Fréttir

Enn um sýnileika lögreglu

22 júl. 2008

„Lögreglan ekki nógu sýnileg“ var yfirskrift fréttar í tíufréttum RÚV í kvöld, 21. júlí.  Þar voru birtar tölulegar upplýsingar um fjölda lögreglumanna og -bifreiða á vakt á höfuðborgarsvæðinu í gær, sunnudaginn 20. júlí.  Var þar einnig vitnað í viðtal við formann LL sem var gestur í Kastljósi kvöldsins. 

Í viðtalinu í Kastjósinu kom formaður LL inn á það að LL, yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og úti um landið ásamt yfirstjórn löggæslumála í dómsmálaráðuneytinu væru öll á sama máli þ.e. að það vantaði mannskap og fjármuni til löggæslu.  Til fróðleiks má geta þess að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sagði, í viðtali í fréttum RÚV föstudaginn 18. júlí s.l. – í framhaldi af fundi hans og borgarstjóra vegna m.a. miðborgarþjóna og sýnileika lögreglu í miðborg Reykjavíkur – að mannekluvandi lögreglu leystist ekki nema menn fengjust til starfa.  Viðtalið við dómsmálaráðherra má sjá og heyra hér.

Í tíufréttum RÚV (í dag 21. júlí) var haft eftir lögreglumönnum, sem stóðu vaktina í gær að svo fámennt lið hefði ekki mátt við miklu til að út af brygði. 

Þá er í fréttinni sagt frá því að lögreglumenn á vakt hafi verið samtals átján (18) og er þá allt talið, almenndeild, umferðardeild og sérsveit.  Bifreiðar (almennrar deildar LRH) voru sýndar á korti af höfuðborgarsvæðinu þ.a. ein lögreglubifreið hafði verið skráð í austurbæ Reykjavíkur, Grafarholt, Grafarvog og Mosfellsbæ (væntanlega líka Kjalarnes, Kjós og upp í Hvalfjarðarbotn), ein lögreglubifreið í Hafnarfjörð og Garðabæ, ein í Kópavog, Breiðholt og Árbæjarhverfi og fjórða bifreiðin hafði síðan séð um Vesturbæ Reykjavíkur og Seltjarnarnes.  Þá hafi að auki verið tveir útivarðstjórar á sitthvorri bifreiðinni. 

Í frétt, um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, eftir sviðsstjóra þjónustusviðs Strætó bs, sem birtist á bls. 14 í 24 stundum þriðjudaginn 8. júlí s.l. sést að höfuðborgarsvæðið er 775 ferkílómetrar að flatarmáli á móti t.d. Kaupmannahöfn sem er 88 ferkílómetrar, Árósum sem er 469 ferkílómetrar og Óðinsvéum sem er 304 ferkílómetrar.  Landfræðilegt flatarmál er meðal þess sem þarf að hafa til hliðsjónar þegar þjónustustig lögreglu er ákvarðað.  Þessar tölur breytast allmikið þegar horft er til landsbyggðarinnar og þeirra lögregluliða sem þjónusta íbúa utan höfuðborgarsvæðisins.  Frétt 24 stunda má lesa hér.

Frétt RÚV (tíufréttir 21. júlí) má sjá og heyra hér.

Viðtal Kastljóssins (21. júlí) við formann LL má sjá og heyra hér.

Til baka