Fréttir

„Að telja sig sjá flís“ – svargrein vegna greinar Árna Johnsen – Morgunblaðið 12. ágúst 2008

12 ágú. 2008

Árni Johnsen fer mikinn, þessa dagana í fjölmiðlum, í umfjöllun sinni um íslenskt réttarkerfi. 

 

Ég ætla mér ekki að fjalla hér um þær lögreglurannsóknir sem Árni fjallar um í grein sinni enda ekki í þeirri stöðu að svara til um einstaka aðgerðir lögreglu.  Það sem ég vil hér gera að umfjöllunarefni eru þau orð, sem kjörinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur um einn starfshóp opinberra starfsmanna, rannsóknarlögreglumenn sérstaklega og einnig lögreglumenn almennt auk lögmanna og dómara.

 

Í grein, sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 6. júlí s.l. notar Árni lýsingarorðin „…brjálæðislegar ofsóknir rannsóknarlögreglu…”, „…þrjóska og skáldskapartilþrif opinberra rannsóknarlögreglumanna…”,  „…heljar haustak og mannhatur rannsóknarmanna…” og „…þeir sem stjórnuðu gangi málsins hjá embætti Ríkislögreglustjóra eru settir í skjól og rassinn á þeim púðraður daglega með barnatalkúmi samtryggingarinnar svo vel fari um þá í stólum sínum.” 

 

Í Kastljósi RÚV þriðjudaginn 8. júlí s.l. bætir þingmaðurinn um betur og talar um „samtryggingu ríkislögreglustjóraembættisins, ákveðins hóps lögfræðinga, sem lögreglan kallar til og dómstólanna sjálfra” í þeirri viðleitni sinni að útskýra þau orð sem hann hafði um þá „sem stjórnuðu gangi málsins” hjá Ríkislögreglustjóra.

 

Það er hreint alveg með ólíkindum að, Árni Johnsen, þingmaður á hinu háa Alþingi Íslendinga, skuli leyfa sér að viðhafa slík lýsingarorð um starfsmenn hins opinbera.  Orð hans bera vott um gríðarlega vanþekkingu á störfum lögreglu almennt og rannsóknarlögreglu sérstaklega, þrátt fyrir yfirlýsingar um að hann hafi „…kannski betri skilning á þessari lensku réttarkerfisins en margur annar.”  Það er óþolandi að þurfa að sitja undir slíkum, órökstuddum, gífuryrðum og dylgjum kjörins þingmanns þessarar þjóðar þegar hann tekur sig til, á opinberum vettvangi, og skrifar og talar um störf lögreglu.  Gagnrýni er af hinu góða og á fyllilega rétt á sér og lögregla, sem og aðrar stofnanir hins opinbera er ekki hafin yfir gagnrýni.  Það færi hinsvegar betur á því að þeir sem slíkt skrifa færi skýr rök fyrir máli sínu.  Ef rökin og sannanirnar, liggja einhversstaðar, sem styðja viðlíka fullyrðingar og fram koma í grein og máli Árna Johnsen færi vel á því að þingmaðurinn leggði þau fram, máli sínu til stuðnings í stað þess að alhæfa um heila stétt opinberra starfsmanna, sem og lögmanna og dómara í þessu landi.  Ef rökin og sannanirnar liggja ekki fyrir færi betur á því fyrir viðkomandi að þegja. 

 

Vegur dyggðarinnar er vandrataður og mörgum manninum skrikar þar fótur eins og dæmin sanna.  Ég er fullviss um það að ef einhver lögreglumaður eða dómari hefði fengið tveggja ára dóm fyrir þjófnað og brot í opinberu starfi, ætti sá hinn sami ekki afturkvæmt í sína fyrri stöðu, þrátt fyrir uppreist æru – ef hún þá nokkurn tíma fengist.  Ef slíkt tilvik kæmi upp, held ég að sá maður yrði álitinn galinn ef hann færi í fjölmiðla með yfirlýsingar um hve lögregla og dómstólar væru spilltir og vondir.

 

Það hlýtur einnig að teljast ábygðarhluti af forráðamönnum Kastljóssins að fá Árna Johnsen í drottingarviðtal í sjónvarpið þar sem meginviðfangsefnið eru umrædd skrif Árna í Morgunblaðið.  Í Kastljóss viðtalinu slær Árni úr og í, rétt eins og í blaðagreininni, þegar hann er spurður út í fullyrðingar sínar um rannsóknarlögreglumenn og dómara og þá sem komið hafa að rannsóknum mála hjá Ríkislögreglustjóra.  Þeir Kastljóssmenn sem tóku viðtalið hefðu betur hætt við útsendingu þess þegar þeim varð það ljóst að Árni hafði ekkert nýtt fram að færa umfram tilhæfulausar aðdróttanir að lögreglu og dómskerfi, sem fram komu í grein hans í Morgunblaðinu.  Látum vera að greinar eins og sú sem birtist í Morgunblaðinu eftir Árna þann 6. júlí s.l., sleppi í gegn en það er ábyrgðarhluti að gefa reiðum og bitrum mönnum lausan tauminn, á sjónvarpsskjánum, fyrir framan alþjóð. 

 

Í Kastljósþættinum hafði Árni á orði að í haust hyggðist hann koma fram með þingsályktunartillögur um breytingar á lögreglu- og dómsmálum.  Í ljósi fortíðar Árna, tel ég að hann ætti síðastur þingmanna að koma að þessum málaflokki.  Ef þessum málum verður hreyft á Alþingi er nauðsynlegt að þar komi að málum menn með þekkingu og reynslu á þessu sviði og í samráði við fagaðila. 

 

Það færi betur á því að þingmaðurinn, í þeirri viðleitni sinni að „spúla dekkið”, gerði það þannig að hann færi að eigin ráðum og léti þá sem njóta eiga vafans, njóta hans.  Það færi betur á því að þingmaðurinn rifi bjálkana úr eigin augum áður en hann mundar sig við það að leita eftir flísum í augum annarra.  Það færi afar vel á því að þingmaðurinn bæði lögreglumenn, lögfræðinga, yfirmenn löggæslumála og dómara afsökunar á órökstuddum gífuryrðum sínum.

Til baka