Fréttir

„Að vera eða vera ekki í lögreglunni“ – um launakjör og starfsskilyrði – Fréttablaðið 12. mars 2008

12 mar. 2008

Er spurning sem brennur á vörum margra starfsfélaga minna og hefur gert í langan tíma.  Ástæður þess eru margar s.s. slök launakjör, niðurskurður (hagræðing), undirmönnun, gríðarlegt vinnuálag, líkamlegt og andlegt ofbeldi, styttri ævi vegna vaktavinnu o.fl.

 

Hagræðing, niðurskurður

 

Það heyrast váleg tíðindi af löggæslumálum á Suðurnesjum.  Lögreglustjóranum er gert að draga saman um einar 250.000.000,- kr. ef tölur mínar eru réttar.  Ráðuneyti dómsmála sendir frá sér fréttayfirlýsingar þess efnis að þarna sé í raun um umframkeyrslu embættisins að ræða og við því verði að bregðast með þessum hætti. 

Hvers vegna skyldi þessi „umframkeyrsla” vera tilkomin?  Er það ekki einfaldlega vegna þess að kostnaður, við að halda úti þeirri þjónustu, sem íbúar Suðurnesja og flugfarþegar um Keflavíkurflugvöll eiga rétt á, lofað hefur verið og nauðsyn er að veita vegna öryggis flugfarþega og til að stemma stigu við innflutningi fíkniefna um Keflavíkurflugvöll er sá sem fram hefur komið? 

Það er ekki eingöngu á Suðurnesjum sem skóinn kreppir.  Þannig hefur t.d. rúmlega ársgömlu embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu verið gert að draga saman um 120.000.000,- kr.  Embættið hafði fengið, góðfúslegt, leyfi dómsmálaráðuneytisins til að keyra á 4% innbyggðum halla fyrsta rekstrarárið en nú skal rétta kúrsinn.

Sögur fara einnig af minni embættum úti um landið þar sem ekki er mannað í allar stöður en rekstur viðkomandi embætta allur í járnum eða jafnvel í mínus.

Í hádegisviðtali Stöðvar 2 hinn 12 mars s.l. sagði formaður Landssambands Lögreglumanna, Sveinn Ingiberg Magnússon, að innan raða lögreglu, hafi menn velt því fyrir sér hvort reikniforsendur ráðuneytisins, sem lagðar eru til grundvallar fjárveitingum til lögregluembættanna, væru réttar. 

 

Undirmönnun og launakjör

 

Hjá báðum embættum, lögreglustjórans á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, vantar lögreglumenn til starfa en embættin gætu ekki einu sinni greitt lögreglumönnum laun þó nógu margir fengjust til starfans.

Hjá flestum lögregluembættum landsins er launakostnaður, varlega áætlaður, um 80% – 90% af rekstrarkostnaði.  Það er því ljóst að ef á að koma til niðurskurðar (hagræðingar eins og það er gjarnan matreitt) þarf að höggva í launakjör lögreglumanna með einum eða öðrum hætti.  Slíkt fær starfandi lögreglumenn til að hugsa sig um hvort þeir eigi að vera eða vera ekki í lögreglu!

Slök launakjör lögreglumanna eru engin nýmæli.  Hinn 1. september 1875 ritaði Jón Borgfirðingur bréf þar sem hann sagði m.a. þetta um launakjör sín: „Eg ætti nú að fara að hætta þessu þursastarfi, svo illa launuðu, eins og Árni (Gíslason), sem sagði af sér, en bera vatn og mó, því þá hafa krakkarnir í sig og á”.

 

Ofbeldi gagnvart lögreglumönnum

 

Ofan í fréttir af hagræðingu, koma fréttir af árásum og ofbeldi gegn lögreglumönnum. 

Nýlega er genginn dómur í máli manna, sem réðust að starfsmönnum fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þeir voru að störfum á Laugavegi  Afleiðingarnar voru þær að lögreglumennirnir biðu af líkamlegan skaða.  Dómurinn hljóðar upp á sextíu daga, skilorðsbundið, fangelsi fyrir einn árásarmannanna en tveir voru sýknaðir.  Dómar sem þessi eru ekki einsdæmi.  Slíkir dómar gera það að verkum að ungt fólk, sem ráðið hefur sig til starfa hjá lögreglu, við að gæta öryggis samborgara sinna, hugsar sinn gang með áframhald þeirra starfa.  Það er takmarkað sem nýútskrifaður lögreglumaður er tilbúinn að leggja á sig fyrir tæpar tvö hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun.

 

Hvað er til ráða?

 

Gera þarf kröfur um að nægilegu fjármagni sé veitt til grundvallaröryggisþjónustu landsmanna.  Kröfurnar hljóta að verða að þessi mál verði skoðuð, án tafar, og ásættanleg lausn fundin til frambúðar.  

Þá væri einnig ráð að láta af hugmyndum um stofnun varaliðs lögreglu, sem Jón Magnússon fyrrverandi forsætisráðherra reyndi að koma á fót með frumvarpi á þingi 1925.  Nær væri að nýta þá fjármuni, sem ætlaðir eru í varalið, til þeirra liða sem fyrir eru í landinu og tryggja rekstur þeirra.  Það hlýtur að vera krafa að öryggi fólks verði tryggt og að löggæslustofnanir þjóðarinnar geti, á öllum tímum, brugðist við aðsteðjandi vanda;  að lög- og tollgæsla sé það öflug að hægt sé, af alvöru, að stemma stigu við fíkniefnainnflutningi og dreifingu; að lögregla geti haldið upp öflugu, fyrirbyggjandi, eftirliti um allt land;  að lögregla sé í stakk búin að bregðast við líkamsárásum og nauðgunum og fylgja þeim eftir af hörku og án tafa í gegnum dómskerfið.

Til baka