Fréttir

Brautskráning frá Lögregluskóla ríkisins

11 des. 2009

Við afar hátíðlega og glæsilega athöfn, í Bústaðakirkju í dag, föstudaginn 11. desember, voru fimmtán (15) nemendur útskrifaðir frá Lögregluskóla ríkisins (LSR).  Arnar Guðmundsson, skólastjóri lögregluskólans gerði grein fyrir starfi skólans fram að útskriftinni.  Þá fluttu ræður, Frú Ragna Árnadótir dómsmálaráðherra, Ívar Bjarki Magnússon, fulltrúi nemdenda í útskriftarhópnum og Hörður Jóhannesson, aðstoðarlögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.  Athöfninni stjórnaði Gunnlaugur V. Snævarr, yfirlögregluþjónn við lögregluskólann.

 

Landssamband lögreglumanna (LL) gaf, að venju, verðlaun fyrir besta árangur í íslensku og hlutu tveir nemendanna bókina „Lögreglan á Íslandi – stéttartal og saga“, sem gefin var út árið 1997.  Höfundar bókarinnar, sem senn fer að verða ófáanleg, eru Guðmundur Guðjónsson og Þorsteinn Jónsson en studdi LL veglega við útgáfu hennar á sínum tíma.

Í ræðu fulltrúa nemenda við skólann kom berlega fram sú dapurlega staða að enginn þeirra, sem voru að útskrifast að þessu sinni hafa fengið vinnu í lögreglu þrátt fyrir að sá fjöldi, sem útskrifast nú sé í samræmi áætlanir stjórnvalda um eðlilega endurnýjun í lögreglu m.a. vegna lífeyristöku eldri lögreglumanna. 

Í þessu samhengi er rétt að geta þess hér að gert er ráð fyrir útskrift tuttugu og þriggja (23) lögreglumannsefna, frá LSR á vori komandi.  Þessar áætlanir stjórnvalda hafa allar riðlast í kjölfar bankahrunsins, sem varð hér haustið 2008.

Við þessa staðreynd má einnig bæta að skv. nýlegum tölum frá Vinnumálastofnun eru sjö lögreglumenn nú þegar á atvinnuleysisskrá og ljóst að tveir a.m.k. munu bætast þar við um komandi áramót, sem ekki fá framlengingu sinna ráðningarsamninga hjá sýslumanninum á Selfossi, vegna þess niðurskurðar sem boðaður hefur verið í lögreglu.

Í máli ráðherra, við útskriftina, kom fram að dómsmálaráðuneytið hefði verulegar áhyggur af atvinnuþróuninni innan lögreglunnar og sömuleiðis af þeirri fækkun, sem þegar hefur orðið í lögreglunni [sem nemur allt að fimmtíu (50) stöðugildum frá ársbyrjun 2007].  Þá kom einnig fram í máli ráðherra að verið væri að bregðast við þessum vanda m.a. með þeim skipulagsbreytingum, sem stefnt er að gera á lögreglunni á næsta ári.  Flötum niðurskurði hefði verið beitt á fjárveitingar til lögreglu á því ári sem er að líða og því miður yrði líklega að grípa til þess, að einhverju marki einnig á næsta ári. 

Í ræðu sinni kynnti ráðherra það að hún hyggðist leggja fram frumvarp, vegna skipulagsbreytinganna, fljótlega eftir áramót, sem færi þá inn á Alþingi til afgreiðslu á vorþingi en þó væri óljóst með tímasetningar í þessum efnum.

Það er ljóst að þær staðreyndir, um atvinnuhorfur lögreglumanna, sem birtast hér að ofan, skyggja verulega á þessa annars hátíðlegu og glæsilegu athöfn.

Landssamband lögreglumanna óskar hinum nýútskrifuðu lögreglumannsefnum innilega til hamingju með daginn!

Til baka