Fréttir

Bréf til formanna stjórnmálaflokka

22 apr. 2009

LL hefur, í aðdraganda Alþingiskosninga, sent bréf á formenn allra flokka, sem bjóða fram til Alþingis í kosningunum sem fram fara n.k. laugardag.  Í bréfinu eru formenn flokkanna inntir eftir áherslum flokkanna í löggæslumálum.

Svör flokkanna verða birt hér á þessari síðu um leið og þau berast.

Með því að smella á hlekkinn „lesa meira“ hér fyrir neðan má lesa texta bréfanna, sem öll eru samhljóða.

  

Reykjavík,  20. apríl 2009.

 

Formaður [heiti stjórnmálaflokks]

Hr./Frú. [nafn formanns]

 

Efni:  Áherslur [heiti stjórnmálaflokks] í löggæslumálum.

 

Að afloknum landsfundum stjórnmálaflokka, sem bjóða fram til Alþingis Íslendinga og í aðdraganda Alþingiskosninga finnst Landssambandi lögreglumanna (LL) rétt að inna yður eftir áherslum [heiti stjórnálaflokks] í löggæslumálum þjóðarinnar.

 

            Um nokkra hríð hafa staðið yfir umfangsmiklar breytingar á skipulagi löggæslu í landinu og sýnist sitt hverjum í þeim efnum.  LL kom að undirbúningi þeirra breytinga, sem hrint var í framkvæmd í byrjun árs 2007.  LL var, á þeim tíma, þeirrar skoðunar að þær breytingar, sem ráðist var í myndu hafa í för með sér ávinning fyrir löggæslu í landinu og að með þeim væri jafnvel hægt að nýta fjármuni, mannafla og tækjabúnað til löggæslu betur.  Það var þó ljóst, strax í upphafi, að ekki var gert ráð fyrir neinum kostnaði samfara breytingunum en ljóst má telja að breytingakostnaður hafi verið allnokkur.  LL hefur þó engar upplýsingar fengið um þann kostnað. 

 

            Núverandi rekstrarumhverfi lögreglunnar hefur sætt allnokkurri gagnrýni m.a. af hálfu LL.  Sú gagnrýni hefur m.a. beinst að ónógum fjárveitingum til löggæslu og gríðarlegri fækkun lögreglumanna frá þeirri sameiningu sem varð í byrjun árs 2007.  Sem dæmi má nefna að í liði lögreglustjórans á Suðurnesjum hefur fækkað um ellefu stöðugildi og hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkunin verið um fimmtíu stöðugildi frá 1. janúar 2007.  Þrátt fyrir þessa gríðarlegu fækkun lögreglumanna, sem varlega má áætla að hafi falið í sér kostnaðarlækkun um allt að kr. 402.600.000,- (61 X 6.600.000, samkvæmt meðaltals kostnaðartölum fyrir hvert stöðugildi) á ársgrundvelli, er rekstur margra lögregluembætta í landinu í járnum.

 

Þessi staðreynd hefur m.a. haft í för með sér þær afleiðingar að fjöldi menntaðra lögreglumanna gengur nú um atvinnulaus og alger óvissa ríkir um framtíð þeirra einstaklinga, innan lögreglu, sem nú eru við nám í lögregluskóla ríkisins.

 

            LL hefur, alla tíð, lagt á það áherslu að skilgreina þurfi löggæsluþarfir íslensku þjóðarinnar út frá tveimur meginþáttum sem eru „Öryggisstig“ og „Þjónustustig“.  Öryggisstig felur í sér það öryggi sem þegnar þessa lands eiga að búa við samkvæmt ákvörðun Alþingis og þjónustustig felur í sér þá þjónustu sem lögreglu ber að veita þegnum landsins, einnig ákvarðað af Alþingi.  Fyrst þegar lokið er skilgreiningu á þessum tveimur meginþáttum verður hægt að ákvarða mannaflaþörf lögreglu til að halda úti hvoru tveggja ákvörðuðum öryggis- og þjónustustigum.  Að þessum skilgreiningum loknum er, að mati LL, fyrst hægt að áætla fjárþörf löggæslu í þessu landi.

 

            LL þykir rétt, í þessu samhengi, að benda á þá einföldu staðreynd að lögreglan er einn af hornsteinum lýðræðis í þessu landi og bregðist sá hornsteinn, t.d. vegna vanáætlana hverskonar, sé ekki að neinu öðru að hverfa til að halda uppi lögum og reglu í landinu ólíkt því sem t.d. á við í flestum öðrum löndum þar sem hægt er að kalla til þjóðvarðlið eða her ef í algert óefni stefnir.  Nærtækt er að nefna það ástand sem skapaðist í miðborg Reykjavíkur í „búsáhaldabyltingunni“ svokölluðu en þar stóð lögreglan vaktina með stakri prýði, að mati LL, undir gríðarlegu álagi.

 

            Í ljósi ofangreinds leggur LL áherslu á að fá vitneskju um það hvernig [heiti stjórnmálaflokks] hyggst beita sér í löggæslumálum þjóðarinnar og hverjar áherslur hans eru í þessum málaflokki.

 

            LL væntir þess að svör yðar við þeim spurningum og áherslum, sem fram koma í bréfi þessu, berist skriflega og í tíma fyrir áætlaðar Alþingiskosningar.  Með hliðsjón af því hve skammur tími er til kosninga er óskað eftir að svar verði jafnframt sent með tölvupósti á netfang LL: ll@bsrb.is

 

 

LL mun, að fengnum svörum yðar, birta þau á vef LL til upplýsinga fyrir félagsmenn þ.a. þeir – og  fjölskyldur þeirra – geti tekið upplýsta ákvörðun um notkun atkvæðisréttar síns í komandi Alþingiskosningum.

 

 

F.h. Landssambands lögreglumanna

 

_______________________________________

Steinar Adolfsson

framkvæmdastjóri LL

 

Til baka