Fréttir

Nú sýður á baklandinu á Íslandi!

30 jún. 2009

Í grein, sem rituð var hér á þessum vef, þann 25. maí s.l. vegna þings Landssambands danskra lögreglumanna, sem haldið var í Kaupmannahöfn dagana 27 – 29. maí s.l.  var fjallað um grein sem birst hafði á vef danska landssambandins. 

 

Í greininni sagði m.a. þetta um ástandið hjá kollegum okkar í Danmörku: 

„Mikil reiði ólgar meðal danskra lögreglumanna m.a. vegna undirmönnunar, innantómra loforða stjórnmálamanna o.fl, eins og lesa má í fréttatilkynningu Politiforbundet, vegna þingsins, á heimasíðu þess hér.“

Þeir sem hafa lesið greinina, á vef danska landssambandsins hafa séð að mikil ólga var á meðal danskra lögreglumanna eins og fram kemur hér að ofan. 

Nú er sama ástand uppi, enn eina ferðina, á meðal íslenskra lögreglumanna.  Kornið sem fyllti mælinn, að þessu sinni er ákvörðun stjórnvalda um launalækkanir til handa lögreglumönnum í aðdraganda kjarasamninga.  Lækkunin nemur kr. 15.000,- á hvern lögreglumann í landinu.  Það er rétt að halda því til haga hér að lögreglumenn gera sér fyllilega grein fyrir ástandinu í þjóðfélaginu og sumpart allmiklu betur en margur annar, við sáum jú, vorum og höfum verið móttakendur reiði almennings, gagnvart stjórnvöldum, m.a. utan við Alþingi Íslendinga í „búsáhaldabyltingunni“ svokölluðu.  það voru ekki stjórnvöld sem fengu yfir sig skæðadrífu af grjóti, mannasaur og þvagi, eggjum, málningu o.fl. utan við Alþingi Íslendinga og víðar – ÞAÐ VORU LÖGREGLUMENN!!!  Ætla stjórnvöld sér að kalla til undirmannaða, slælega tækjum búna og láglaunaða lögreglu sér til aðstoðar í „búsáhaldabyltingunni – hluti 2“?  Það eru nefnilega ýmis teikn á lofti í þjóðfélaginu þessa dagana að reiði almennings sé orðin svo mikil og viðvarandi – m.a. vegna svokallaðs „ICESAVE“ samkomulags, þeirra hremminga sem Íslendingar eru nú að ganga í gegnum, vinalitlir eða -snauðir og þeirrar staðreyndar að æ fleiri Íslendingar standa nú frammi fyrir því að missa jafnvel heimili sín í kjölfar atvinnumissis eða gríðarlegra tekjuskerðinga o.fl. – að upp úr gæti soðið allalvarlega innan ekki langs tíma.

Það verða þung skref að stíga næstu daga á meðan gengið verður frá þeim kjarasamningum sem liggja á borðum núna og gerðir verða í anda „Þjóðarsáttar“ sem nú er kölluð „Stöðugleikasáttmáli“.  Það eru þung skref að stíga að reyna að sætta sig við hið óásættanlega þ.e. að lögreglumönnum, sem og ððrum skattgreiðendum þessa lands skuli vera boðið upp á það að taka á sig verulegar kjaraskerðingar vegna þess ástands sem hér hefur skapast vegna fjárglæframennsku fáeinna einstaklinga.  Vegna ástands sem hefur skapast, jafnvel að hluta til, vegna lögbrota ákveðinna einstaklinga.  Það verða þung skref að stíga, að bera undir félagsmenn LL kjarasamning, sem allar líkur eru á að verði kolfelldur í kosningum.  Þessi skref verða í raun varla stigin svo vel fari. 

Við þetta bætast svo þær staðreyndir að enn eina ferðina er sorfið að lögreglu með niðurskurði, bæði á árinu 2009, svo nemur milljónatugum og einnig á árinu 2010, sem að öllum líkindum mun nema hundruðum milljóna.  Rekstur lögreglu hefur verið í járnum frá því löngu áður en sameining – sem m.a. átti að leiða til hagræðingar, eflingar, bætingar og styrkingar lögreglu í landinu en hefur í raun leitt til fækkunar lögreglumanna, minni fjárveitinga og minnkaðrar þjónustu lögreglu (af augljósum ástæðum).  Frá þeirri sameiningu, sem átti sér stað í byrjun árs 2007 hefur orðið raunfækkun lögreglumanna í landinu og nú er svo komið að eðlileg endurnýjun innan stéttarinnar mun varla eiga sér stað á næstu misserin vegna fjárskorts ríkisvaldsins.  Hér er skemmst að minnast þess ástands, sem verið hefur til umfjöllunar og varðar lögreglumenn sem útskrifuðust úr lögregluskóla ríkisins í desember 2008.  Fjölgun lögreglumanna hefur engan vegin haldist í hendur við fjölgun íbúa á Íslandi, sér í lagi ef horft er til röksemda sem notaðar voru til að fjölga listamannalaunum, í apríl s.l. úr 1200 í 1600 á næstu þremur árum með tilheyrandi viðbótarkostnaði sem ríkissjóður þarf að taka að láni sbr. það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu!  Það er undarlegt margt í kýrhausnum!!

Lögreglan hefur, frá því löngu áður en sameining embætta átti sér stað í byrjun árs 2007, gengið í gegnum mikið breytingaferli t.a.m. með niðurlagningu Rannsóknarlögreglu ríkisins og stofnun embættis Ríkislögreglustjórans árið 1997.  Breytingaferli eru enn í gangi innan lögreglunnar, rúmum þremur árum eftir fækkun og stækkun og „eflingu“ lögregluembætta í byrjun árs 2007 og allt útlit fyrir nú, í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu að enn frekari breytingar gætu verið framundan.

Nú er mál að linni!  Nú er mál til komið að ríkisvaldið geri sér grein fyrir því að það kostar sitt að halda úti þjónustu lögreglu og þar er ekki hægt að draga saman og spara í sífellu, sérstaklega ekki í viðlíka árferði og við glímum við nú!  Hér á þessari síðu hefur verið fjallað um gríðarlega fjölgun auðgunarbrota í kjölfar bankahrunsins, sem augljóslega hefur í för með sér stóraukin verkefni lögreglu og óþarfi að endurtaka þá umræðu hér – lesendum þessa pistils er bent á að kynna sér þau mál nánar hér á síðunni.

Nú er mál til komið að ríkisvaldið fari að hlusta á þá sem þekkja til löggæslu í landinu! 

Nú er mál til komið að málefni lögreglu og þá sér í lagi fjárveitingar til löggæslu verði teknar til gagngerrar endurskoðunar.  Landssamband lögreglumanna hefur, margítrekað, lýst sig reiðubúið til þeirrar vinnu en hana þarf hinsvegar að hefja frá réttum enda, þ.e. að byrja þarf á því að skilgreina:

  • Það öryggisstig, sem stjórnvöld telja ásættanlegt fyrir íbúa þessa lands;
  • Þá þjónustu (þjónustustig) sem lögreglu er, að mati stjórnvalda, ætlað að veita íbúum þessa lands.

Þegar lokið er við að skilgreina öryggis- og þjónustustig lögreglu er fyrst hægt að fara í það að áætla:

  • Þann mannafla sem þarf til að halda úti skilgreindum öryggis- og þjónustustigum og að lokum;
  • Það fjármagn sem þarf til málaflokksins í samræmi við ofangreinda þrjá liði.

Það er afar nauðsynlegt að framkvæmdin sé í þessari röð því annars næst aldrei fram raunverulegur kostnaður við rekstur lögreglu.  Þetta hefur Landssamband lögreglumanna ítrekað bent á bæði í ræðu og riti.

Nú er mál að linni!

Það sýður á baklandinu!!!!!

Til baka