Fréttir

Umfjöllun um málefni lögreglu

26 sep. 2008

Undanfarna viku hefur mikil umfjöllun verið um málefni lögreglunnar í fjölmiðlum og þá sérstaklega embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sérsveit og fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjórans.  Of langt mál yrði að tína til alla þessa umfjöllun hér.

 

Umræðan hefur m.a. snúist um fjárhagsvanda lögreglunnar og þá undirmönnum sem virðist orðin viðvarandi víða um land með fregnum af yfirvofandi uppsögnum lögreglumanna til að embættin nái að halda sig innan þeirra naumu fjárheimilda sem þau hafa til rekstrarins.

 

Umræðan hefur, að mati LL, verið á nokkrum villigötum því hún hefur m.a. beinst að staðsetningu eininga og deilda innan lögreglunnar út frá því að þannig mætti leysa þann undirliggjandi vanda sem lögreglan glímir við þ.e. fjárskort og skort á mannafla.  LL, sem stéttarfélag lögreglumanna á Íslandi, hefur ekki umboð til að ákvarða hvar einstaka deildir eða einingar innan lögreglu eigi heima enda er það hlutverk að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sem heildar og einstaklinga en ekki staðsetningu verkefna hjá einum lögreglustjóra frekar en öðrum.

Þó er það ljóst að mati LL að tilflutningur einstakra deilda, eða verkefna, á milli lögreglustjóra mun ekki leysa þann grunnvanda sem lögreglan glímir nú við, þ.e. ónógt fjármagn og mannafli.

 

LL hefur ávallt lýst sig reiðubúið að koma að öllum umræðum er varða málefni lögreglunnar en þó ávallt á málefnalegum forsendum.  Því fagnar LL því að nú loksins skuli þeir aðilar – sem hingað til hafa haldið því fram að hvorki vanti mannskap né fjármagn til lögreglunnar – hafa öðlast kjark og þor til að tjá sig um vandann eins og hann er í raun þ.e. að lögreglan glími við hvorutveggja mikinn fjárskort og undirmönnun.  Sá hefur einmitt málflutningur LL verið undanfarnar vikur, mánuði og ár.

 

Allt þetta hefur haft þau áhrif að mikill fjöldi lögreglumanna hefur hætt störfum í lögreglu sem aftur hefur í för með sér að ríkisvaldið er að kasta á glæ mikilli fjárfestingu sem fellst í menntun og reynslu þessa mikilhæfa starfsfólks.  Þessi „flótti” lögreglumanna úr stéttinni hefur svo aftur áhrif til aukins álags á þá lögreglumenn sem eftir eru í starfinu og það aftur slæm áhrif á starfsandann innan lögreglunnar.

 

Staðreynd málsins er í raun sú að stjórnvöld, með Alþingi Íslendinga í fararbroddi þurfa að setja sér skýr markmið er kemur að eftirfarandi:

  • öryggisstigi á Íslandi;
  • þjónustustigi lögreglu;
  • mannaflaþörf lögreglu til að halda úti hvorutveggja tilgreindu öryggis- og þjónustustigi;
  • tryggum fjárveitingum til rekstur lögreglunnar allrar í samræmi við ofangreint.

Það er því von og trú LL að Alþingi Íslendinga sjái til þess að:

  • verkefni lögreglu séu á hverjum tíma skýr og afmörkuð;
  • nægur mannafli sé við störf á hverjum tíma í lögreglu og þróun hans taki mið af þróun þess samfélags sem við búum við á Íslandi;
  • lögreglan hafi nægar fjárveitingar til að standa undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar hverju sinni;
  • friður náist um allan rekstur lögreglunnar í landinu;
  • lögreglumönnum verði tryggð laun í samræmi við þá ábyrgð og áhættu sem fylgir starfinu og þá hæfni sem krafist er af þeim sem því sinna.

Þetta er að mati LL afar brýnt svo að lögreglan glati ekki því trausti sem almenningur í landinu ber til hennar og skýrt hefur komið fram í könnunum sem gerðar hafa verið meðal almennings um traust til ríkisstofnana.

Til baka