvörðun skal tilgreina á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin byggist, og e.a. tilgreina skilyrði sem ákvörðun um styrk er háð, þá hámarksfjárhæð sem styrkveiting felur í sér og önnur þau atriði sem ákvörðun ber með sér, sbr. nánari ákvæði reglna þessara. Ákvörðun um styrk er endanleg og skal fela í sér til hvaða máls hún taki, hvort hún sé veitt til reksturs máls fyrir héraðsdómi eða æðra dómi, vegna stjórnsýslumáls, hvort hún sé takmörkuð með tilteknum hætti, o.s.frv.
- Fjárhæð styrkveitingar vegna einstaks máls skal að jafnaði ekki vera hærri en kr. 800.000. Í sérstaklega mikilvægum málum er málskostnaðarnefnd þó heimilt að ákveða hærri styrk sem þó nemur ekki hærri fjárhæð en tvöfaldri framangreindri fjárhæð. Í öðrum tilvikum svo og þegar mál er sérstaklega mikilvægt eða málskostnaðarnefnd metur að um meiriháttar ákvörðun sé að ræða, kostnaður við mál er umtalsverður og umfram framangreind fjárhagsleg viðmið, sendir málskostnaðarnefnd mál til stjórnar LL til umfjöllunar og afgreiðslu.
- Heildarfjárhæð styrkveitinga á ársgrundvelli eru ákveðnar á þingi LL með samþykkt fjárhagsáætlunar.
- Ákvarðanir á grundvelli reglna þessara eru byggðar á mati málskostnaðarnefndar / framkvæmdastjóra, -stjórnar / -stjórnar LL hverju sinni. Heimilt er að víkja frá ákvæðum þeirra ef ríkar málefnalegar ástæður eru fyrir hendi. Skal ákvörðun um slíkt rökstudd með sannarlegum hætti og gilda að öðru leyti ákvæði reglna þessara um m.a. staðfestingu slíkrar ákvörðunar eftir á.
- Breytingar sem gerðar eru á reglum þessum, þ.á m. um hámarks viðmiðunarfjárhæð styrkja samkvæmt 16. grein, eru háðar samþykki stjórnar LL.
- Reglur þessar öðlast þegar gildi.
Samþykkt á stjórnarfundi LL 17. desember 2021