Fréttir

Ályktun nýrrar stjórnar lögreglufélags Vestfjarða

30 okt. 2009

Aðalfundur Lögreglufélags Vestfjarða 2009, var haldinn í Einarshúsi, í Bolungarvík miðvikudaginn 28. Október.

Á fundinum var kosin ný stjórn. Hana skipa: Gylfi Þór Gíslason, formaður og aðrir í stjórn voru kosnir, Hannes Leifsson, Haukur Árni Hermannsson, Jón Bjarni Geirsson og Skúli Berg.

 

Fundurinn sendir frá sér meðfylgjandi ályktun.

 

 

Ályktun:

 

 

Aðalfundur lögreglufélags Vestfjarða, haldinn í Einarshúsinu í Bolungarvík miðvikudaginn 28. október 2009,  hvetur dómsmálaráðherra að hætta við  fyrirhugaðan niðurskurð hjá lögreglu enda komi hann niður á öryggi lögreglumanna og  þjónustu við íbúa landsins.  Fundurinn kallar eftir því að ekki verði ráðist í neinar breytingar nema að vel yfirveguðu og ígrunduðu máli sem og í samráði við  fulltrúa starfandi lögreglumanna í landinu.

 

 

Fundurinn varar við því að í sparnaðarskyni verði gengið gegn ákvæðum reglugerðar um starfsstig innan lögreglu og verkefni sem sannarlega eigi að vera á hendi yfirmanna verði færð yfir á óbreytta lögreglumenn.

 

 

Fundurinn hvetur forystumenn sveitarfélaga til að standa vörð um núverandi fjölda starfsstöðva og lögreglumanna í landinu í fyrirhuguðum breytingum á lögregluembættum og standi þannig vörð um öryggi og hagsmuni íbúa sinna sveitarfélaga.

 

 

Fundurinn harmar þá  ákvörðun sem Ríkislögreglustjóri hefur tekið varðandi rafbyssur sem valdbeitingartæki, þ.e. að eingöngu að heimila sérsveitinni notkun á því.  Fundurinn óskar eftir útskýringum á því hvers vegna það er lagt til að þrautþjálfaðir og vel vopnum búnir lögreglumenn sérsveitar RLS verði búnir rafbyssu valdbeitingartækjum á meðan illa tækjum búnir lögreglumenn á landsbyggðinni, sem starfa einir, fjarri allri aðstoð, og þurfa oft á tímum að leysa  samskonar verkefni og sérsveit RLS verði án þessara tækja.

 

 

Að lokum skorar fundurinn á ríkisstjórn Íslands og Alþingi að vera Íslands í Shengen verði endurskoðuð.  Að farin verði  svo kölluð  ,,breska leið“ að halda uppi vegabréfaeftirliti á landamærum landsins. Fundurinn bendir á í því sambandi að bæði Bretland og Írland eru utan Shengen-svæðis, en þessi lönd eru eyjur í Evrópu eins og Ísland, Þ.e. að þeir eru ekki með í 96. gr. samningsins og eru áfram með landamæraeftirlit en stefna að því að vera  í öllu öðru samstarfi lögreglu  í Evrópu, þ.e. upplýsingaöflun og upplýsingarsamvinnu. 

Til baka