Fréttir

Ræða formanns LL á hátíðarstjórnarfundi 1. desember 2008

1 des. 2008

Ágætu félagar og aðrir gestir.

Sunnudaginn 1. desember 1968 kl. 14:00, fyrir nákvæmlega 40 árum og einni klukkustund betur, komu saman átján (18) eldhugar úr níu (9) lögreglufélögum, víðsvegar að af landinu í þeim tilgangi að stofna Landssamband Lögreglumanna.

Tilgangur Landssambandsins var tilgreindur í lögum hins nýja Landssambands eins og fram kemur í fundargerð stofnþingsins en hún liggur hér frammi fyrir þá sem áhuga hafa á að skoða hana nánar.

Þessir átján heiðursmenn, sem mættir voru til hins fyrsta þings LL voru:

Frá Lögreglufélagi Reykjavíkur, með 209 félagsmenn:

          Jónas Jónasson

          Gísli Guðmundsson

          Kristján Sigurðsson

          Ívar Hannesson

          Axel Kvaran

          Guðmundur Hermannsson

          Sveinn Stefánsson

          Magnús Eggertsson og

          Óskar Ólason

Frá Lögreglufélagi Suðurnesja, með 29 félagsmenn:

          Albert Albertsson

Frá Lögreglufélagi Norðurlands, með 26 félagsmenn:

          Árni Magnússon og

          Kjartan Sigurðsson

Frá Lögreglumannafélagi Hafnarfjarðar, með 23 félagsmenn:

          Ólafur Guðmundsson

Frá Lögreglufélagi Vestmannaeyja, með 12 félagsmenn:

          Agnar Angantýsson

Frá Lögreglufélagi Keflavíkur, með 11 félagsmenn:

          Herbert Árnason

Frá Lögreglufélagi Suðurlands, með 8 félagsmenn:

          Tómas Jónsson

Frá Lögreglumannafélagi Kópavogs, með 16 félagsmenn:

          Sæmundur Guðmundsson

Og frá óstofnuðu, en væntanlegu Lögreglufélagi Vesturlands:

          Helgi Andrésson.

 

Fyrsta stjórn LL var kjörin:

Formaður:

Jónas Jónasson, frá lögreglufélagi Reykjavíkur

Aðrir í stjórn:

          Kristján Sigurðsson, frá lögreglufélagi Reykjavíkur

          Bogi Jóhann Bjarnason, frá lögreglufélagi Reykjavíkur

          Björn Pálsson, frá Keflavíkurflugvelli og

          Ólafur Guðmundsson, frá lögreglufélagi Hafnarfjarðar

 

Guðmundur Hermannsson, formaður LR baðst undan kosningu til stjórnar og var stungið upp á Boga Jóhanni Bjarnasyni í hans stað.

Fyrsta stjórn LL var því samsett fimm (5) lögreglumönnum.

 

Nokkur aðdragandi var að stofnun Landssambandsins, sem ég ætla ekki að rekja hér í smáatriðum.  Þó er rétt að geta þess að til að stofnun þess yrði möguleg var farið í það, víðsvegar um landið, að stofna lögreglufélög því hugsunin á bak við LL var sú að það yrði samband lögreglufélaga og færi með sameiginlega hagsmunabaráttu þeirra félaga.  Einstök lögreglufélög hafa því verið að halda upp á fjörtíu ára afmæli sín undanfarið.  Einstaklingsaðild að LL var ekki í burðarliðnum við stofnun þess. 

LL hefur, eins og flestum lögreglumönnum er ljóst, tekið nokkrum breytingum frá stofnun en sú helsta og kannski veigamesta er sú að nú er um að ræða einstaklingsaðild lögreglumanna að sambandinu.  Það er því ekki skilyrði lengur að lögreglumenn séu félagar í einstaka lögreglufélögum til að hljóta aðild að heildarsamtökunum.  Með þeirri breytingu var stigið ákveðið og jákvætt skref í lýðræðisátt innan LL, sem gerir það að verkum að raddir einstakra lögreglumanna eiga auðveldara með að hljóta hljómgrunn en áður var mögulegt.  Nauðsynlegt er, að mínu viti, að frekari slík skref verði stigin í lýðræðisátt í nánustu framtíð.

 

Fullveldið 50 ára” var forsíðufyrirsögn Morgunblaðsins þennan dag í desember fyrir fjörtíu árum.  Undir fyrirsögninni var mynd af Alþingi Íslendinga og Austurvelli og undir myndinni var athygli lesenda vakin á þeirri staðreynd að enn væru útsprungin blóm á Austurvelli þrátt fyrir að kominn væri desember.  Veðrið var því nokkuð frábrugðið því sem það er í dag þótt fimbulkuldi sé og hafi verið í efnahagsmálum þjóðarinnar þá og einnig nú.

 

Víetnam stríðið var í algleymi, það fóru í hönd róstutímar í heiminum og á Íslandi en ári eftir stofnun LL hvarf Íslandssíldin svokallaða og í kjölfarið fylgdi mikið atvinnuleysi með miklum fólksflótta Íslendinga frá landinu til Norðurlandanna og Ástralíu, svo einhver lönd séu nefnd til sögunnar.  Nú er að vísu verið að mokveiða síld, upp við landsteinana, úti fyrir Njarðvík en, eins og áður sagði, fimbulkuldi að öðru leyti í efnahagsmálum þjóðarinnar.

 

Við virðumst, Íslendingar, að einhverju leyti, vera að upplifa svipaða tíma þessar vikurnar og við upplifðum fyrir sléttum fjörtíu árum.  Gríðarlegum fjölda fólks hefur verið sagt upp atvinnu sinni og mikill fjöldi launþega hefur orðið að taka á sig launaskerðingar í ýmsu formi, undanfarnar vikur, til að reyna að sporna við uppsögnum í fyrirtækjum.

 

Ástandið, sem við okkur blasir, í þjóðfélaginu í dag, og sú reiði sem virðist gerjast reynir mjög á lögregluna í landinu.  Það eru erfiðir tímar sem fara í hönd og ástandið á sennilega bara eftir að versna þegar þeir, sem sagt hefur verið upp atvinnu sinni, fara af uppsagnarfrestum sínum yfir á atvinnuleysisbætur í byrjun næsta árs og í framhaldi af því missa alla sína innkomu ef svartsýnustu spár ganga eftir.  Líklegt er að enn frekar muni reyna á lögregluna í landinu í upphafi nýs árs.

 

Á stofnþingi LL þann 1. desember 1968 voru samþykktar þrjár þingsályktanir starfskjaranefndar.  Mig langar til að lesa hér upp tvær þeirra:

 

2. Þingsályktun.

“Stofnþing Landssambands Lögreglumanna háð í Reykjavík hinn 1. desember 1968 ályktar, að vinna beri af alefli að því að fá viðurkennda til launa, fremur en orðið er, hina augljósu sérstöðu lögreglumanna í íslenzku þjóðfélagi.

Lögreglan er aðal undirstaða framkvæmdavaldsins í landi okkar, enda er hér enginn her, sem hægt er að grípa til, svo sem í flestum öðrum ríkjum.  Á þeim róstutímum, sem virðast fara í hönd í heiminum, er því mikils virði, að valdir menn séu í lögregluliðinu.  Þingið bendir á , að lögreglumenn hafi í raun ótakmarkaðan starfstíma, ef nauðsyn krefur.  Þá verður lögreglumaður tíðum að taka örlagaríka skyndiákvörðun, sem ætlað er að standast jafn vel fyrir æðsta dómi landsins.  Þeim ber og að leggja sig í hvers konar lífshættu sem starfinu fylgir svo sem mýmörg dæmi vitna um.”

 

3. Þingsályktun.

“Stofnþing Landssambands lögreglumanna háð í Reykjavík 1. desember 1968 beinir því til verðandi stjórnar landssambandsins, að hún vinni að því eftir mætti, að framvegis verði einungis ráðnir til lögreglustarfa menn, sem fullnægja skilyrðum reglugerðar um veitingu lögreglustarfs, lögregluskóla o.fl.

Þingið leggur áherslu á hina augljósu nauðsyn þess, að hæfir og vel menntaðir menn veljist til lögreglustarfa svo að réttaröryggi þegnanna verði sem bezt tryggt.”

 

Í þessum tveimur þingsályktunartillögum, sem samþykktar voru samhljóða á stofnþinginu fyrir fjörutíu árum síðan, kemur berlega í ljós það ástand, sem var að skapast í efnahagsmálum þjóðarinnar.  Þarna koma líka fram tvö helstu baráttumál stéttarinnar, sem enn er verið að vinna að fjörutíu árum eftir stofnun LL.

 

Á þeim fjörutíu árum, sem liðin eru, frá stofnun Landssambands Lögreglumanna, hefur gríðarlega mikið áunnist í réttindabaráttu stéttarinnar en þó er ýmislegt eftir óunnið og annað sem sífellt þarf að minna á eins og tvær áðurnefndar 40 ára þingsályktanir vitna um.

 

Í ræðu minni við slit 29. þings LL, sem haldið var í Munaðarnesi 29. og 30. apríl s.l. lagði ég á það áherslu að samstaða og samtakamáttur lögreglumanna væri eina vænlega leiðin til árangurs í baráttumálum stéttarinnar.

 

Ég lagði á það áherslu að sú vinna, sem stjórn LL er falin hverju sinni ynnist ekki auðveldlega nema með aðkomu sem flestra félagsmanna LL, hvort sem það væri með beinni eða óbeinni þátttöku í störfum Landssambandsins s.s. með framlagi hugmynda eða vinnu í nefndum á vegum sambandsins.

 

Ég lagði á það áherslu að Landssamband Lögreglumanna væri fyrir félaga þess en félagarnir ekki fyrir það. 

 

Ég lagði á það áherslu að Landssambandið yrði aldrei sterkara en veikasti hlekkur þess og ég bað alla lögreglumenn, hvar í sveit sem þeir væru settir, að huga að því. 

 

Ég lagði á það áherslu að slagkraftur stjórnar Landssambands Lögreglumanna yrði aldrei meiri og sterkari en það sem hinn almenni félagsmaður væri tilbúinn að leggja á sig í baráttu fyrir bættum kjörum sínum og hærri launum. 

 

Ég lagði á það áherslu að þetta skyldi hver og einn lögreglumaður íhuga með sjálfum sér og láta loks samvisku sína dæma.

 

Ég benti á að það að vera lögreglumaður tæki sinn toll.  Það sönnuðu rannsóknir.  Starfið tekur á bæði andlega og líkamlega og við lifum að meðaltali skemur en aðrir launþegar.  Kulnun í starfi er sennilega líka meiri í okkar stétt en nokkurri annarri.  Öllu þessu veldur sú einfalda staðreynd að við erum, í störfum okkar, í langflestum tilvikum, að eiga neikvæð samskipti við „viðskiptavini” okkar.  Þessi átök, líkamleg og andleg, krefjast tolla af líkama og sál.  Slíkt þarf að viðurkenna og fá metið til launa og réttinda á borð við lægri starfslokaaldur en almennt gerist meðal starfsmanna hins opinbera.  Þetta eigum við að vera óhrædd að ræða opinberlega og vekja athygli almennings á.  Við erum jú eftir allt saman konur og menn eins og hverjir aðrir þegnar þessa lands. 

 

 

Málið er sáraeinfalt:  Lögregla verður að vera í stakk búin til að fást við hvert það ástand, sem skapast getur í þjóðfélaginu og brugðist við því, hvorutveggja, með nægum og vel þjálfuðum mannskap.  Þetta hefur Landssamband Lögreglumanna bent á árum saman.  Núverandi dómsmálaráðherra hefur lagt áherslu á sömu hluti þ.a. að leiðir okkar liggja saman að sama marki – öflugri, fjölbreyttri, vel menntaðri og vandaðri lögreglu.  Þetta hef ég lagt áherslu á, í ræðu minni og riti, frá því ég tók við stjórnartaumunum hjá LL og mun halda því áfram.

 

Það verður seint sagt um lögreglumenn að þeir séu ekki tilbúnir til breytinga.  Eðli starfa sinna vegna fást þeir við breytingar allan sólarhringinn, alla daga, allan ársins hring.  Það er því afar nauðsynlegt að þeim sé tryggt öryggi í starfsumhverfi sínu, að svo miklu leyti sem því verður við komið og ekki sé anað að breytingum breytinganna vegna.

 

Kæru félagar!  Hvað felst eiginlega í því að vera lögreglumaður? 

Mér var send eftifarandi skilgreining á fyrirbærinu lögreglumaður:

  • Lögreglumaður er sá, sem beðið er eftir með óþreyju, en annars er enginn eins óvelkominn.  Lögreglumaður er sambland af öllum manngerðum.  Hann er samruni dýrlingsins og syndarans. 
  • Ef hann er vingjarnlegur, þá telst hann uppáþrengjandi.  Ef hann er það ekki, þá telst hann þumbaralegur.  Ef hann er nákvæmur, þá telst hann háfleygur.  Ef vantar hnapp á jakkann hans, þá telst hann druslulegur. 
  • Hann verður að vera tilbúinn að slást við og yfirbuga tvo menn í einu, þótt þeir séu helmingi stærri og meiri að burðum, en  hann sjálfur.  En þetta verður að gerast, án þess, að lögreglumaðurinn rífi jakka sinn og án þess að hann taki á viðkomandi mönnum, slíkt er ruddaskapur. 
  • Ef hann víkur sér undan höggi og forðast átök, þá er hann heigull.  Slái hann til baka, þá er hann haldinn ólæknandi kvalalosta.  Hann verður að vera svo „diplomatískur” að er hann hefur sagt seinasta orðið, þá heldur hver og einn sem í hlut á, að hann gangi burt sem sigurvegari. 
  • Á augnabliki verður lögreglumaður að taka ákvörðun, sem tekur dómara mánuði og jafnvel ár, að fjalla um.  Lögreglumaður verður að þekkja lestina án þess að hafa nokkra sjálfur. 
  • Með eitt mannshár að leiðarljósi, verður lögreglumaður að vera tilbúinn með að upplýsa afbrotið, þekkja afbrotamanninn og helst að vita hvar hann hefur falið sig. 
  • Ef afbrotamaður er tekinn höndum, þá var það af einskærri heppni.  Ef afbrotamaður kemst undan, þá er lögreglumaðurinn annað hvort viðvaningur eða þá hann var inni á stöð að glápa á sjónvarpið. 
  • Lögreglumaður verður að eyða ómældum tíma í að leita uppi vitni sem síðan hvorki getur eða vill muna nokkurn skapaðann hlut. 
  • Hvað sem öllu líður, þá hlýtur lögreglumaðurinn að vera snillingur, því hann verður að framfleyta fjölskyldu sinni á launum sínum.  Lögreglumenn eru ekki af þessum heimi. 

 

Kæru félagar!

Afmælis LL verður minnst með ýmsum hætti út afmælisárið.  Þess munu einnig sjást merki í félagsriti okkar en við höfum ákveðið að leita til félaga okkar með skrif í blaðið er tengjast stofnun og sögu LL frá upphafi.  Þessa sjást einnig merki á heimasíðu LL en hún er, frá og með deginum í dag, komin í „jólabúning” auk þess sem aldur Landssambandsins er nú tilgreindur til hliðar við merki LL efst í vinstra horni heimasíðunnar.

Á tímamótum sem þessum er rétt að minnast og heiðra þá sérstaklega sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu okkar allra.  Það var því ákveðið að kalla til þessa fundar þá félaga okkar, sem sinnt hafa hlutverki formanns LL, frá stofnun þess og enn eru meðal vor, í þeim tilgangi að afhenda þeim smá þakklætisvott fyrir þeirri fórnfúsu störf í þágu LL og lögreglumanna.

 

Ég vil því biðja fyrrverandi formenn LL, sem staddir eru hér í dag, að koma hingað og veita viðtöku þessum örlitla þakklætisvotti.

 

Ég þakka ykkur öllum, að lokum, komuna til fundarins og óska okkur öllum til hamingju með afmælið og ekki síður með daginn að öðru leyti.

Til baka