Fréttir

Gísli, Eiríkur, Helgi

16 maí. 2009

Mér finnst ég vera búinn að vera að moka í botnlausa tunnu ráðamanna þessa lands um langa hríð.  Botninn er sennilega norður í Borgarfirði, sé tekið mið af landfræðilegri stöðu minni m.v. bræðurna frá Bakka forðum daga.  Ég ætti kannski að bjóðast til að bera inn sól í skjólu til að hjálpa ráðamönnum við að sjá ljósið?

 

Um langa hríð, sennilega áratugi, hefur Landssamband lögreglumanna gagnrýnt ónógar fjárveitingar til löggæslu þessa lands.  Við höfum svo sem ekki verið einir um það því núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur margoft gagnrýnt sömu hluti.  Núverandi sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, gerði slíkt hið sama í grein sem hann ritaði, ásamt Atla Gíslasyni þingmanni VG, í Morgunblaðið í mars 2008.

 

Um langa hríð, sennilega áratugi, hefur Landssamband lögreglumanna bent á þá staðreynd að áherslur ráðamanna, í löggæslumálum þessarar þjóðar, væru byggðar á brauðfótum.  Þannig hefur í raun engin markviss þarfagreining átt sér stað á því hver eiginleg löggæsluþörf þessa lands er.  Alþingi Íslendinga hefur flotið sofandi að feigðarósi og slumpað út einhverjum fjármunum í hina og þessa málaflokka, eftir ákvörðunum ráðherra og embættismanna í ráðuneytum, án þess að gera sér nokkra grein fyrir því hvað verið væri að samþykkja og hvort, ef einhver, þarfagreining hafi átt sér stað sem styðji við þær óskir sem framlagðar voru.  Lög hafa jafnvel verið samþykkt, frá hinu háa Alþingi, án þess að fyrir liggi sannfærandi úttektir á því, hvort samþykkt laganna hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

 

Nú blasa við nöturlegar staðreyndir málsins.  Í lögreglulögum segir að embætti ríkislögreglustjórans skuli sjá lögreglunemum fyrir starfsþjálfun í lögreglu í allt að átta mánuði.  Hér hafa engar fjárheimildir verið samþykktar til að standa straum af áætluðum kostnaði við þessa starfsþjálfun.  Í löggæsluáætlun til ársins 2011 er gert ráð fyrir ákveðinni nýliðun í lögreglu og áætlanir lögregluskóla ríkisins gerðu ráð fyrir ákveðnum fjölda nýnema í samræmi við framsettar áætlanir.  Enn og aftur samþykkir Alþingi Íslendinga engar fjárveitingar til verksins umfram þær sem skólanum voru ætlaðar.  Ofan í þetta hafa engar fjárveitingar verið samþykktar til að standa straum af framhalds- og viðhaldsmenntun lögreglumanna í landinu. 

 

Enn nöturlegri staðreyndir blasa nú við en þær eru að um 20 nýlega útskrifaðir lögreglumenn munu, frá og með 15. maí fara á atvinnuleysisbætur þar sem ekki eru til peningar til að halda þeim við vinnu í lögreglu.  Þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd að þessi fjöldi lögreglumanna var útskrifaður frá lögregluskóla ríkisins í samræmi við áætlanir sem gerðar höfðu verið og lög sem sett höfðu verið.  Þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd, sem við blasir að um 100% aukning hefur orðið á t.d. auðgunarbrotum á tímbilinu október til mars 2007 – 2008 annarsvegar og 2008 – 2009 hinsvegar.  Þetta gerist þrátt fyrir þá staðreynd að eitt af yfirlýstum markmiðum nýrrar ríkisstjórnar Íslands sé að verja þau störf sem fyrir eru og fjölga störfum svo skiptir þúsundum.  Það er fallega af stað farið, svo ekki sé meira sagt.

 

Þessar nöturlegu staðreyndir koma ofan í þá staðreynd að allnokkur fækkun hefur orðið í röðum lögreglumanna víða um land, vegna fjárskorts hinna ýmsu embætta.  Á höfuðborgarsvæðinu einu hefur fækkunin orðið um sem nemur um fimmtíu (50) stöðugildi lögreglumanna.  Staðan nú er orðin þannig að á öllu höfuðborgarsvæðinu eru nú að störfum færri lögreglumenn en sinntu Reykjavík, ásamt Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ fyrir sameiningu embættanna þriggja í ársbyrjun 2007.

 

Það er mikið meira en nóg að gera fyrir þessa tuttugu lögreglumenn, sem gert er að láta af störfum 15. maí.  Þeirra er virkilega þörf í lögreglu.  Reyndar er það svo að þörf er á mun meiri viðbótarmannskap í lögreglu en þessum tuttugu og færi vel á því að fylgt yrði áætlunum stjórnvalda í þessum efnum.  Það eru jú, eftir allt saman, áætlanir stjórnvalda.

 

Hér þarf að lyfta Grettistaki til að snúa við þeirri óheillaþróun sem orðið hefur í löggæslumálum þessarar þjóðar.  Landssamband lögreglumanna kallar eftir viðbrögðum stjórnvalda í þessum efnum.

 

Til baka