„Það er stórhættulegt að svelta almenna löggæslu í landinu.“ – Morgunblaðið 18. júlí 2008
18 júl. 2008
Fyrirsögn þessarar greinar er sótt í grein, sem Atli Gíslason og Jón Bjarnason, þingmaður og ráðherra Vinstri grænna birtu í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. mars 2008. Þá voru þeir nú reyndar í stjórnarandstöðu!
Í greininni lýstu þeir áhyggjum sínum af því „ófremdarástandi” sem væri að skapast í löggæslumálum þjóðarinnar. Hún var skrifuð í tilefni af því ástandi sem var til umfjöllunar á þeim tíma í löggæslumálum á Suðurnesjum. Grein þeirra félaga var mjög góð umfjöllun um þær fjárhagsþrengingar sem lögreglan í landinu var að glíma við á þeim tíma. Í greininni segir m.a:
„Ófremdarástand er að skapast víða og öryggi íbúanna hvað varðar löggæslu er í uppnámi. Nefna má að álíka margir lögreglumenn þjóna nú höfuðborgarsvæðinu öllu og áður sinntu Reykjavík einni.“
Allt rétt hjá þeim félögum! Þá vitnuðu þeir félagar einnig í formann sinn, núverandi fjármálaráðherra, og skrifuðu:
„Eins og Steingrímur J. Sigfússon benti á við fjárlagagerðina hefur almenn löggæsla, jafnt í höfuðborginni, sem á landsbyggðinni, verið í miklu fjársvelti þannig að embættin eiga í vaxandi erfiðleikum með að manna lágmarksgæslu.“
Allt hárrétt hjá þeim félögum – öllum þremur! Ennfremur sögðu þeir:
„Þingmenn VG lögðu við afgreiðslu fjárlaga fram tillögur um auknar fjárveitingar til löggæslunnar á Suðurnesjum, Reykjavíkursvæðinu, og úti um land. Á móti lögðum við til lækkanir á fjárveitingum til ríkislögreglustjóra og til heræfinga hinnar nýju Varnarmálastofnunar Samfylkingarinnar. Meirihlutinn á Alþingi felldi þessar tillögur enda er húsaginn á þeim bæ þannig að það sem ráðherra leggur til á fjárlögum þorir meirihlutinn á Alþingi lítið að hreyfa. Við búum við „ráðherrafjárlög”.
Það stendur ekki á okkur þingmönnum Vinstri grænna að svara kalli almennrar löggæslu áður en í algjört óefni er komið. Um leið og þing kemur saman á ný eftir páskahlé munum við leggja fram frumvarp til fjáraukalaga um aukin framlög til almennrar löggæslu í landinu og til að leysa lögregluna undan þeim fjárkröggum sem ríkisstjórnin hefur komið henni í.”
Svo mörg voru þau orð! Enn og aftur rétt hjá þeim félögum, að undanskildu því, að tillögur um að minnka fjárveitingar til embættis ríkislögreglustjórans bera ákveðinn keim af vankunnáttu á viðfangsefnum lögreglu almennt.
Hverjar eru svo efndirnar, nú þegar VG eru komnir í meirihluta á Alþingi í samvinnu við Samfylkinguna, sem þeir svo fjálglega gagnrýndu vegna „hernaðaræfinga” hennar?
Efndirnar komu fram í gríðarlegum viðbótarniðurskurðarkröfum á lögregluembættin í landinu það sem eftir lifir árs 2009 og því til viðbótar allt að 10% niðurskurði á árinu 2010!
Hafi verið í óefni komið og stefnt í „ófremdarástand” í byrjun árs 2008 liggur ljóst fyrir að það ástand er löngu komið og ágerist enn!
Sem dæmi má taka að kostnaður embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) vegna „búsáhaldabyltingarinnar” var hátt í 50 mkr! Engin viðbótarfjárveiting fékkst vegna þess kostnaðar!
LRH hefur nú verið gert að skera niður um 57,1 mkr. á þeim mánuðum sem eftir eru ársins 2009!
Sé miðað við fjárveitingar LRH 2009 verður niðurstaðan af 10% niðurskurði á næsta ári allt að 320 mkr!
Svipaða sögu er að segja af öllum lögregluembættum landsins!
Þessum niðurskurðarkröfum ná embættin ekki fram nema með launalækkunum, sem nú þegar hafa verið töluverðar, og/eða uppsögnum!
Uppsögnum lögreglumanna í þegar undirmönnuðum lögregluliðum landsins!
Hvað segja áðurnefndir þingmenn og ráðherrar VG nú, þegar ófremdarástandið er komið? Hvar er vilji þeirra til verka nú? Hvar eru áhyggjur þeirra af öryggi borgaranna nú? Það heyrist frekar lítið í þeim almennt og reyndar ekki neitt er kemur að innra öryggi Íslendinga. Sannast hér kannski hið fornkveðna: „Bylur hæst í tómri tunnu”?
Spyr sá sem:
-
ekki veit;
-
ekki verður var við efndir fagurra fyrirheita;
-
þó veit að frá því að grein þeirra var rituð hefur orðið umtalsverð raunfækkun lögreglumanna um allt land;
-
þó veit að í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar segir: „Fjárveitingar langflestra þeirra stofnana sem úttekt Ríkisendurskoðunar tók til [LRH m.a.] voru svipaðar að krónutölu á árunum 2009 og 2008. Því má segja að um raunniðurskurð hafi verið að ræða í rekstri flestra þeirra því verðlag og laun hækkuðu á milli ára.”;
-
þó veit að verkefni lögreglu hafa verið að stóraukast, sbr. afbrotatölfræði Ríkislögreglustjórans;
-
þó veit að ástandið á, sennilega, bara eftir að versna;
-
þó veit að þessar niðurskurðarkröfur á lögregluna í landinu eiga eftir að draga dilk á eftir sér;
-
þó veit að öll almenn rök, sem og erlendar rannsóknir, sýna að það er glapræði eitt að hreyfa mikið við, til lækkunar, á fjárframlögum til löggæslu í viðlíka efnahagsþrenginum og Ísland glímir nú við.
Afleiðingar alls þessa verða ritaðar sem hluti af sögu þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd í landinu, sem og forrennara hennar!
Það er kannski bara best að setja undir sig höfuðið og kveða við háum rómi: „Helvítis, fokking, fokk!”