Fréttir

Félagsdómur dæmir LL í óhag

25 jan. 2010

Í félagsdómsmálinu nr. 6/2009 var íslenska ríkið sýknað af öllum kröfum LL í þremur kröfuliðum í málinu, sem höfðað var með fulltingi réttindanefndar BSRB, enda um að ræða þætti er varða vaktavinnufólk almennt en ekki bara félagsmenn LL.

 

Kröfurnar voru, eins og áður segir þríþættar:

  1. Að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu væri óheimilt að setja, einhliða og án samráðs, reglur um fyrirkomulag bakvakta rannsóknarlögreglumanna er starfa við embættið (sbr. gr. 2.5.1 í kjarasamningi LL við fjármálaráðherra);
  2. Að lögreglumenn, sem náð hafa 55 ára aldri skuli undanþegnir bakvaktaskyldu á næturvinnutíma með vísan til ákvæða kjarasamnings þar um er lýtur að vaktavinnu sama aldurshóps (sjá gr. 2.6.13 í kjarasamningi LL við fjármálaráðherra);
  3. Að viðurkennt verði að þegar vikulegum hvíldardegi er frestað sé um að ræða frestun á 35 klst. hvíld, þ.a. í seinni vikunni ættu lögreglumenn rétt á a.m.k. 70 klst. hvíld, sbr. ákvæði 2.4.4 í kjarasamningi LL við fjármálaráðherra og viðauka 2 með kjarasamningnum sem eru leiðbeiningar samráðsnefndar um skipulag vinnutíma og byggðar eru á vinnutímatilskipun Evrópusambandsins nr. 93/104/EB.

Sérstaka athygli vekur, í dómsorðinu, að málskostnaður er felldur niður, sem gefur tilefni til að ætla dómurinn hafi talið að hér hafi verið um „alvöru vafaatriði“ að ræða.

Lögreglumenn eru hvattir til að kynna sér dóminn, sem hægt er að lesa með því að fylgja hlekknum hér fremst í þessari frétt.

Fjallað var um málið á mbl.is hér.

Niðurstaða félagsdóms verður notuð við endurskoðun kjarasamningstexta LL á komandi vikum.

Til baka