Fréttir

Engin loforð verið gefin?

31 mar. 2010

Í tilefni af fréttaumfjöllun liðinna daga í kjölfar fjölmenns félagsfundar Lögreglufélags Reykjavíkur (LR), sem haldinn var mánudaginn 22. mars hefur LR nú sett inn fréttir á heimasíðu sína þar sem m.a. má heyra hljóðskrár með upptökum af fundi, sem haldinn var 28. apríl 2009, þar sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins (LRH) fjallar um fyrirhugaðar hagræðingaraðgerðir hjá embættinu og hvernig þær yrðu framkvæmdar.  Þar er einmitt fjallað um það að þeir lögreglumenn, sem voru við störf hjá embættinu myndu halda störfum sínum og að sérstaklega væri unnið út frá þeim forsendum.

 

Tilefni þessarar fréttar LR er, eins og fram kemur á heimasíðu félagsins, ummæli lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sem eru til þess fallin, að mati stjórnar LR, að draga úr trúverðugleika formanns LR vegna ummæla hans í viðtali á bls. 2. í Fréttablaðinu þann 24. mars s.l.  Þau ummæli sem hér um ræðir voru:

„Það er alvarlegur trúnaðarbrestur milli yfirstjórnarinnar og lögreglumanna,“ segir Arinbjörn. „Hún nýtur ekki trausts þeirra, þar sem hún hefur ekki staðið við orð sín gagnvart þeim. Stjórn LR hefur ítrekað fengið ábendingar frá félagsmönnum um að draga sig út úr öllum samskiptum við yfirstjórnina.

Svo er þessi agi í stjórnun, sem mönnum ekki hugnast. Þeim er haldið á tánum og gefið í skyn að standi þeir sig ekki verði þeim skipt út fyrir aðra. Við erum allt of fá, með allt of mörg  verkefni og verðum samt að klára þau.  Þetta snýst um að embættið líti vel út út á við,“ segir  hann og bætir við að stjórnunarhættir yfirstjórnarinnar hafi byggt upp spennu sem komi fram í auknum veikindum…

…Spurður um í hverju yfirstjórnin hafi ekki staðið við orð sín nefnir Arinbjörn nýlegar ráðningar lögreglumanna. Hann segir lögreglustjóra hafa lýst því yfir að lausráðnir starfsmenn gengju fyrir. Reyndin hefði orðið sú að fjórir lausráðnir lögreglumenn hefðu ekki fengið ráðningu.“

Svör Stefáns Eiríkssonar við ofangreindum ummælum voru eftirfarandi:

„Það er mikill misskilningur að gefin hafi verið út loforð um að einhverjir tilteknir lögreglumenn myndu halda störfum sínum,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, um ummæli formanns Lögreglufélags Reykjavíkur þess efnis að yfirstjórn lögreglunnar hafi ekki staðið við orð sín hvað þetta atriði varðar.

Lögreglustjóri kveðst ekki kannast við agastjórnun þá sem formaður LR nefnir, hvorki á lögreglustöðvunum né annars staðar. „í aðalatriðum er þetta samhentur og góður hópur á öllum póstum hjá okkur,“ segir Stefán. „Við reynum hvað við getum að reka embættið vel, bæði faglega og fjárhagslega, innan þess ramma sem okkur er skammtaður. Við reynum hvað við getum að ná því saman því niðurskurður felur í sér lækkun launakostnaðar og fækkun starfsmanna og það er auðvitað ekki til vinsælda fallið.“

Hægt er að lesa nánar um áðurnefndan fund LR og fjölmiðlaumfjöllun í kjölfar hans hér, hér og hér.  

Til baka