Lög Landssambands lögreglumanna

Lög LL – PDF

Þingsköp LL

– Ef einhver munur er á textanum hér að neðan og þeim sem er að finna í PDF skjalinu í hlekknum hér að ofan gildir textinn í PDF skjalinu.

 

Lög fyrir Landssamband lögreglumanna

I. kafli

Nafn og hlutverk

1. grein

Heiti félagsins og varnarþing

Félagið heitir Landssamband lögreglumanna og er nafn þess skammstafað LL.  Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein

Hlutverk LL og markmið

LL er stéttarfélag íslenskra lögreglumanna og starfssvæði er allt landið.  Markmið þess er einkum:

 1. að annast gerð kjarasamninga í samræmi við núgildandi lög um samningsrétt opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eða laga sem síðar kunna að verða sett,
 2. að sameina alla lögreglumenn innan vébanda sinna í því skyni að skapa aukin kynni, skilning og samstöðu þeirra í baráttu fyrir stéttarlegum, félagslegum og menningarlegum hagsmunum,
 3. að vera í fyrirsvari fyrir lögreglumenn, standa vörð um áunnin réttindi og vinna að bættum kjörum þeirra,
 4. að stuðla að aukinni fagþekkingu og fagvitund lögreglumanna,
 5. að vinna að auknum skilningi almennings á þýðingu lögreglustarfa,
 6. að vinna að aukinni fræðslu og menningarstarfsemi innan vébanda sinna,
 7. að eiga samstarf og eftir atvikum aðild að öðrum samtökum launafólks innanlands og utan,
 8. að starfrækja líknar- og hjálparsjóð,
 9. að standa fyrir útgáfu rits um stéttar- og starfsmálefni lögreglumanna,
 10. að starfrækja orlofssjóð,
 11. að starfrækja starfsmenntunarsjóð,
 12. að starfrækja styrktar- og sjúkrasjóð.

II. kafli

Aðild að LL

3. grein

Aðild – deildir

Rétt til fullrar aðildar að LL, eiga allir starfandi lögreglumenn á landinu sem hafa lokið Lögregluskóla ríkisins eða íslensku diplómaprófi í lögreglufræðum og hafa lögreglustarfið að aðalstarfi.

Rétt til fullrar aðildar eiga þeir einnig sem eru í fæðingar-/foreldraorlofi, launalausu leyfi. skv. kjarasamningi LL og þeir sem hafa fullnýtt veikindarétt sinn og fallið af launaskrá vegna veikinda eða slysa en hafa ekki látið af störfum.  Sama gildir um þá félaga sem gert hafa starfslokasamning eða fá greidd biðlaun og greiða iðgjald af launum sínum til LL.  Sama gildir einnig um félaga sem fara til friðargæslu á vegum alþjóðlegra stofnana og annarra löggæsluverkefna erlendis á vegum íslenskra stjórnvalda og þá sem eru frá störfum um stundarsakir vegna náms, er varðar starf þeirra.

Þá gildir það sama um lögreglumenn sem orðið hafa atvinnulausir og hafa ekki átt aðild að öðrum stéttarfélögum en LL síðan þeir störfuðu sem lögreglumenn.

Aukafélagar í LL geta þeir orðið sem eru héraðslögreglumenn og lausráðið fólk við afleysingastörf.  Sama gildir um afleysingamenn í lögreglu sem hafa orðið atvinnulausir og hafa ekki átt aðild að öðrum stéttarfélögum en LL síðan þeir störfuðu sem afleysingamenn í lögreglu.

Landinu skal skipt upp í svæðisbundnar deildir og skal svæði hverrar deildar hljóta samþykki stjórnar LL og skilgreinast í lögum deildarinnar.  Á hverju svæði starfar ein deild.  Svæðinu tilheyra þeir lögreglumenn sem þar hafa fasta starfsstöð.

LL skiptist í 9 deildir sem hér segir:

 1. Höfuðborgarsvæðið
 2. Vesturland
 3. Vestfirðir
 4. Norðvesturland
 5. Norðausturland
 6. Austurland
 7. Suðurland
 8. Vestmannaeyjar
 9. Suðurnes

Lögreglufélag sem starfrækt er á tilteknu svæði getur samkvæmt ákvörðun stjórnar LL farið með hlutverk viðkomandi deildar.

 

4. grein

Lífeyrisþegadeild

Innan LL skal starfrækt deild lífeyrisþega.  Lífeyrisþegadeildin á rétt á að tilnefna tvo fulltrúa með málfrelsi og tillögurétt á þing LL og einn fulltrúa á formannaráðstefnur.  Jafnan skal boða fulltrúa deildarinnar á stjórnarfund þegar málefni lífeyrisþega eru til umfjöllunar.

 

 

III. kafli

Réttindi og skyldur félagsmanna

 

5. grein

Aðild að LL / deildum

Lögreglumenn verða aðilar að LL í samræmi við 3. gr. við það að hefja störf í lögreglu.

Lögreglumenn sem óska eftir aðild að deild skulu senda stjórn hennar skriflega umsókn þar um.

 

6. grein

Réttindi og skyldur félagsmanna

Fullgildir félagsmenn LL eiga rétt á aðstoð LL varðandi samningsbundin kjör og önnur mál sem tengjast lögreglustarfinu, úthlutun orlofshúsa og styrkja úr sjóðum félagsins, allt samkvæmt ákvörðun stjórnar LL eða í samræmi við reglur sjóðsstjórna um viðkomandi atriði.

Fullgildir félagar hafa kosningarétt og kjörgengi til trúnaðarstarfa innan LL.

Aukafélagar LL skulu njóta fyrirgreiðslu LL varðandi meðferð og túlkun kjarasamninga, réttindamála og félagslega þjónustu.

Öllum félagsmönnum LL ber að virða lög LL, fundarsköp, fundarsamþykktir og ákvarðarnir stjórnar LL svo fremi sem þær brjóti ekki í bága við lög þessi.  Einnig ber þeim að virða lög og samþykktir deilda sem, hlotið hafa samþykki stjórnar LL.

Félagsmönnum, öðrum en þeim er til þess hafa umboð, er óheimilt að tjá sig á opinberum vettvangi í nafni LL og eða nota nafn þess.

Félagsmönnum ber að vekja athygli kjörinna trúnaðarmanna á málefnum sem varða lögreglustarfið og félagsmenn ef þeir telja að hagsmunir LL, deildanna eða einstakra félagsmanna séu í húfi.

 

7. grein

Úrsögn úr LL / deildum

Úrsögn úr LL skal vera skrifleg og sendast skrifstofu LL.  Úrsögnin tekur gildi við næstu mánaðamót á eftir.  Sá sem segir sig úr LL, afsalar sér kosningarétti og kjörgengi innan LL, á ekkert tilkall til eigna eða sjóða LL og nýtur engra félagslegra réttinda þar.

 

Úrsögn úr deild skal vera skrifleg og tekur gildi við næstu mánaðamót á eftir.

 

 

IV. kafli

Starfsemi deilda

 

8. grein

Hlutverk deilda / trúnaðarmanna

Innan LL skulu starfræktar deildir sem eru svæðisbundnar.  Hver deild setur sér lög / samþykktir og kýs sér stjórn.  Stjórnir deilda skulu senda stjórn LL afrit af lögum / samþykktum sínum sem yfirfer þau og gætir þess að þau séu í samræmi við lög LL og stangist ekki á við tilgang og markmið LL.

Hlutverk deilda er:

 • að vera tengiliður félagsmanna við stjórn LL og er ábyrg fyrir félagsstarfinu á sínu félagssvæði.
 • að standa fyrir kosningu fulltrúa svæðisins og varamanns/varamanna í stjórn LL.
 • að standa fyrir kosningu fulltrúa svæðisins á þing LL.
 • að tilnefna eða velja trúnaðarmenn á vinnustöðum / starfssvæðum sbr. 17. gr.
 • að semja um vakta- og vinnutíma lögreglumanna og standa fyrir kosningu meðal viðkomandi lögreglumanna um vinnutímann.
 • að móttaka erindi félagsmanna.

Stjórn deildarinnar getur gert annað tveggja:

 • freista þess að leysa úr erindinu, innan 8 vikna, ef það tekst ekki þá skal erindið framsent stjórn LL ásamt greinargerð.
 • senda erindið beint til stjórnar LL. Stjórn LL skal gera viðkomandi grein fyrir framgangi erindisins og úrlausnum innan 8 vikna frá því það barst henni.

Hlutverk trúnaðarmanna er:

 • að vinna úr ágreiningsmálum er kunna að rísa varðandi úthlutun aukavinnu, hvíldartímaákvæðum og öðrum kjaralegum réttindum á vinnustöðvum, sbr. V. kafla laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, svo sem leita til deilda og eða beint til stjórnar LL.

Hver deild skal hafa eigin lög / samþykktir og hefur fullt frelsi um sín mál, þó svo að eigi brjóti í bága við lög LL eða samþykktir.  Hver deild hefur sjálfstæðan fjárhag, óháðan LL og ber LL ekki ábyrgð á fjárhagsskuldbindingum einstakra deilda og þær ekki heldur á fjárhagsskuldbindingum LL og eiga ekki tilkall til eigna LL.

Deildir innan LL ákveða eigin félagsgjöld í sínum samþykktum.

Stjórn deildar heldur skrá yfir félaga í deildinni.

 

9. grein

Starfsskýrsla deilda

Þegar að loknum aðalfundi skal hver deild senda stjórn LL afrit af samþykktri ársskýrslu stjórnar auk reikninga deildarinnar ásamt upplýsingum um stjórn og samskipti stjórnar og trúnaðarmanna og lög deildanna, hafi orðið lagabreytingar.  Deildirnar skulu einnig senda stjórn LL ályktanir og samþykktir sem samþykktar eru á vettvangi þeirra.

 

 

V. kafli

Þing LL, formannaráðstefna og trúnaðarmannaráð

 

10. grein

Þing LL

Þing LL fer með æðsta vald í málefnum þess.  Skal það haldið í apríl mánuði þriðja hvert ár en þó er stjórn LL heimilt að færa þingtímann fram eða aftur um einn mánuð ef nauðsyn ber til.

Heimilt er stjórn LL að kalla saman aukaþing þegar nauðsyn ber til eða þegar meirihluti stjórna deilda krefst þess skriflega.  Þing að kröfu meirihluta stjórna deilda skal kalla saman innan tveggja mánaða frá því krafan barst.

 

11. grein

Réttur til setu á þingi LL

Stjórn LL sendir stjórnum deilda tilkynningu um fjölda fulltrúa á þing LL hverju sinni á grundvelli félagatals fullgildra félaga LL þann 1. janúar sama ár og þing er haldið.  Hver deild skal tilnefna a.m.k. einn fulltrúa.  Annar fulltrúi deildar kemur inn þegar félagatala deildarinnar nær 21 félagsmanni, þriðji fulltrúinn þegar félagatalan nær 41 félagsmanni o.s.frv., og jafnmargir til vara.  Fjöldi fulltrúa einstakra deilda má þó aldrei vera meiri en sem nemur 50% þingfulltrúa með atkvæðisrétt.  Leitast skal við að þingfulltrúar endurspegli uppbyggingu lögreglunnar á svæði viðkomandi deildar.

Ný deild miði fulltrúatölu við tölu fullgildra félaga eins og hún var þegar deildin sótti um inngöngu í LL.

Kjörbréf, staðfest með undirskrift formanns og ritara deildarinnar skal senda skrifstofu LL eigi síðar en einni viku fyrir þing.

Fráfarandi sem og komandi stjórn, framkvæmdastjóri, einn fulltrúi trúnaðarmanna, fulltrúar staðar- og fag og áhugafélaga og aðrir starfsmenn LL eiga rétt til þingsetu með málfrelsi og tillögurétti en atkvæðisrétt hafa þessir aðilar ekki nema þeir séu kjörnir fulltrúar.

LL stendur straum af kostnaði vegna þings LL og ferða- og dvalarkostnaði tilnefndra þingfulltrúa og fulltrúa með málfrelsi og tillögurétt.  Samráð skal haft við skrifstofu LL vegna tilhögun ferða á þingstað.  Kostnaður vegna tilnefndra varafulltrúa greiðist af deildum enda ekki gert ráð fyrir að þeir sæki þing nema í forföllum aðalmanna.

 

12. grein

Boðun þings og kynning þingmála

Til þings skal boðað með bréfi til hverrar deildar með a.m.k. 28 sólarhringa fyrirvara miðað við póstlagningu þingboðunar.  Eigi síðar en 7 sólarhringum fyrir þing skal senda hverri deild endurskoðaða reikninga LL fyrir þrjú síðastliðin ár sem og skýrslu stjórnar með yfirliti yfir störf nefnda.

 

Mál þau og tillögur, þ.m.t lagabreytingatillögur, sem einstakir félagsmenn LL eða deildir óska eftir að tekin verði fyrir á þinginu skal senda stjórn LL a.m.k. 21 sólarhringum fyrir þing og ber stjórn LL að senda gögnin, ásamt umsögn sinni, til deildanna til kynningar eigi síðar en 7 sólarhringum fyrir þing.  Stjórn LL skal leggja slík mál og tillögur fyrir þing, ásamt umsögn sinni.  Sami frestur, það er 7 sólarhringar, gildir um útsendingu á tillögum frá stjórn, þar með talið lagabreytingartillögur.

 

Mál og tillögur til þings sem ekki hafa borist á tilsettum tíma er heimilt að leggja fyrir þing en til þess þarf samþykki 3/4 hluta þingfulltrúa.  Málefni sem berast þingi LL með þessum hætti og teljast stefnumarkandi í meginatriðum fyrir LL eða deildirnar fá ekki lokaafgreiðslu fyrr en á næsta aukaþingi eða reglulegu þingi LL.

 

Heimilt er stjórn LL að boða til aukaþings með skemmri fyrirvara ef nauðsyn krefur.

 

13. grein

Skipun kjörbréfanefndar og nefndanefndar

Stjórn LL skal eigi síðar en 3 dögum fyrir þingbyrjun skipa,

 1. 3 menn í kjörbréfanefnd til að rannsaka kjörbréf og skal nefndin skila áliti sínu á fyrsta þingfundi,
 2. 3 menn úr hópi kjörinna þingfulltrúa í nefndanefnd er geri tillögu um þingfulltrúa í fastanefndir þingsins samkvæmt 16. gr. þingskapa LL, sem verði lögð fram til afgreiðslu á fyrsta þingfundi.

Stjórnarmenn LL eru ekki gjaldgengir í kjörbréfanefnd né nefndanefnd.

 

14. grein

Lögmæti og dagskrá þings

Þing LL er lögmætt er rétt er til þess boðað og a.m.k. helmingur fulltrúa situr þingfund.

Dagskrá reglulegs þings LL skal vera:

 1. Þingsetning.
 2. Nafnakall fulltrúa.
 3. Kjörbréf lögð fram til úrskurðar.
 4. Kosning starfsmanna þingsins:
  1. forseta varaforseta.
  2. þingritara og varaþingritara.
  3. þingnefnda skv. þingsköpum.
 5. Kallað eftir framboðum til varaformanns og ritara LL.
 6. Lögð fram skýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar síðustu þriggja ára ásamt fjárhagsáætlun ársins.
 7. Lagðar fram skýrslur frá nefndum og sjóðum LL og endurskoðaðir reikningar sjóða.
 8. Umræður um skýrslur og reikninga, sbr. 5. og 6. lið, reikningar bornir upp til samþykktar.
 9. Skýrslugjöf fulltrúa deilda um störf deilda síðastliðinna starfsára.
 10. Lagðar fram tillögur sem borist hafa, þar á meðal tillögur um lagabreytingar.
 11. Umræður um tillögur og þar á meðal lagabreytingar og tillögur vísað til nefnda.
 12. Afgreiðsla nefndaálita.
 13. Umræður um fjárhagsáætlun liggi það fyrir þingi. Berist tillaga um að taka eigi fjárhagsáætlun til endurskoðunar skal greiða um það atkvæði. Á þinginu skal þá í framhaldi kjósa þriggja manna fjárhagsnefnd.
 14. Ákvörðun um gjald til LL næstu þrjú ár ásamt umræðu um skiptingu gjaldsins á milli LL og deilda.
 15. Kynning á framboðum til varaformanns og ritara LL.
 16. Kjör varaformanns og ritara LL.
 17. Kjör skoðunarmanna reikninga, stjórnar Starfsmenntunarsjóðs, stjórnar Líknar- og hjálparsjóðs og annarra nefnda eftir atvikum.
 18. Önnur mál.

Þingið ákveður dagskrá að öðru leyti.

 

15. grein

Þingsköp

Þingfundum skal stjórnað samkvæmt þingsköpum LL.  Meirihluti stjórnar LL og/eða minnst 1/4 hluti fulltrúa geta krafist allsherjaratkvæðagreiðslu um þingmál ef miklu þykja skipta og hefur þá hver fulltrúi jafnmörg atkvæði og félagsmannatölu þeirra nemur, sem hann er fulltrúi fyrir.  Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

 

16. grein

Formannaráðstefna

Stjórn LL skal boða til formannaráðstefnu í aprílmánuði þau ár sem þing er ekki haldið.  Til ráðstefnunnar skal boðað bréflega með a.m.k. fjögurra vikna fyrirvara.

Sæti á formannaráðstefnu eiga formenn deilda, staðar-, áhuga- og  fagfélaga sbr. 28.  gr., eða fulltrúar þeirra auk stjórnar LL og starfsmanna þess.

Atkvæðisrétt á formannaráðstefnu hafa einungis formenn deilda LL.

Stjórn, framkvæmdastjóri, 1 fulltrúi trúnaðarmanna, fulltrúar staðar-, fag- og áhugafélaga og aðrir starfsmenn LL eiga rétt til setu á formannaráðstefnu með málfrelsi og tillögurétt en atkvæðisrétt hafa þessir aðilar ekki nema þeir séu kjörnir fulltrúar.

Ef fyrir formannaráðstefnu liggur að afgreiða þurfi fjárhagsáætlun ársins skal kjósa þrjá fulltrúa í fjárhagsnefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða fjárhagsáætlun ársins og leggja fyrir ráðstefnuna til umræðu og samþykktar. Komi upp tillaga á ráðstefnunni um að taka eigi samþykkta fjárhagsáætlun til endurskoðunar skal greiða um það atkvæði og kjósa í framhaldi fjárhagsnefnd. Ókjörgengir í nefndina eru þingforseti, aðalritari og fulltrúar í stjórn félagsins.

Dagskrá formannaráðstefnu:

 1. Lögð fram skýrsla stjórnar LL og endurskoðaðir reikningar liðins árs til kynningar.
 2. Fjárhagsáætlun ársins lögð fram.
 3. Kjör þriggja manna í fjárhagsnefnd.
 4. Önnur mál.
 5. Umræður og atkvæðagreiðsla um fjárhagsáætlun ársins.

Ef ekki liggur fyrir að afgreiða þurfi fjárhagsáætlun ársins má fella út úr dagskrá tl. 3 og 5.

 

17. grein

Trúnaðarmannaráð

Í september það ár sem þing LL er haldið skal stjórn hverrar deildar sem hefur á að skipa 50 lögreglumönnum eða færri á vinnustað / starfssvæði, standa fyrir kjöri á trúnaðarmanni / trúnaðarmönnum úr hópi lögreglumanna með réttindum og skyldum sem því fylgja, til þriggja ára og jafnmarga til vara.  Sú deild sem hefur á að skipa 51 lögreglumanni eða fleiri á vinnustað / starfssvæði skal standa fyrir kjöri á  a.m.k. 2 trúnaðarmönnum með samskonar hætti og jafnmörgum til vara.

Stjórn deildar getur, ef ekkert framboð berst, tilnefnt tilgreindan fjölda trúnaðarmanna úr stjórn eða valið úr hópi lögreglumanna á vinnustað / starfssvæði með réttindum og skyldum til þriggja ára og jafnmarga til vara.  Þá þegar skal tilkynna niðurstöðuna til skrifstofu LL sem og viðkomandi lögreglustjóra.  Hafi það ekki verið gert fyrir 1. október skal stjórn LL velja trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félagsmönnum á viðkomandi vinnustað / starfssvæði.  Stjórn LL setur trúnaðarmönnum starfsreglur.

Trúnaðarmenn sem eru valdir eða kosnir samkvæmt 1. og 2. mgr. þessarar greinar mynda ásamt stjórn LL og formönnum deilda trúnaðarmannaráð LL.

Hlutverk trúnaðarmannaráðs er að vera stjórn LL til aðstoðar við kröfugerð vegna kjarasamninga, fylgjast með því að hvers kyns samningar gerðir af LL og deildum þess séu haldnir og réttindi starfsmanna í heiðri höfð.  Að veita stjórn LL aðstoð við öflun gagna og upplýsinga og annað er hún kann að óska eftir.

Fundi trúnaðarmannaráðs skal halda svo oft sem þurfa þyki, þó eigi sjaldnar en ár hvert.

 

 

VI. kafli

Fjármál og endurskoðun reikninga

18. grein

Fjármál

Hver félagsmaður greiði gjald til LL, ákveðinn hundraðshluta af grunnlaunum sínum eða tiltekna hámarksfjárhæð.  Heimilt er stjórn LL að innheimta gjaldið hjá launagreiðanda.  Landssambandsþing ákveður upphæð þessa gjalds að fengnum tillögum fjárhagsnefndar.

Heimilt er stjórn LL að hækka/lækka innheimtuhlutfallið um allt að 0,2 prósentustig milli þinga ef nauðsyn ber til.

Reikningsár LL miðast við áramót. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á að fjárhagsáætlun vegna komandi árs sé gerð og lögð fyrir stjórn LL til umræðu og samþykktar. Stjórn LL er heimilt að gera breytingar á fjárhagsáætlun við umræður. Samþykkt fjárhagsáætlun skal liggja fyrir eigi síðar en 15. desember ár hvert. Náist ekki samkomulag um fjárhagsáætlun skal sú áætlun sem lögð var fram af framkvæmdastjórn taka gildi til bráðabirgða og afgreiðslu hennar vísað til næsta reglubundna þings eða formannaráðstefnu til umræðu og samþykktar.

 

19. grein

Endurskoðun reikninga

Þing LL kýs tvo skoðunarmenn ársreikninga og einn til vara.

Félagskjörnir skoðunarmenn ársreikninga skulu hafa eftirlit með fjárreiðum LL milli þinga, endurskoða bókhald þeirra og framkvæma eignakönnun svo oft sem þurfa þykir en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.

Félagskjörnir skoðunarmenn skulu eiga aðgang að öllum gögnum LL er fjárreiður varðar, hvenær sem þeir óska, þar með taldar fundargerðir stjórnar, þinga og starfandi nefnda.

Stjórn LL er skylt að fela löggiltum endurskoðanda endurskoðun á öllu bókhaldi félagsins auk eftirlits og endurskoðunar félagskjörinna skoðunarmanna.

Ef endurskoðun leiðir í ljós að verulegir gallar eru á bókhaldi eða eignavörslu skal tafarlaust gefa stjórn LL skýrslu þar um og ber henni þá þegar að gera viðeigandi ráðstafanir.

Endurskoðaðir reikningar skulu yfirfarnir og áritaðir til samþykkis af félagskjörnum skoðunarmönnum.  Stjórn samtakanna skal yfirfara og samþykkja reikninga félagssjóðs með áritun.  Jafnframt skulu stjórnir einstakra sjóða yfirfara endurskoðaða reikninga þeirra og samþykkja með áritun.

 

VII. kafli

Stjórn LL

 20. grein

Stjórn LL

Kjörtímabil stjórnar, skoðunarmanna reikninga og annarra þeirra sem kosnir eru til trúnaðarstarfa er þrjú ár.

Formaður LL skal kosinn í allsherjar póst- eða netkosningu meðal félagsmanna LL sama ár og þing er haldið og skal kosningu vera lokið fyrir lok mars.  Þeir sem gefa kost á sér í kjör formanns skulu láta kjörstjórn LL vita skriflega, með bréfi eða tölvupósti, fyrir 15. febrúar á sama ári og þing fer fram.

Varaformaður og ritari LL skulu kjörnir á reglulegu þingi LL. Framboð skulu hafa borist skrifstofu LL skriflega, með bréfi eða tölvupósti eigi síðar en á hádegi, degi fyrir reglulegt þing eða munnlega til þingforseta fyrir lok dagskrárliðar 5 samkvæmt 14. gr. laganna. Kjörgengir til varaformanns og ritara eru þeir einir sem kjörnir hafa verið til setu í stjórn LL fyrir komandi tímabil.

Berist aðeins eitt framboð til formanns, varaformanns og ritara teljast þeir sjálfkjörnir.

Stjórnina skipa 11 menn þ.e. formaður og 10 stjórnarmenn.  Formaður er óbundinn svæðisdeild og telst oddamaður.  Varamenn koma til starfa í forföllum aðalmanna.  Fari stjórnarmaður til starfa á öðru félagssvæði skal varamaður þess félagssvæðis er hann var kosinn fyrir taka sæti hans í stjórn LL.

Kjörgengir í formann og stjórn LL eru þeir sem eru fullgildir félagar í LL.

Framkvæmdastjórn skipa formaður, varaformaður og ritari. Heimilt er við sérstakar aðstæður að fjölga stjórnarmönnum tímabundið í framkvæmdastjórn. Slík ákvörðun skal samþykkt af meirihluta stjórnar LL. Varaformaður gegnir jafnframt stöðu gjaldkera.

Formaður og ný stjórn taka við að afloknu þingi.

Á reglulegu þingi LL skal kjósa í stjórnir og nefndir sem starfa á vegum LL á milli þinga, sbr. þó 22. gr. laga LL.

Framkvæmdastjórn skal hljóta mánaðarlega þóknun. Stjórn LL ákveður hver þóknunin skuli vera.

Stjórn LL getur ákveðið að aðrir geti fengið þóknun, vegna verkefna sem viðkomandi sinnir fyrir hönd LL. Þessi þóknun skal þó einungis vara á meðan verkefninu stendur. Stjórn LL ákveður hver þóknunin skuli vera.

 

21. grein

Verkefni stjórnar o.fl.

Stjórn LL hefur æðsta vald í málefnum þess milli þinga og ber hverri deild að hlíta fyrirmælum hennar varðandi gildandi kjarasamninga, en rétt hefur hver deild eða félagsmaður til að skjóta ágreiningsmálum sínum við stjórn LL til þings, sem þá fellir úrskurð í málinu.

Nú varðar ágreiningsmál 3 deildir eða 40% félaga í deildum LL og skal þá stjórn LL boða til aukaþings um málið innan 3ja mánaða sé þess óskað.  Ágreiningsmálið skal kynna í fundarboði.  Þingið fellir úrskurð um málið.  Deildir er málið varðar skulu óska eftir þinginu við LL og greiða þau 50% af þinghaldskostnaði á móti LL.  Skulu viðkomandi deildir skipta á milli sín kostnaðinum í hlutfalli við tölu félaga.  Þingið getur þó tekið afstöðu til niðurfellingar á kostnaði deilda.

Stjórnin skal haga störfum sínum í samræmi við lög LL og samþykktir þinga þess.

Verkefni stjórnar eru m.a. að:

 1. mynda samninganefnd til að annast gerð kjarasamninga fyrir lögreglumenn, sbr. ákv. l. töluliðs 2. gr. Stjórnin getur þó, sbr. ákv. 23. gr., skipað sérstaka samninganefnd sé það nauðsynlegt af sérstökum ástæðum.
 2. ráða starfsfólk, t.d. framkvæmdastjóra er hafi á hendi allan daglegan rekstur LL. Þau störf sem honum verða falin skal hann vinna í samráði við framkvæmdastjórn LL.
 3. gæta sjóða og eigna LL í samræmi við fyrirmæli laga, fjárhagsáætlana og reglugerða um sérsjóði.
 4. taka til umræðu og samþykkja eða synja fjárhagsáætlun vegna reksturs LL og hafa eftirlit með því að rekstur sé innan fjárhagsáætlunar.
 5. velja fulltrúa á ráðstefnur, þing eða aðra fundi sem LL á aðild að, svo og velja í aðrar trúnaðarstöður LL.

Verkefni framkvæmdastjórnar eru m.a. að:

 1. sjá um allan daglegan rekstur LL svo sem bréfaskriftir og umsjón með að nefndir og aðrir trúnaðarmenn vinni störf sín.
 2. koma fram út á við sem málsvari LL á milli reglulegra funda aðalstjórnar. Hún skal framfylgja stefnu stjórnarinnar og auk þess afgreiða öll smærri mál.
 3. gera fjárhagsáætlun vegna reksturs LL fyrir komandi ár og leggja fram fyrir stjórn LL til samþykktar eða synjunar, eigi síðar en 15. desember ár hvert.
 4. sjá um útgáfu LÖGREGLUMANNSINS, málgagns LL, og reglulegra fréttatilkynninga til deilda og að skipuleggja námskeið fyrir trúnaðarmenn og starfsmenn deildanna.

 

22. grein

Störf nefnda

Á reglulegu þingi LL skal kjósa í stjórnir og nefndir sem starfa á vegum LL milli þinga.

Stjórninni er heimilt að skipa nefndir til að sinna ákveðnum verkefnum og skal þá að jafnaði skipa formenn þeirra úr hópi stjórnarmanna.

Nefndir skulu funda við fyrsta tækifæri eftir þing LL og skipta með sér verkum í samræmi við 18. gr. þingskapa LL.

Nefndir skulu halda fundargerðir og þær afhentar skrifstofu LL til varðveislu.

 

23. grein

Störf framkvæmdastjórnar

Formaður kallar saman stjórnarfundi og hefur eftirlit með allri starfsemi LL og gegnir öðrum venjulegum formannsstörfum.  Hann er yfirmaður skrifstofunnar og er fyrir hönd stjórnar ábyrgur fyrir því að málgagn LL sé gefið út a.m.k. þrisvar á ári eða upplýsingum komið á framfæri til félagsmanna með samsvarandi hætti.

Formaður LL skal, eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni, heimsækja stjórnir allra deilda a.m.k. einu sinni á kjörtímabili sínu.

Heimilt er formanni með samþykki framkvæmdastjórnar að fela hverjum framkvæmdastjórnarmanni hluta af störfum sínum um skamman tíma.  Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans.

Ritari ritar fundargerðir um fundi stjórnar og framkvæmdastjórnar og skal taka virkan þátt í útgáfustarfi samtakanna.

Gjaldkeri sér um fjárreiður LL og ábyrgist að ársreikningar þess fyrir hvert almanaksár liggi fyrir endurskoðaðir fyrir 1. apríl ár hvert.

 

24. grein

Fundir stjórnar og framkvæmdastjórnar

Stjórnarfundi skal halda a.m.k. fjórum sinnum á ári og oftar ef þurfa þykir.   Ennfremur ef þrír stjórnarmenn æskja þess og skulu þeir þá geta um fundarefni.  Boða skal stjórnarfund með minnst einnar viku fyrirvara.  Þó má boða stjórnarfund með styttri fyrirvara ef nauðsyn krefur.

Framkvæmdastjórn skal kalla saman svo oft sem þurfa þykir og ávallt ef tveir framkvæmdastjórnarmenn óska þess.  Fundi framkvæmdastjórnar skal að öllu jöfnu boða með sólarhringsfyrirvara.

Fundir stjórnar og framkvæmdastjórnar eru lögmætir sé meirihluti stjórnar á fundi.

 

VIII. kafli

Stjórnarkjör og kjörstjórn

 

25. grein

Stjórnarkjör

Deildir skulu sjá um kosningu  fulltrúa sinna í stjórn LL og skal það gert sama ár og þing er haldið.  Stjórnir deilda skulu fyrir 20. janúar auglýsa eftir þeim sem vilja gefa kost á sér í stjórn LL frá viðkomandi félagssvæði.  Þeir sem gefa kost á sér til stjórnar LL skulu skriflega, með bréfi eða tölvupósti, fyrir 10. febrúar koma framboði sínu til stjórnar viðkomandi deildar.  Stjórnir deilda skulu koma afriti framboða  þeirra sem gefa kost á sér til stjórnarsetu til stjórnar LL þegar að afloknum framboðsfresti.  Ef fleiri gefa kost á sér en viðkomandi svæði á rétt til skal valið fara fram með kosningu.  Fyrir 1. mars skal allsherjarkosningu lokið í hverri deild og skulu þeir sem hlutu kosningu vera fullgildir í stjórn LL næstu 3 árin.

Stjórn LL skal skipuð fulltrúum félagssvæða samkvæmt eftirfarandi hlutfallsskiptingu:

Höfuðborgarsvæðið               3 menn og 3 til vara. Alls 6 atkvæði.

Vesturland                             1 maður og 1 til vara. Alls 1 atkvæði.

Vestfirðir                               1 maður og 1 til vara. Alls 1 atkvæði.

Norðvesturland                      1 maður og 1 til vara. Alls 1 atkvæði.

Norðausturland                      1 maður og 1 til vara. Alls 1 atkvæði.

Austurland                             1 maður og 1 til vara. Alls 1 atkvæði.

Suðurland                               1 maður og 1 til vara. Alls 1 atkvæði.

Suðurnes                                 1 maður og 1 til vara. Alls 2 atkvæði.

Atkvæðavægi fulltrúa í stjórn LL skal endurskoða á hverju reglubundnu þingi í hlutfalli við fjölda fulltrúa á þingi. Þó skal þess gætt að atkvæðavægi einstaka fulltrúa skuli ekki vera meira en sem nemur 50% atkvæða.

 

26. grein

Kjörstjórn

Þriggja manna kjörstjórn og jafnmargir til vara, skal skipuð af stjórn LL að loknu reglulegu þingi.  Kjörstjórn skal hafa yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd atkvæðagreiðslu sem fram fer á vegum samtakanna, ákveða fyrirkomulag sem og kynna niðurstöðu hennar.

Kjörstjórn staðfestir kjörskrá sem gerð er eftir félagsmannatali LL hverju sinni. Kjörstjórn ákveður hverju sinni meðferð kjörgagna og fyrirkomulag og talningu atkvæða.

Stjórnarmenn, sem og þeir sem sitja í samninganefnd á vegum LL eru ekki kjörgengir í kjörstjórn.

 

IX. kafli

Samþykkt kjarasamninga

 

27. grein

Samþykkt kjarasamninga

Samninganefnd skal undirrita kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna.

Allsherjaratkvæðagreiðsla, póst- eða netkosning skal fara fram um kjarasamning svo fljótt sem verða má eftir undirritun samninganefndar.

Samninganefnd er heimilt að undirrita kjarasamning án fyrirvara um samþykki félagsmanna deildanna að eftirfarandi skilyrðum öllum uppfylltum:

 • Undirritun án fyrirvara er samþykkt samhljóða innan samninganefndar.
 • Samningstími er skammur (skemmri en 12 mánuðir).
 • Samningurinn taki ekki til neinna veigamikilla kjaraatriða.

Við breytingar á kjarasamningi á samningstímabilinu er ekki skylt að viðhafa atkvæðagreiðslu ef þær eru samþykktar samhljóða innan samninganefndar.

 

 

X. kafli

Staðar-, fag- og áhugafélög

28. grein

Réttur staðar-, fag- og áhugafélaga

Staðar-, fag- og áhugafélög lögreglumanna, sem samþykkt hafa verið af þingi LL eiga rétt á að senda 1 fulltrúa, hvert félag, til þings LL.  Hafa aðilar þessir málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.  Auk þess eiga formenn staðar-, fag- og áhugafélaga eða fulltrúar þeirra rétt til setu á formannaráðstefnum LL, sbr. 16. gr., með sömu réttindum og á þingum samtakanna.  Viðkomandi félög eiga rétt á úthlutun úr starfsmenntunarsjóði LL eftir reglum sjóðsins hverju sinni.

 

 

XI. kafli

Lagabreytingar

 

29. grein

Lagabreytingar

Lögum LL má aðeins breyta á reglulegu þingi LL.  Tvær umræður skulu vera um lagabreytingar og telst lagabreyting ekki samþykkt nema með a.m.k. 2/3 hluta atkvæða á þingfundi.

 

Ef brýna nauðsyn ber til geta  2/3 hlutar atkvæðisbærra manna á formannaráðstefnu  LL, sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna, samþykkt að boða til aukaþings sem heimild hefur til lagabreytinga.  Boðun til aukaþings samkvæmt þessari málsgrein skal framkvæmd með sama hætti og til reglulegs þings.

 

Um frest vegna tillagna til lagabreytinga, sem leggja á fyrir þing LL, gilda ákv. 12. gr.

XII. kafli

Ýmis ákvæði

 

30. grein

Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi.

 

Ákvæði til bráðabirgða

Viðbót við 3. gr. laga LL:

a. Þar sem ekki hefur verið áhugi fyrir formlegri sameiningu deildanna á Eyjafjarðarsvæði og Þingeyjarsýslum skal á næsta reglulega þingi LL (2018), sem og þingum frá og með XXXIV þingi 2018, fulltrúatala þessara deilda taka mið af heildarfjölda lögreglumanna á þessu starfssvæði sbr. 11. gr. laga LL.

Viðbótarskýringar við ákvæði til bráðabirgða I. a., samþykktar á XXXIV þingi LL 2018:

Með breytingunni sem gerð var á heitum og fjölda deilda LL á XXXIV þingi 2018 var ekki verið að leggja þær kvaðir á lögreglufélögin á Norðausturlandi að sameinast.  Eingöngu var verið að festa í sessi þann félagspólitíska raunveruleika sem endurspeglast annarsvegar í 2. mgr. 25. Gr. laga LL sem og ákvæðinu til bráðabirgða sem samþykkt var á XXXIII þingi LL árið 2016.

Lög Landssambands lögreglumanna, samþykkt á XX þingi sambandsins 7. – 9. maí 1996.

Síðari breytingar samþykktar á XXI þingi sambandsins 19. – 22. apríl 1998, á XXVI þingi sambandsins 29. mars – 1. apríl 2004, á XXVII þingi sambandsins 2. – 3. maí 2006, á XXVIII þingi sambandsins (aukaþingi) 24. nóvember 2006, á XXIX þingi sambandsins 29. apríl – 1. maí 2008, á XXX þingi sambandsins 27. – 28. apríl 2010 og á XXXI þingi sambandsins 24. – 25. apríl 2012, á XXXIII þingi sambandsins 25. – 27. apríl 2016, á XXXIV þingi sambandsins 23. – 25. apríl 2018, á XXXV þingi sambandsins 27. apríl og 25. október 2021.

Til baka