Fréttir

Ræða formanns LL við slit 29. þings LL í Munaðarnesi 30. apríl 2008

30 apr. 2008


Forseti, kæru félagar.

Það er mér mikið gleðiefni að taka við stjórnartaumum Landssambands Lögreglumanna nú, í lok 29. þings sambandsins.

Hún er mér enn meira gleðiefni sú vitneskja, sem ég ég hef í farteskinu og berlega kom í ljós í kosningum til stjórnar LL nú í lok mars s.l. að vita að sjötíu prósent lögreglumanna á landinu standi að baki þeim lögreglumönnum sem nú taka við stjórn Landssambandsins. 

Það að komast hingað var ekki þrautalaust en hvorutveggja í senn skemmtilegt og lærdómsríkt. Nú tekur við mikið og strangt starf, bæði við að koma okkur inn í þau mál, sem í gangi eru hjá Landssambandinu og eins við undirbúning kjaraviðræðna á hausti komandi.

Ég geri mér grein fyrir að þær viðræður verða ekki auðveldar.

Ég geri mér grein fyrir því að félagsmenn vænta mikils og sú ganga sem fyrir höndum er verður ekki auðveld.

Ég geri mér grein fyrir að ef á einhverri stundu er þörf á sameiningarkrafti lögreglumanna, um allt land, þá er það nú.

Ég geri mér grein fyrir því að augu allra lögreglumanna munu fylgja störfum nýrrar stjórnar Landssambands Lögreglumanna.

Að sama skapi geri ég mér einnig grein fyrir því að þessi vinna vinnst ekki auðveldlega nema með aðkomu sem flestra félagsmanna, hvort sem það er með beinni þátttöku í þágu Landssambandins, með framlagi hugmynda eða vinnu í nefndum á vegum sambandsins.

Landssamband Lögreglumanna er fyrir félaga þess en félagarnir ekki fyrir það.

Landssambandið verður aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess og bið ég alla lögreglumenn, hvar í sveit sem þeir eru settir að huga að því. Slagkraftur stjórnar Landssambandsins verður aldrei meiri og sterkari en það sem hinn almenni félagsmaður er tilbúinn að leggja á sig í baráttu fyrir bættum kjörum sínum og hærri launum. Þetta skyldi hver og einn íhuga með sjálfum sér og láta loks samvisku sína dæma.

Síðustu fregnir af verðbólguþróun fyrir apríl mánuð 11,8% eru, eins og bæði talsmenn alþýðusambands Íslands og samtaka atvinnulífsins, komust að orði, SKELFILEGAR. Svo skelfilegar að útlit er fyrir að forsendur nýgerðra kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði eru í uppnámi. Eða eins og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, komst að orði „Ekki einu sinni kraftaverk getur lengur komið í veg fyrir að reyni á endurskoðunarákvæði kjarasamninga í upphafi næsta árs”. Slíkar fréttir eru, eins og áður sagði, SKELFILEGAR, og ljóst að hverjir þeir kjarasamningar, sem lögreglumenn gera á hausti komandi verða í styttra lagi eins og reyndar forysta BSRB hefur ályktað um í tengslum við þá kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem lausir eru um þessar mundir.

Það er ljóst að ríkisvaldið er tilbúið að koma til viðræðna við forystu BSRB á sömu nótum og nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði mæla fyrir um.

Það er ljóst, og ég leyfi mér hér með, að tala fyrir munn allra lögreglumanna í landinu, að hækkun launa sem þar var samið um er ekki næg enda launaskrið töluvert á hinum almenna vinnumarkaði undanfarin ár. Jafnvel þó hún kæmi ofan á þrjátíu þúsund króna álagsgreiðslurnar, sem við njótum nú, væri hækkunin ekki næg. Við munum fara fram á meiri og veglegri launaleiðréttingar. Launaleiðréttingar, sem endurspegla þá hættu og það álag sem felst í því að vera lögreglumaður. Sú barátta verður langt í frá auðveld og krefst aðkomu ALLRA lögreglumanna.

SFR hefur lýst því yfir í kröfugerð sinni að lágmarkslaun félagsmanna innan SFR verði ekki undir 200.000,-. Lægsta upphæð í okkar launatöflu, með 30.000,- álagsgreiðslunni er 168.513,- kr. þarna vantar talsvert upp á.

Mikið hefur áunnist í réttindamálum lögreglumanna í langri sögu Landssambandsins. Mörgu á enn eftir að ná fram. Það að vera lögreglumaður tekur sinn toll. Það sanna erlendar rannsóknir. Starfið tekur á bæði andlega og líkamlega. Við lifum að meðaltali skemur en aðrir. Innan raða lögreglumanna er meira um áfengissýki, sjálfsvíg og þunglyndi, en annarra stétta, svo eitthvað sé nefnt. Kulnun í starfi er sennilega líka meiri í okkar stétt en nokkurri annarri. Öllu þessu veldur sú einfalda staðreynd að við erum, í störfum okkar, í langflestum tilvikum, að eiga neikvæð samskipti við „viðskiptavini” okkar. Þessi átök, líkamleg og andleg, krefjast tolla af líkama og sál. Slíkt þarf að viðurkenna og fá metið til launa og réttinda á borð við lægri starfslokaaldur en almennt gerist meðal starfsmanna hins opinbera. Þetta eigum við að vera óhrædd að ræða opinberlega og vekja athygli almennings á. Við erum jú eftir allt saman konur og menn eins og hverjir aðrir þegnar þessa lands.

Atburðir liðinna daga og vikna t.a.m. boðuð sundurslit lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum, mótmæli vörubifreiðastjóra gegn hækkuðu eldsneytisverði o.fl. sýna, svo ekki verði um villst að af mörgu er að taka fyrir nýja stjórn LL.

Áformin með embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum brýna fyrir okkur þá nauðsyn að vera vakandi, tilbúin og óhrædd til svara þegar á þarf að halda. Svara sem studd eru ákveðnum og föstum rökum. Þarna skiptir samtakamáttur félagsmanna einnig gríðarlegu máli og sannar að „sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér”. Stétt lögreglumanna er gríðarlega öflugur þrýstihópur, sem yfirvöld geta ekki hundsað.

Mótmæli vörubifreiðastjóranna ein og sér sýna það einnig að þörf er gríðarlegs utanumhalds. Í fréttum af atburðunum, sem enduðu í aðgerðum lögreglu austan við Rauðavatn, var helst að heyra að lögregla hafi farið offari. Svo var ALLS EKKI. Ef eitthvað var, sýndi lögregla helst til mikið langlundargeð í samskiptum sínum við mótmælendur. Þetta aftur sýnir, svo ekki verði um villst að þörf er á vel þjálfuðum, fullmönnuðum og almennilega launuðum lögregluliðum til að takast á við hvert það ástand er ógnað getur allsherjarreglu og almannahagsmunum. Hér kemur varalið ekki að notum!

Lögreglumenn ganga ekki að því vísu, þegar þeir fara til vakta sinna að þeir komi heim á réttum tíma í lok vaktar. Þeir ganga heldur ekki að því vísu að þeir komi heim í heilu lagi. Það sýna og sanna kannanir sem gerðar hafa verið á starfsumhverfi lögreglumanna. Kannanir sem sýna það að meira en helmingur allra lögreglumanna á Íslandi hefur orðið fyrir líkamsmeiðingum í starfi. Sömu kannanir hafa sýnt að rúm 64% lögreglumanna hafa orðið fyrir ofbeldi eða hótunum um ofbeldi í starfi. Hótunum sem þeir hafa tekið alvarlega. Útsendingar sjónvarpsstöðva í kringum mótmæli vörubifreiðastjóra, við Rauðavatn sýndu, svo ekki var um villst, hvernig það starfsumhverfi er sem lögreglumenn búa við.

Kjörnir þingmenn þessarar þjóðar hafa jafnvel látið hafa það eftir sér að það sé eðlilegur fórnarkostnaður að lögreglumenn meiddust í starfi. Í umræðu um úttekt á svokölluðum taser byssum kom það m.a. fram hjá einum þingmanni að honum fyndist það eðlilegt að áður en lögregla vopnaðist – og hefði þar með vopn og verjur til að bregðast við árásum á sig í starfi – að lögreglumaður yrði skotinn. Við eigum heimtingu á því að þeir sem setja okkur starfsreglur, sem okkur ber að fara eftir við framkvæmd starfa okkar, að þeir beri þá virðingu fyrir okkur að við getum sinnt þeim landi og þjóð til sóma. Við eigum rétt á því að okkur séu búin þau starfsskilyrði að við þurfum ekki, á sama tíma og við erum að kljást við óþjóðalýð, að vera að kljást líka við handhafa löggjafarvaldsins.

Ofan á þetta allt saman berast af því fregnir að lögregla sé í auknum mæli að fást við meðlimi erlendra glæpagengja. Fyrir stuttu bárust af því fréttir að Vítisenglar væru komnir með enn meiri fótfestu hér á landi, en verið hefur. Þetta er hluti af svokallaðri alþjóðavæðingu og frjálsu flæði fólks innan Evrópusambandsins og hins Evrópska efnahagssvæðis auk ýmissa ákvæði í Schengen sáttmálanum. Ýmsir lögreglumenn hafa, um langa hríð, bent á þessa þróun, en margir hverjir fengið skömm í hattinn fyrir. Nú er dómsmálaráðherra farinn að vekja athygli á einmitt þessu, í ræðu sinni og riti. Vandinn, sem við er að eiga, er því bæði þekktur og viðurkenndur sem slíkur og sést í fréttum af þróun afbrota í landinu.

Eftir stendur hinsvegar viðurkenningin í launaumslögum okkar, réttindum og starfsumhverfi.

Málið er sáraeinfalt: Lögregla verður að vera í stakk búin til að fást við hvert það ástand, sem skapast getur í þjóðfélaginu og brugðist við því, hvorutveggja, með nægum og vel þjálfuðum mannskap. Þetta hefur Landssamband Lögreglumanna bent á árum saman. Núverandi dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á sömu hluti þ.a. að leiðir okkar liggja saman að sama marki – öflugri, fjölbreyttri, vel menntaðri og vandaðri lögreglu. Við ættum því ekki að vera í vandræðum með að ná saman, með dómsmálaráðherra, um bætt starfs- og launaumhverfi því það er jú hluti þess stígs sem feta þarf til að ná því marki sem sett hefur verið.

Það verður seint sagt um lögreglumenn að þeir séu ekki tilbúnir til breytinga. Eðli starfa sinna vegna fást þeir við breytingar allan sólarhringinn, alla daga, allan ársins hring. Það er því afar nauðsynlegt að þeim sé tryggt öryggi í starfsumhverfi sínu, að svo miklu leyti sem því verður við komið og ekki sé anað að breytingum breytinganna vegna.

Kæru félagar!

Sá tími sem nú fer í hönd er tími umbreytinga. Ný stjórn LL hefur boðað það láta í sér heyra svo eftir verði tekið. Láta í sér heyra jafnt inn á við sem út á við. Upplýsingar eru upphaf alls. Það að félagsmenn viti hvað er í gangi hverju sinni heldur hvorutveggja þeim og stjórninni við efnið. Landssamband Lögreglumanna á ekki einungis að bregðast við umræðu sem skapast í þjóðfélaginu um lögreglumál heldur á það einnig að koma slíkri umræðu af stað.

Í ræðu sinni við útskrift lögregluskóla ríkisins þann 18. apríl s.l. sagði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra m.a.
„Löggæslan er á réttri braut. Krafta sérhvers lögreglumanns ber að nýta til virkrar þátttöku við að gæta laga og réttar. Hver einstakur lögreglumaður hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Honum ber að auðvelda störfin með góðum búnaði, öflugri greiningu og áhættumati. Öryggi lögreglumanna verður best tryggt með vitneskju um hættuna, sem að þeim kann að steðja, og réttum viðbrögðum við henni.”

Ég fullyrði að hver einasti lögreglumaður á Íslandi geti verið sammála þessum orðum dómsmálaráðherra. Hér þarf að láta kné fylgja kviði.

Kæru félagar!

Ég vil, er ég lýk hér máli mínu, þakka sérstaklega öllum þeim aðilum sem komið hafa að því að gera þetta þing svo glæsilegt sem raun bar vitni. Að öllum öðrum ólöstuðum ber sérstaklega að þakka starfsmönnum Landssambandsins þeim Steinari og Stefaníu fyrir þeirra fórnfúsu störf. Ég vil þakka Jónasi Magnússyni fyrir góða stjórn á þinginu í hlutverki forseta, sem og Magnúsi Einarssyni varaforseta þingsins og öðrum starfsmönnum þingsins.

Ég ber þá von í brjósti að lögreglumenn gangi sameinaðir inn í framtíðina og gamlar stríðsaxir verði grafnar um aldur og ævi til heilla fyrir stéttina alla. Minni ég á, í þessu sambandi, einkunnarorð lögreglunnar og þessa þings „Með lögum skal land byggja”.

Að lokum vil ég minna ykkur, kæru félagar, á það að á morgun er 1. maí, alþjóðlegur frídagur verkalýðsins. Þann dag verður haldin lögreglumessa í Langholtskirkju. Ég hvet ykkur öll að mæta til messunnar.

Ég vil einnig minna ykkur á kröfugöngu BSRB frá Hlemmtorgi á morgun en þar verður fáni LL borinn.

Kæru félagar ég bíð ykkur góðar stundir og þakka áheyrnina.

Ég slít, hér með, 29. þingi Landssambands Lögreglumanna.

Til baka