Fréttir

Ræða formanns LL við útskrift LSR 12. desember 2008

12 des. 2008

Dómsmálaráðherra, útskriftarnemar, aðrir gestir.

Það er sérlega ánægjulegt að standa hér í dag, frammi fyrir svo stórum og breiðum hópi nýútskrifaðra lögreglumanna.  Ykkar hefur verið beðið með óþreyju af starfandi lögreglumönnum.

 

Þetta er ykkar dagur.

 

Af fjölmiðlaumræðu undanfarnar vikur má ráða að verkefni lögreglu eru næg enda snertir starf lögreglumannsins á öllum sviðum mannlífsins bæði í leik og starfi, sorg og gleði.

Ykkar, kæru nýju félagar, bíður því ærið verk í þeim lögregluliðum sem þið hljótið starfa við. 

 

Nú er nálgast vetrarsólstöður og sól verður lægst á lofti og þar með stystur dagur er ánægjulegt að sjá svo stóran hóp lögreglunema útskrifast úr lögregluskóla ríkisins.  Það er mikið ljós fólgið í því fyrir lögregluna í heild sinni.

 

Jól fara í hönd, hátíð ljóss og friðar í svartasta skammdegi vetrarins.

 

Að loknum vetrarsólstöðum 21. desember n.k. tekur dag að lengja aftur og ljós færist yfir eftir drunga vetrarins og vonandi líka þann drunga sem nú hvílir yfir efnahagslífi þjóðarinnar og fjármálum öllum. 

Drunga sem orðið hefur þess valdandi að mjög erfitt er orðið með rekstur lögreglu í landinu m.a. vegna gengdarlausra verðlagshækkana. 

Í ljósi þessa voru það afar ánægjuleg tíðindi að sjá það í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneytinu í gær, að ríkisstjórn Íslands ætlaði sér, með þeim efnahagsaðgerðum, sem óhjákvæmilegar eru í þeim þrengingum sem blasa við, að standa sérstakan vörð um velferð, menntun og síðast, en alls ekki síst, löggæslu.

 

Íslendingar hafa þurft að færa miklar fórnir vegna þess ástands sem skapaðist við hrun bankakerfisins og því miður eigum við, sennilega, enn eftir að færa gríðarlegar fórnir áður en sér til sólar á ný eftir þann darraðadans sem fáir útvaldir hafa dansað, linnulaust, í kringum gullkálfinn.

Þessi tími mun reyna mjög á lögreglu í landinu og afar mikilvægt að valinn maður sé í hverju rúmi og hvert pláss fyllt.  Í þessu samhengi skiptir sú stund, sem við erum saman komin til að fagna hér í dag gríðarmiklu máli því nú ætti að vera hægt manna lausar stöður í lögreglu með fullmenntuðum lögreglumönnum. 

Það er jafnframt nauðsynlegt að vel sé haldið á málum og tryggt að lögregla hafi starfsfrið inn á við og geti, skammlaust, sinnt verkum sínum.  Verkum sem Alþingi Íslendinga hefur falið lögreglu að sinna.

 

Mikilvægt er að lögreglan sé áfram, á tímum sem þessum – umrótatímum – sá trausti hyrningarsteinn sem samfélagið hefur hingað til getað reitt sig á. 

Það hefur enda komið berlega í ljós í skoðanakönnunum liðinna ára að lögreglan nýtur óskoraðs traust almennings. 

Ein slík könnun var einmitt birt nýliðinn miðvikudag en í henni kom í ljós að um og yfir 76% aðspurðra kváðust bera mikið traust til lögreglu.  Það er afar mikilvægt að þessi árangur haldist. 

Í sömu könnun kom í ljós að einungis um 19% aðspurðra kváðust bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar og um 18% til Alþingis. 

 

Lögreglan hefur komið afar vel út úr slíkum könnunum í áraraðir.  Það eitt sýnir og sannar að vel er vandað til verka með val á lögreglumannsefnum sem og kennslu í lögregluskóla ríkisins.  En betur má ef duga skal, segir einhversstaðar og nú væri í raun lag að gefa enn frekar í og efla stórlega framhaldsnám í lögregluskólanum.


Mér er það minnisstætt er Magnús Einarsson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn í Kópavogi, hélt eitt sinn þrumuræðu yfir útskriftarnemum úr lögregluskóla ríkisins, sem þá var starfræktur á lögreglustöðinni við Hverfisgötu.  Magnús var þá einn af kennurum skólans líkt og hann var um langt árabil.

Í ræðu Magnúsar kom fram að lögreglan nyti jafnan mikils trausts almennings.  Þá lagði hann á það áherslu við þennan nýja hóp lögreglumanna, sem þarna var að hefja störf sín í lögreglu, að hann ætlaðist til þess að þeim góða árangri, sem náðst hefði fram að þeim degi er Magnús hélt ræðuna, yrði viðhaldið. 

Hann ætlaðist beinlínis til þess að þeir lögreglunemar, sem þá voru að útskrifast frá lögregluskólanum, byggðu áfram á þeim trausta hyrningarsteini, sem lagður hafði verið í því að byggja upp og efla traust almennings á lögreglu og störfum hennar. 

 

Einn af þeim sem hlustuðu á þrumuræðu Magnúsar, fyrir rúmu 21. ári síðan, var sá er hér stendur. 

Ég tel að vaktin, í þessum efnum, hafi verið staðin með nokkrum sóma eins og reyndar sést í þeirri könnun, sem ég vitnaði til hér á undan. 

Ég tel að Magnús geti verið sæmilega sáttur við þá niðurstöðu, sem áðurnefnd könnun sýnir. 

Ég ætla, hér með, að gera orð Magnúsar að mínum gagnvart þeim hópi nýrra lögreglumanna sem hér útskrifast í dag. 

Við sem þegar störfum í lögreglu ætlumst til þess að áfram verði haldið á sömu braut og lögreglan njóti áfram ótvíræðs trausts almennings.

 

Í viðlíka ástandi og ríkir í okkar þjóðfélagi í dag, mæðir enn meira á lögreglu en ella. 

Við erum þau sem tökum við eggjunum. 

Við erum þau sem reiði þegna þessa lands fær útrás á.

Það er gríðarlega mikilvægt að við höldum ró okkar í þeim raunum sem enn bíða okkar. 

Það ríður á að við séum „Ísköld og róleg”, svo enn sé vitnað í Magnús Einarsson vin minn.

 

Það að vera lögreglumaður er síður en svo auðvelt verkefni og oft á tíðum afar vanþakklátt.  Það sannar eftirfarandi texti sem ég fékk sendan frá einum starfsfélaga okkar:

 

„Það er nú einu sinni þannig að lögreglumaður er sá, sem beðið er eftir með óþreyju, en annars er enginn eins óvelkominn.  Lögreglumaður er sambland af öllum manngerðum.  Hann er samruni dýrlingsins og syndarans. 

 

Ef hann er vingjarnlegur, þá telst hann uppáþrengjandi.  Ef hann er það ekki, þá telst hann þumbaralegur.  Ef hann er nákvæmur, þá telst hann háfleygur.  Ef vantar hnapp á jakkann hans, þá telst hann druslulegur. 

 

Hann verður að vera tilbúinn að slást við og yfirbuga tvo menn í einu, þótt þeir séu helmingi stærri og meiri að burðum, en  hann sjálfur.  En þetta verður að gerast, án þess, að lögreglumaðurinn rífi jakka sinn og án þess að hann taki á viðkomandi mönnum, slíkt er ruddaskapur. 

 

Ef hann víkur sér undan höggi og forðast átök, þá er hann heigull.  Slái hann til baka, þá er hann haldinn ólæknandi kvalalosta.  Hann verður að vera svo „diplomatískur” að er hann hefur sagt seinasta orðið, þá heldur hver og einn sem í hlut á, að hann gangi burt sem sigurvegari. 

 

Á augnabliki verður lögreglumaður að taka ákvörðun, sem tekur dómara mánuði og jafnvel ár, að fjalla um.  Lögreglumaður verður að þekkja lestina án þess að hafa nokkra sjálfur. 

 

Með eitt mannshár að leiðarljósi, verður lögreglumaður að vera tilbúinn með að upplýsa afbrotið, þekkja afbrotamanninn og helst að vita hvar hann hefur falið sig. 

 

Ef afbrotamaður er tekinn höndum, þá var það af einskærri heppni.  Ef afbrotamaður kemst undan, þá er lögreglumaðurinn annað hvort viðvaningur eða þá hann var inni á stöð að glápa á sjónvarpið. 

 

Lögreglumaður verður að eyða ómældum tíma í að leita uppi vitni sem síðan hvorki getur eða vill muna nokkurn skapaðan hlut. 

 

Hvað sem öllu líður, þá hlýtur lögreglumaðurinn að vera snillingur, því hann verður að framfleyta fjölskyldu sinni á launum sínum.  Lögreglumenn eru ekki af þessum heimi!“ 

 

Þetta er í hnotskurn það sem bíður ykkar, kæru félagar, í því starfi sem þið hafið valið ykkur. 

 

Það er þó ýmislegt sem þið getið verið viss um í störfum ykkar í lögreglunni. 

 

Starfið mun gefa ykkur gríðarlega mikið. 

 

Starfið mun gefa ykkur nýja sín á lífið og tilveruna. 

 

Starfið mun færa ykkur nýja sýn á manninn, veröld hans og samskipti hans í milli.

 

Það sem er þó mikilvægast af öllu er að starfið mun gefa ykkur hóp nýrra félaga og vina í þeim lögreglumönnum sem þegar eru við störf um allt land.

 

Kæru útskrifarnemar!

 

Þetta er ykkar dagur. 

 

Þetta er ykkar stund. 

 

Þetta er ykkar útskrift.

 

Ég fyrir mitt leyti og fyrir hönd Landssambands Lögreglumanna óska ykkur innilega til hamingju með þennan áfanga. 

 

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin í okkar hóp!

 

Ég er nýkominn af stjórnarfundi BSRB, en ég varð að fara fyrr af honum til að vera hér í dag.  Ég færi ykkur árnaðaróskir stjórnar BSRB vegna útskriftar ykkar hér í dag.

 

Að lokum óska ég öllum viðstöddum og fjölskyldum þeirra Gleðilegra Jóla og Farsæls Komandi Árs.

Til baka