Fréttir

Metþátttaka í minningarsundinu 12. júlí 2008

13 júl. 2008

Færsla fengin að láni á vefsíðunni https://sjosund.blogcentral.is sem er vefsíða sjósundfélags lögreglunnar.

 

Þar kom að því. Fjöldi sjósundmanna í minningarsundi Jóns Otta sló öll fyrri met og ríflega það. Þrátt fyrir hressilegt sjólag og veður mættu tæplega þrír tugir sjósundmanna á Viðeyjarferjubryggjuna í Sundahöfn þann 12. júlí.

 

Í fyrra mættu sex í sundið sem haldið var á svipuðum tíma í logni og sólskini. Var umgjörð öll miðuð við 10 sundmenn (sem þykir fín mæting) og því talið duga að fá slöngubát lögreglu höfuðborgarsvæðisins til að fylgja sundmönnunum eftir. Vegna öldugangs og vinds var það talið fremur glæfralegt að leggja í sundið með allan þennan fjölda og bara einn fylgdarbát. Þótt flestir væru vanir sjósundi ,sumir mjög vanir, varð að hugsa til hinna óreyndari og því var ákveðið að fresta því að synda frá Viðey. Hugmyndin er að synda Viðeyjarsund innan fárra vikna og verður skipulagningin þá öll ákveðnari og sundmenn beðnir að skrá sig til leiks fyrirfram svo að hægt verði að skipuleggja sundið með tilliti til fjölda þátttakenda. Þótt nokkrir hafi horfið af vettvangi eftir að búið var að fresta Viðeyjarsundinu, ætla að mæta síðar í Viðeyjarsundið, var enn hugur í mannskapnum og var því ákveðið að synda til minningar um Jón Otta frá gömlu Viðeyjarferjubryggjunni, austan Skarfabakka, og yfir að þeirri nýju, vestan Skarfabakka, ríflega 500 metra leið. Bættist góður liðsauki við fylgdarbátaflotann þegar bróðir eins sundmannanna mætti á slöngubát og var sundmönnunum til halds og trausts. Svo fór að 23 fóru í sjóinn og 22 kláruðu sundið. Sá sem fékk far í land með fylgdarbátnum var fljótur að jafna sig. Hægustu sundmennirnir voru 26 mínútur á leiðinni.

Til baka