Fréttir

Fréttatilkynning EUROCOP – varað við niðurskurði í löggæslu

13 maí. 2009

EUROCOP (European Confederation of Police), sem eru „regnhlífarsamtök“ 34 landssambanda og lögreglufélaga í Evrópu, með rúmlega 500.000 félagsmenn, sendi frá sér, í lok mars s.l, fréttatilkynningu þar sem varað var við niðurskurði í lögreglu í því efnahagsumróti sem nú geysar í Evrópu.

Í fréttatilkynningunni eru tiltekin dæmi um aðgerðir stjórnvalda, til að ná fram hagræðingu í ríkisrekstri: s.s. um 15 – 20% niðurskurð launa opinberra starfsmanna (þ.á.m. lögreglumanna) í Lettlandi, 12% niðurskurð launa opinberra starfsmanna (þ.á.m. lögreglumanna) í Litháen og launafrystingar allra opinberra starfsmanna á Írlandi.

 

Dæmi eru einnig tekin af mikilli fækkun lögreglumanna í ýmsum löndum Evrópu og aukinni glæpatíðni því samhliða.

EUROCOP vara sérstaklega við slíkum skammtímaaðgerðum, sem augljóslega geta haft í för með sér langtíma vandamál s.s. aukningu glæpa ýmisskonar og gríðarlegt álag á önnur kerfi hins opinbera. 

Þá er lögð sérstök áhersla á það, í fréttatilkynningu EUROCOP, að í viðlíka ástandi, og nú geysar í efnahag margra landa í Evrópu sé nauðsynlegt að einmitt lögregla sé í stakk búin, sem einn af hyrningarsteinum allra velferðarsamfélaga, að takast á við þau auknu vandamál, sem óhjákvæmilega fylgja efnahagslegum niðursveiflum.

Þá var einnig bent á það að EUROCOP hafi sérstaklega varað við slíkum aðgerðum stjórnvalda í fréttatilkynningum, sem útgefnar voru þann 15. janúar, 25. febrúar og 23. mars s.l.

Áhugasamir geta nálgast fréttatilkynningar EUROCOP í gegnum skrifstofu LL.

Til baka