Fréttir

„Hvernig er það í þínu fagi“ – um starfsskilyrði lögreglumanna – Morgunblaðið 15. september 2008

15 sep. 2008

Það líður varla sú vika eða mánuður að ekki berist fréttir af líkamsárásum hverskonar á hendur lögreglumönnum við skyldustörf.  Þannig var það í liðinni viku að ríkissaksóknari gaf út þrjár ákærur á hendur mönnum fyrir árásir á lögreglumenn.  Í sömu viku bárust af því fréttir að aðili, sem réðist með ofbeldi að lögreglumönnum sem voru við skyldustörf við Kirkjusand í Reykjavík, í kjölfar mótmæla vörubifreiðastjóra, var dæmdur til fangelsisrefsingar.  Öllum er í fersku minni gróf árás á starfsmenn ávana- og fíkniefnadeildar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins á liðnu ári.  Þá er ónefnd frétt af árás á lögreglumenn um liðna helgi.  Þetta er, því miður, ein af birtingarmyndum þess að vera lögreglumaður.  Önnur birtingarmynd felst í því að þeir sem velja sér starf í lögreglu geta vænst þess að lifa að meðaltali tíu árum skemur en aðrir þegnar þessarar þjóðar.  Ríkisvaldinu finnst réttlátt að fyrir þetta starf séu greidd byrjunarlaun upp á kr. 181.202,-.  Er þetta svona í þínu fagi? 

 

Á liðnu ári fékkst í gegn réttarbót, fyrir embættismenn hins opinbera, sem hafa yfir að ráða valdbeitingarúrræðum vegna starfa sinna.  Bótin fólst í viðbót við 106. gr. almennra hegningarlaga.  Þannig var refsiramminn hækkaður úr sex árum í átta ár vegna efbeldisbrota sem framin eru gegn t.d. lögreglumönnum.  Þar með hefur löggjafinn viðurkennt þá áhættu sem felst í starfi lögreglumanna.  Sú áhætta hefur hinsvegar ekki endurspeglast út í launin sem greidd eru vegna starfans. 

 

Um langa hríð hefur því verið haldið fram að laun lögreglumanna séu lág.  Umræða um lág laun lögreglumanna nær áratugi aftur í tímann.  Þannig skrifaði Jón heitinn Borgfirðingur í bréfi 1. september 1875:  „Ég ætti nú að fara að hætta þessu þursastarfi, eins og Árni (Gíslason), sem sagði af sér, en bera vatn og mó, því þá hafa krakkarnir í sig og á”.  Þarna kemur skýrt og greinilega fram að laun lögreglumanna árið 1875 virðast hafa verið lægri en laun vatnspósta og móskurðarmanna.  Það er skömm frá því að segja að þetta virðist lítið hafa breyst í aldanna rás því grunnlaun nýútskrifaðs lögreglumanns eru í dag rétt rúmlega grunnlaun leiðbeinanda hjá íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar.  Laun afleysingamanns í lögreglu eru lægri en laun leiðbeinanda í vinnuskóla Reykjavíkur.  Staðan er því, er kemur að grunnlaunum, má segja óbreytt frá því árið 1875! 

 

Þegar skoðaðar eru tölur um þróun meðalgrunnlauna opinberra starfsmanna, tölur sem birst hafa í fréttaritum kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna (KOS), sést að meðalgrunnlaun lögreglumanna m.v. sömu laun opinberra starfsmanna hafa, á tíu ára tímabili frá 1997 – 2007, lækkað um sem nemur 14,2%.  Þannig voru meðalgrunnlaun lögreglumanna m.v. annan ársfjórðung 2007 kr. 250.516,- en meðalgrunnlaun opinberra starfsmanna kr. 282.650,-.  Meðalgrunnlaun lögreglumanna eru því um 11,3% lægri en meðalgrunnlaun opinberra starfsmanna almennt.  Árið 1997 var staðan sú að meðalgrunnlaun lögreglumanna voru kr. 108.645,- en meðalgrunnlaun opinberra starfsmanna kr. 105.581,-.  Meðalgrunnlaun lögreglumanna voru því um 2,9% hærri árið 1997 en meðalgrunnlaun opinberra starfsmanna.  Samanlagt gerir þetta því um 14,2% lækkun meðalgrunnlauna lögreglumanna á tíu ára tímabili.  Þetta verður að teljast undarleg staðreynd í ljósi þess að frá árinu 1997 hefur m.a. fengist í gegn sú réttindabarátta lögreglumanna að starfsaldur þeirra hefur verið lækkaður úr 70 árum í 65 ár, sem hefði átt að skila sér í talsverðri hækkun meðalgrunnlauna, en sú virðist ekki hafa orðið raunin.  Má því segja að lækkunin sé í raun öllu meiri en fram kemur hér að ofan.  Það má því með sanni segja að munurinn á meðalgrunnlaunum opinberra starfsmanna annarsvegar og lögreglumanna hinsvegar hafi í raun aukist frá því að þessi réttindabarátta LL skilaði þeim árangri að starfslokaaldur var færður niður í 65 ár.   

 

Hvernig er það í þínu fagi?  Færð þú greidd laun í samræmi við ábyrgð, áhættu og hæfni?  Er það dag- eða vikulegur viðburður í þínu fagi að á þig er ráðist með ofbeldi eða hótunum um ofbeldi?  Er það algengt í þínu fagi að þér eða fjölskyldu þinni er hótað líkamsmeiðingum eða jafnvel lífláti?  Þannig er það í mínu fagi! 

 

Myndir þú sætta þig við laun upp kr. 181.202,- á mánuði fyrir þannig starf?

Til baka