Fréttir

Lögreglumenn lýsa vantrausti á yfirstjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

25 mar. 2010

Á fjölmennum félagsfundi Lögreglufélags Reykjavíkur (LR), sem haldinn var mánudaginn 22. mars, í húsnæði BSRB að Grettisgötu 89 var samþykkt ályktun í hverri fram kemur að fundarmenn leggi til að tafarlaust verði horfið frá núverandi fyrirkomulagi löggæslu á höfuðborgarsvæðinu (LRH) og tekið upp fyrra kerfi þ.e. ein aðallögreglustöð og fimm vakta kerfi, sem rúmist innan kjarasamnings LL og ríkisins.

 

Í frétt á bls. 2, í Fréttablaðinu, sem ber yfirskriftina „Lýsa vantrausti á yfirstjórn lögreglunnar“, þann 24. mars s.l. er viðtal við Arinbjörn Snorrason, formann LR í hverju fram kemur að stjórnunarhættir, sem viðgangist hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafi byggt upp spennu sem fram komi í auknum veikindum lögreglumanna.  Þá segir Arinbjörn einnig í viðtalinu að alvarlegur trúnaðarbrestur hafi orðið á milli yfirstjórnarinnar og lögreglumanna og að yfirstjórnin njóti ekki trausts lögreglumanna.  Fréttina er hægt að lesa, að hluta til, á visir.is.

Í þessu sambandi er athyglivert að skoða niðurstöður könnunar SFR vegna „Stofnunar ársins“ sem framkvæmdar hafa verið árlega frá árinu 2006 en séu þær kannanir bornar saman, frá árinu 2006 þá fá orð Arinbjörns um að yfirstjórn LRH njóti ekki trausts lögreglumanna, byr undir báða vængi (gefnar voru einkunnir vegna trúverðugleika stjórnenda).  Þannig var vegið meðaltal embættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu (lögreglunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði), þegar skoðaður var trúverðugleiki stjórnenda, 42 sæti af 100 mögulegum (þar sem 100 er best).  Á árinu 2007 var trúverðugleikinn kominn í 15 sæti af 100 mögulegum.  Á árinu 2008 var trúverðugleikinn í 12 sæti og á árinu 2009 í 3 sæti af 100 mögulegum!

Rétt er að benda lesendum þessarar fréttar á að lesa frétt, sem birtist hér á þessari síðu þann 16. mars s.l. en tilefni þeirra greinarskrifa voru fréttir, sem birtust á eyjan.is þar sem fram kom að Vinnueftirlitið hefði áhyggjur af hugsanlegri undirmönnun í lögreglu.  Þá er lesendum einnig bent á að lesa fréttirnar, sem hægt er að fylgja með þeim hlekkjum sem eru í áðurnefndri frétt.

Þá er einnig rétt að benda á fyrri ályktanir LR vegna vaktkerfisbreytinga hjá LRH sem lesa má hér, hér og hér.    

Til baka