Trúnaðarmenn

Á flestum vinnustöðum lögreglu starfa trúnaðarmenn. Þeir gegna mikilvægu hlutverki þar sem þeim ber að gæta þess að kjarasamningar lögreglumanna séu virtir og að ekki sé gengið á rétt lögreglumanna.

Þeim lögreglumönnum, sem áhuga hafa á að starfa sem trúnaðarmenn, er bent á að hafa samband við formenn sinna svæðisdeilda.  Þá er einnig rétt að benda hinum sömu á – sem og starfandi trúnaðarmönnum – sérstakt vefnámskeið fyrir trúnaðarmenn, sem hægt er að nálgast hér.

HVERT ER HLUTVERK TRÚNAÐARMANNA?

Trúnaðarmenn eru tengiliðir milli félagsmanna á vinnustað og vinnuveitanda annarsvegar og félagsmanna og milli félagsmanns og stéttarfélags (LL) hinsvegar.  Þurfa þeir m.a. að gæta þess að kjarasamningar séu haldnir og réttur lögreglumanna virtur. Þeir eru til aðstoðar ef og þegar upp rís ágreiningur um samningsbundin kjör lögreglumanna, hvort sem óskað er af lögreglumanninum eða vinnuveitenda.

Trúnaðarmenn mynda saman trúnaðarmannaráð LL og eru trúnaðarmannaráðsfundir haldnir reglubundið yfir vetrarmánuðina.

Trúnaðarmenn eru fulltrúar LL úti á vinnustöðum. Þeir standa þó aldrei einir því stjórn og starfsmenn félagsins eru þeim til stuðnings við að leysa úr vanda sem upp kann að koma og heyra undir starfssvið félagsins.

KJÓSA SKAL TRÚNAÐARMANN Á TVEGGJA ÁRA FRESTI

Trúnaðarmaður er kosinn til 2ja ára í senn en ekki er kveðið á um það í lögum hvernig standa skuli að kosningu.  Misjafnt getur verið eftir stéttarfélögum hvernig staðið er að kosningu trúnaðarmanna.

Mikilvægt er að hafa í huga að eftir 2 ár rennur kjörtímabil trúnaðarmanns út.  Ef  trúnaðarmaður er ekki endurkjörinn missir hann, eftir 2 ár, þá vernd og réttindi sem hann annars nýtur samkvæmt lögum.

Sum stéttarfélög skilgreina hvenær árs kosning skuli fara fram og skipa sérstaka kjörstjórn eða fulltrúa stéttarfélags sem stýrir framkvæmd kosningar.  Yfirleitt sér núverandi trúnaðarmaður um kosningu eftirmanns og ef einn trúnaðaðarmaður er í framboði meta sum stéttarfélög kosningu óþarfa.  Þá er stéttarfélögum heimilt að skipa trúnaðarmenn þar sem ekki er hægt að koma við kosningu.

FJÖLDAVIÐMIÐ VIÐ KOSNINGU

Fjöldaviðmið félagsmanna á vinnustað vegna kosningar trúnaðarmanns eða trúnaðarmanna er misjafnt eftir því hvort um félagsmenn á almennum markaði er að ræða eða félagsmenn sem starfa hjá hinu opinbera.

Um opinbera vinnumarkaðinn gildir eftirfarandi:

  • Í lögum um opinbera starfsmenn nr. 94/1986 er fjöldaviðmið víðara og er heimilt að kjósa 2 trúnaðarmenn á vinnustöð þar sem 50 eða fleiri starfa.  Samkvæmt fyrrnefndum lögum er heimilt að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess vegna starfsmanna á vinnustöðvum sem ekki uppfylla skilyrði um lágmarksfjölda. Einstökum stéttarfélögum er heimilt að semja um aðra skipan á vali trúnaðarmanna en að framan greinir. Þá er heimilt að sameinast um trúnaðarmenn ýmist fyrir landssvæði, fleiri en eina stofnun eða milli stéttarfélaga hjá opinberum starfsmönnum.
  • Samkvæmt Samkomulagi um trúnaðarmenn hjá ríki, Reykjavíkurborg og ýmsum sjálfseignarstofnunum er heimilt á þeim vinnustöðum þar sem starfsmenn vinna samkvæmt mismunandi vinnutímakerfum að kjósa einn trúnaðarmann hið  minnsta fyrir hvert vinnutímakerfi. (þessi hluti er í vinnslu)

TILKYNNING UM KOSNINGU

Val trúnaðarmanns skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn stéttarfélags þegar í stað. Trúnaðarmaður telst ekki fá réttarstöðu og lögbundna vernd trúnaðarmanns nema  kosning hans hafi verið tilkynnt vinnuveitanda skriflega og sannanlega. Það er því mjög mikilvægt að kjörnir trúnaðarmenn gæti þess að tilkynningaskyldu sé fylgt eftir.

HVAÐ ÞARF TRÚNAÐARMAÐUR AÐ HAFA TIL AÐ BERA?

Góður trúnaðarmaður þarf fyrst og fremst að hafa áhuga á vellíðan og starfsöryggi félaga sinna. Hann þarf að vera vakandi fyrir vinnuumhverfinu og eiga auðvelt með mannleg samskipti, hafa ríka réttlætiskennd, eiga auðvelt með samstarf og vera óhræddur við að axla ábyrgð.
Til þess að rödd sem flestra heyrist í trúnaðarmannaráði félagsins er nauðsynlegt að lögreglumenn úr ólíkum deildum gefi kost á sér til trúnaðarstarfa.

Lista yfir starfandi trúnaðarmenn er að finna á mínum síðum.

Til baka