Fréttir

Ræða Frímanns Baldurssonar á málþingi Lögreglufélags Suðurlands

16 des. 2009

Dómsmálaráðherra, lögreglustjórar og aðrir fundargestir.

Framundan eru erfiðir tímar í löggæslumálum á öllu landinu.  Fyrir liggur 10% hagræðingarkrafa sem lögreglustjórar verða að mæta með niðurskurði. Sá niðurskurður á eftir að hafa í för með sér verulega þjónustuskerðingu við íbúa landsins og munu íbúar á Suðurlandi ekki sleppa frekar en aðrir landsmenn.

Um 80% rekstrarkostnaðar lögreglu er vegna starfsmannahalds, 10% er vegna reksturs lögreglubifreiða og um 10% er annar kostnaður s.s. rekstur á húsnæði og annað þess háttar.  Í síðasta liðnum er lítið sem hægt er að skera niður og er því augljóst að skera þarf niður í hinum tveimur þ.e. starfmannahaldi og rekstri bifreiða. Sá niðurskurður verður varla framkvæmdur nema með því að draga úr yfirvinnu, fækka lögreglumönnum, draga úr kostnaði vegna lögreglubifreiða þ.e. fækka bifreiðum og draga úr akstri.  Allt þetta kemur til með að skerða þjónustu lögreglunnar!  Það segir sig sjálft!

Þið kunnið nú að hugsa að 10% niðurskurður sé kannski viðráðanlegur án mikillar skerðingar á þjónustu lögreglu við hinn almenna borgara en í því ljósi er rétt að skoða hvernig fjárveitingum til lögregluliðanna á Suðurlandi hefur verið háttað undanfarin ár.

 

Síðastliðin ár hefur lögreglan í Árnessýslu ekki fengið það fjármagn á fjárlögum sem þarf til að halda uppi nauðsynlegri löggæslu og hefur því verið „reddað“ á síðustu stundu með fjárveitingum á fjáraukalögum og þannig tekist að halda inni fjórum stöðum lögreglumanna. Þessi viðbótarfjárveiting þýðir að hægt er að hafa 4-5 lögreglumenn á vakt allan sólarhringinn. Þar að auki hafa þrír lögreglunemar verið í starfsþjálfun síðan í september en launakostnaður þeirra hefur að hluta til verið greiddur af embættinu. Þetta hefur þýtt að tvær fullmannaðar lögreglubifreiðar eru til taks á nánast öllum tímum sólarhrings auk viðveru eins lögreglumanns á lögreglustöð til að sinna stjórnun vakta, símsvörun og afgreiðslu þeirra mála sem lögreglu berast.

Hjá embættinu eru til taks vel þjálfaðir lögreglumenn sem sinna óeirðalöggæslu og stóðu þeir meðal annars vaktina við Alþingi Íslendinga þegar Búsáhaldabyltingin var í hæstu hæðum. Þar þurftu þeir að þola grjótkast og ókvæðisorð frá sárum Íslendingum sem létu reiði sína gegn kerfinu bitna á lögreglumönnum.

Árið 2007 voru gerðar skipulagsbreytingar á lögreglunni í landinu. Mestar breytingar urðu á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestfjörðum en annarsstaðar snérust breytingarnar að mestu um rannsóknir mála.  Við þessar skipulagsbreytingar færðust rannsóknir alvarlegra mála sem upp koma í Vestmannaeyjum, Rangárvallar- og V. Skaftafellssýslum til lögreglunnar í Árnessýslu. Þessum breytingum fylgdi ekkert aukið fjármagn en vegna aukins álags á rannsóknardeildina þurfti að fjölga þar um einn rannsóknarlögreglumann og var sá maður fenginn úr almennri löggæslu.

Fram að þessu hefur þetta tekist þrátt fyrir að fjárveitingar til embættisins hafi staðið í stað í nokkur ár og þrátt fyrir aukinn kostnað vegna verðbólgu, launa og reksturs lögreglubifreiða. Þetta hefur einnig tekist þó svo að 6.000.000 kr. hagræðingarkrafa á embættið hafi komið fram á seinnihluta þessa árs. Þetta náðist fram með niðurskurði á yfirvinnu allra lögreglumanna og aðhaldi í akstri lögreglubifreiða, sem óhjákvæmilega kom niður á almennri löggæslu, rannsóknum mála og eftirliti í sýslunni.

 

Ár eftir ár hefur Lögreglufélag Suðurlands komið fram í fjölmiðlum og bent á þá staðreynd að lögreglan sé undirmönnuð og embættið fái of litlar fjárveitingar til að halda uppi viðunandi öryggisstigi bæði fyrir lögreglumenn og íbúa sýslunnar.  Landssamband lögreglumanna hefur einnig margítrekað bent á þessa sömu staðreynd.  Lögreglustjórinn hefur verið okkur sammála og sjálfur gert tillögur um að fá auknar fjárheimildir til að fjölga lögreglumönnum hjá embættinu. Ríkislögreglustjóri hefur tekið undir þessar tillögur og hef ég vitnesku um að dómsmálaráðuneytið hafi á sínum tíma einnig tekið undir þessar tillögur en eitthvað hefur reynst erfitt að ná eyrum þess ráðherra sem heldur um pyngjuna og ekki virðast alþingismenn kjördæmisins hafa reynst okkur stoð eða styrkur í þeirri baráttu.

 

Landsmeðaltal íbúa að baki hvers lögreglumanns er 424 samkvæmt tölum frá árinu 2005. Íbúar í Árnessýslu eru um 15.600 sem þýðir að á bakvið hvern lögreglumann eru 600 manns. Þá er ekki tekið með inn í myndina að frá því í maí til loka september ár hvert fjölgar íbúum sýslunnar um 10.000 manns á virkum dögum og nær íbúafjöldinn í um 40.000 manns um helgar. Þetta er vegna þeirra rúmlega 6.000 sumarhúsa og allmargra vinsælla áningarstaða sem í sýslunni eru. Þetta gerir Árnessýslu líklega að næstfjölmennasta svæði á landinu yfir sumartímann. 

Allur þessi mannfjöldi dreifist um sýsluna sem er 8.850 ferkílómetrar, telur 8 þéttbýliskjarna, þrjá vinsælustu ferðamannastaði landsins og einn umferðaþyngsta og hættulegasta þjóðveg landsins. Þá er í sýslunni réttargeðdeild ásamt stærsta fangelsi landsins og er útlit fyrir að annað fangelsi bætist við á næsta ári.

Til viðbótar við allt þetta heimsækja um 650 þúsund ferðamenn Gullna hringinn ár hvert.  Ef þeim er dreift jafnt yfir sumarmánuðina reiknast mér til að á hverjum degi, frá byrjum maí til loka september, komi um 4250 manns á þá staði sem tilheyra hringnum.  Ljóst er að mikil umferð fylgir slíkum fjölda ferðamanna og mikil hætta er á stórum og alvarlegum umferðarslysum.

Miðað við það meðaltal sem ég nefndi hér áðan ættu lögreglumenn hjá embættinu að vera a.m.k. 37 talsins og er þá eingöngu miðað við „fasta“ íbúa sýslunnar. Til gamans má geta að ef meðaltalið er miðað við íbúafjöldann yfir sumartímann ættu lögreglumenn í miðri viku að vera 58 en um helgar 94.

Í dag telur lögreglan í Árnessýslu 26 lögreglumenn.  Þar af eru tveir lögreglumenn settir til áramóta en fastráðnir lögreglumenn með skipun eru 24. Embættið hefur einn yfirlögregluþjónn, einn aðstoðaryfirlögregluþjónn, einn lögreglufulltrúa í rannsóknardeild, þrjá rannsóknarlögreglumenn, tvo varðstjóra á dagvöktum sem sinna m.a. útgáfu skotvopnaleyfa, boðunum og fyrirköllum og ýmiskonar umsýslu vegna sönnunargagna.  Á vöktum starfa fjórir varðstjórar og 14 lögreglumenn eða alls 18 manns á fjórum vöktum. Við þessa 26 lögreglumenn bætast svo þrír lögreglunemar í starfsþjálfun.

 

Vegna þeirrar hagræðingarkröfu sem er nú á lögreglunni í Árnessýslu þarf að fækka lögreglumönnum um tvo og þar að auki fara þrír lögreglunemar aftur í skóla og enginn kemur í staðinn. Þannig er í raun fækkun um fimm lögreglumenn um áramótin. Þetta gerir það að verkum að á bak við hvern lögreglumann verða 650 íbúar í stað 600 eins og það er nú. Munið… landsmeðaltalið er 424 íbúar á bakvið hvern lögreglumann.

Lögreglumenn hjá embættinu hafa verulegar áhyggjur af þeim afleiðingum sem fyrirhugaður niðurskurður og fækkun lögreglumanna getur haft. Fyrst vil ég nefna okkar eigið öryggi. Það segir sig sjálft að fækkun lögreglumanna hefur í för með sér aukið álag á þá sem eftir eru. Það álag er nú þegar of mikið og oft á tíðum má ekki miklu muna að ekki sé hægt að sinna öllum alvarlegri málum sem upp koma. Samvinna, samheldni og árvekni lögreglumanna hefur náð að forða því. Við höfum verið mjög lánsöm hvað varðar alvarleg slys á lögreglumönnum. Engin slík slys hafa orðið á síðustu árum en það er óhjákvæmilegt að meiri hætta skapast með auknu álagi.

Þá ber ekki síst að nefna að sú góða vinna sem lögreglumenn hafa framkvæmt hefur skilað því að veruleg fækkun er á umferðalagabrotum milli ára og teljum við að með fækkun lögreglumanna sé hætta á að þessi árangur tapist. Sem dæmi má nefna að á árunum 2006 til 2008 hefur umferðalagabrotum fækkað um rúmlega 2.400.  Í þessum tölum skiptir kannski mestu máli að kærum vegna hraðakstursbrota hefur fækkað á þessu tímabili úr 2.700 í 1.200 en eins og flestir vita er of hraður akstur einn af þeim þáttum sem talið er að valdi alvarlegustu umferðarslysunum.

Því miður hefur sumum öðrum brotum fjölgað og teljum við það mikið áhyggjuefni. Á árunum 2006 – 2008 hefur tilkynntum innbrotum fjölgað talsvert og þá helst síðari hluta ársins 2008 og er innbrotum enn að fjölga að mati lögreglumanna.

 

Í þessu samhengi má nefna að í síðasta mánuði gaf ríkislögreglustjóri út skýrslu um reynslu landsmanna af afbrotum og viðhorfi til lögreglu.  Í skýrslunni kemur m.a. fram að 61% svarenda á Suðurlandi óttist mest að verða fyrir innbroti og um 34% segja að það sé mesta vandamálið í sínu byggðarlagi. Á landinu öllu er ótti við innbrot mestur á Suðurlandi. Eitt af áhrifaríkustu úrræðum sem hægt er að beita gegn innbrotum er aukið sýnilegt eftirlit lögreglu. En ég spyr; Hvernig á að auka sýnilegt eftirlit þegar við blasir mikill niðurskurður?

Í skýrslunni má lesa að 45% svarenda sögðust sjá lögreglumann eða lögreglubifreið oft eða nær daglega og er það 11% fækkun á milli ára. Þetta teljum við vera afleiðingu niðurskurðar sem embættið hefur mátt þola  en eins og ég sagði áðan, hefur niðurskurðurinn m.a. beinst að yfirvinnu lögreglumanna og aðhaldi í akstri lögreglubifreiða.

Í þessari sömu könnun kom þó fram að 95% svarenda töldu lögregluna skila mjög eða nokkuð góðu starfi. Til þess að viðhalda þessu góða orðspori verður að koma til aukið fjármagn svo lögreglan geti sinnt sínu hlutverki sómasamlega.

 

Hjá lögreglunni á Hvolsvelli starfa nú 9 lögreglumenn og eru þeir staðsettir á Hvolsvelli, Vík og Kirkjubæjarklaustri. Varðsvæði þeirra nær yfir Rangárvallar- og V. Skaftafellssýslu eða frá Eystri bökkum Þjórsár að Sandgígjukvísl á Skeiðarársandi. Svæðið er um 15.000 ferkílómetrar. Í umdæminu eru um 4.500 íbúar og eru því 500 íbúar að baki hvers lögreglumanns.

Yfir sumarmánuðina er mikill fjöldi ferðamanna á tjaldsvæðum um allt umdæmið og er stór hluti þeirra á hálendinu þar sem vinsælustu ferðamannastaðir á hálendi Íslands eru.  Yfir vetrarmánuðina er einnig mikið um ferðamannastraum upp á hálendið og líður varla sú vika að einhver verkefni vegna þeirra komi upp. Vegalengdir á milli staða eru miklar og er því kostnaður við rekstur lögreglubíla mjög mikill.

Eins og í Árnessýslu sætti embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli einnig niðurskurði á seinnihluta þessa árs og var honum mætt með aðhaldi í akstri lögreglubifreiða. Þetta hefur gert embættinu erfitt fyrir en óhjákvæmilega stjórna verkefnin hversu mikið lögreglubifreiðum er ekið.

Með niðurskurði á akstri minnkar einnig almenn eftirlit í sýslunni og má reikna með að það hafi áhrif á góðan árangur sem náðst hefur í lækkun hraða á þjóðvegum.

Að auki þarf svo embætti lögreglustjórans á Hvolsvelli að skera niður um 10% á næsta ári og mun það auka enn á vanda embættisins.

 

Í sumar kynnti hæstvirtur dómsmálaráðherra hugmyndir sínar um breytt skipulag á löggæslu í landinu. Fyrstu hugmyndir gengu út á að einn lögreglustjóri yrði á Íslandi. Ráðherra setti á laggirnar starfshóp sem fékk það hlutverk að útfæra þessar tillögur enn frekar. Hugmyndin breyttist í meðferð nefndarinnar og í stað eins lögreglustjóra urðu þeir alls 6 talsins ásamt ríkislögreglustjóra og skólastjóra lögregluskólans. Samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í skýrslu starfshópsins er gert ráð fyrir að embætti lögreglustjóranna í Árnessýslu, Rangárvallar- og V. Skaftafellssýslum og í Vestmannaeyjum verði sameinuð undir einn lögreglustjóra. Ég fer ekkert dýpra í þessar tillögur þar sem ég geri fastlega ráð fyrir að farið verði ítarlega yfir þær hér á eftir.

Það sem kom fram, þegar þessi hugmynd var kynnt opinberlega, var að ráðast ætti í þessar skipulagsbreytingar vegna hagræðingar. Hagræðingunni á að ná fram m.a. með fækkun yfirmanna í lögreglu. Þau þrjú embætti sem ég nefndi hér áðan og eiga að sameinast undir einn lögreglustjóra eru ekki mjög stór í sniðum og fækkun yfirmanna felur því í sér lítinn sparnað.  Óttast lögreglumenn mjög að hagræðingarkröfunni verði framfylgt með enn frekari fækkun lögreglumanna á almennum vöktum og í rannsóknardeildum. Þannig dragi enn meir úr almennu eftirliti og mál sem eru til rannsóknar fái hægari afgreiðslu.

Ráðist hefur verið í svipaðar skipulagsbreytingar á Norðurlöndunum og hefur reynsla Dana og Norðmanna leitt það í ljós að slíkar breytingar kosta nokkuð í upphafi, áður en hagræðingin kemur í ljós. Það er því alveg ljóst að okkar mati að til þess að slíkar breytingar gangi hér á Suðurlandi verði fyrst að leiðrétta fjárheimildir til þeirra embætta sem um ræðir. Að öðrum kosti teljum við þetta einungis geta farið á einn veg, fækkun lögreglumanna, minna eftirlit, mál taki lengri tíma í rannsókn og enn frekari fjölgun á innbrotum, umferðarlagabrotum og öðrum afbrotum. Á endanum verði það íbúar Suðurlands sem verði fyrir mestum skaða.

Til baka