Fréttir

Barbabrella?

23 nóv. 2009

Í frétt á mbl.is þann 19. þessa mánaðar var sagt frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu væri að auglýsa, lausar til umsóknar, þrjátíu og níu (39) stöður lögreglumanna.

Af fréttinni má ráða að hér sé um að ræða nýjar stöður og þeir sem fréttina lesa velta væntanlega fyrir sér hvernig standi á því, í ljósi frétta undanfarna mánuði, um að mikil vöntun sé á lögreglumönnum til starfa í lögreglu almennt, að hægt sé að ráða til starfa svo marga lögreglumenn nú.

 

Rétt er, í þessu samhengi, að skoða hlutina í réttu ljósi og horfa þá til þess, sem haft er eftir lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í fréttinni:

„Að hluta til eru þetta stöður sem hafa verið mannaðar með tímabundnum hætti, sem eru þá að renna út um áramótin.  Í ljósi þeirra hagræðingaraðgerða sem við höfum gripið til, sem þegar hafa verið umfangsmiklar á þessu ári, þá skapast hjá okkur svigrúm, þrátt fyrir viðbótarniðurskurð á næsta ári, til þess að ráða lögreglumenn um áramótin og bæta örlítið í hópinn,“

Lykilorðin í þessu eru sem sagt „bæta örlítið í hópinn“ þar sem að stærstum hluta til eru þessar stöður nú þegar mannaðar í dag.  Mannaðar lögreglumönnum sem hafa verið á tímabundnum ráðningarsamningum sem, að öllu óbreyttu, hefðu runnið út um komandi áramót.

Rétt hefði verið, hjá þeim fréttamanni, sem flutti þessa frétt að fá uppgefið, nákvæmlega, hversu mörgum nýjum stöðum væri verið að bæta við og þar með þá svara spurningunni um hvað það þýðir að „bæta örlítið í hópinn“.

Staðreyndin er nefnilega sú, sem fram kemur síðar í greininni að „Breytingar hafa verið gerðar á vaktkerfum, deildir lagðar niður og laun lækkuð hjá starfsmönnum, svo nokkur dæmi séu nefnd“.

Það er auðvitað ljómandi gott að hægt er að verja störf lögreglumanna þar sem lögreglan er nú þegar undirmönnuð og undirfjármögnuð, á landsvísu – og hefur verið um langa hríð – svo sem Landssamband lögreglumanna hefur margítrekað bent á í ræðu og riti.

Rétt skal vera rétt!

Til baka