Auglýsingaskylda lausra starfa

Laus störf / embætti hjá ríkinu ber að auglýsa sbr. upplýsingar um slíkt af vef fjármálaráðuneytisins:

„Meginreglan er sú að öll laus störf ber að auglýsa opinberlega laus til umsóknar, sbr. 7. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Sjónarmiðin að baki auglýsingaskyldunni eru annars vegar jafnræði borgaranna til að sækja um störf og hins vegar það að þannig sé stuðlað að því að ríkið eigi sem bestan kost á hæfum umsækjendum.

Í reglum fjármálaráðherra nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, er kveðið á um þau atriði sem þurfa hið minnsta að koma fram í auglýsingu, um lengd umsóknarfrests og birtingu auglýsingar. Jafnframt er þar að finna nokkrar undantekningar frá auglýsingaskyldunni. Þá er hægt að setja mann tímabundið í embætti til afleysinga án auglýsingar, sbr. 24. gr. laga nr. 70/1996 með síðari breytingum. Um frekari undantekningar er ekki að ræða nema þær örfáu sem er að finna í sérákvæðum laga um einstaka flokka starfsmanna ríkisins.

Reglur nr. 464/1996 taka til almennra starfa í þjónustu ríkisins, þ.e. starfa sem falla undir gildissvið laga nr. 70/1996 að undanskildum embættum en þau eru talin upp í 22. gr. laganna.“

og:

„Meginreglan er sú að það er ekki skylt að auglýsa starf laust til umsóknar þegar starfi tiltekins starfsmanns er breytt t.d. í tilefni af nýju skipulagi. Regla þessi byggir á 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt þeirri grein er starfsmanni skylt að sæta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Slíkar breytingar geta m.a. lotið að staðsetningu vinnustaðar/ starfsstöðvar, fyrirkomulagi vinnutíma og verkefnum. Rétt er að tilkynna um slíkar breytingar skriflega.“

Telji lögreglumenn á sig hallað í þessum efnum er hægt að koma á framfæri kvörtun til Umboðsmanns Alþingis sem e.a. tekur mál til skoðunar og skilar áliti í kjölfarið.

Rétt er að vekja á því sérstaka athygli hér að Landssamband lögreglumanna ritaði Umboðsmanni Alþingis bréf þann 11. janúar 2016 í hverju farið var fram á það við umboðsmann að hann hæfi frumkvæðisathugun á stöðuveitingum innan lögreglu en talsvert hafði borið á því að félagsmenn kvörtuðu til LL vegna stöðuveitinga án undangenginna auglýsinga.

Svarbréf umboðsmanns barst LL þann 8. febrúar 2016 í hverju umboðsmaður reifar auglýsingaskyldu vegna lausra starfa og embætta hjá hinu opinbera og lýsir því síðan yfir að hann muni ekki, á grundvelli ónógra fjárveitinga og mannafla, hefja frumkvæðisathugun þá sem LL fór fram á að gerð yrði.  Þá lýsti hann því jafnframt yfir að embættið myndi eftir sem áður taka til umfjöllunar kvartanir einstaklinga vegna slíkra mála.

Þetta vill segja að einstaka lögreglumenn, sem telja á sér brotið vegna þess að tilteknar stöður eða embætti hafi ekki verið auglýst laus til umsóknar verða sjálfir að bera upp kvörtun sína til umboðsmanns.

Hér að neðan eru hlekkir á ýmsar upplýsingar varðandi auglýsingar á lausum störfum / embættum hjá ríkinu:

Handbók um ráðningar hjá ríkinu, gefin út af fjármálaráðuneytinu í mars 2007.

Reglur nr. 464/1996 um auglýsingar á lausum störfum hjá ríkinu, með síðari breytingum.

Upplýsingar af vef fjármálaráðuneytisins um auglýsingu starfs / embættis.

Dreifibréf nr. 8/2002 um upphaf starfs embættismanna og auglýsingar á lausum embættum.

Spurt og svarað af vef fjármálaráðuneytisins – auglýsingar lausra starfa / embætta.

Til baka