Fréttir

Öryggi lögreglumanna – fáliðun

8 júl. 2010

Í kjölfarið á grein, sem birtist í Fréttablaðinu 28. júní s.l. og fjallað var um hér á þessari síðu þann 29. júní s.l. hefur spunnist upp talsverð umræða um öryggi lögreglumanna og svokölluð rafstuðtæki (ranglega nefnd rafbyssur).

 

Þannig birtist þann 1. júlí s.l. frétt á visir.is þar sem m.a. var rætt við Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra.  Í viðtalinu, við visir.is, segir ráðherra m.a:

„Ég mun óska eftir því við ríkislögreglustjóra að embættið taki sérstaklega til umfjöllunar öryggi lögreglumanna og að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til úrbóta eða tillögum skilað til ráðuneytisins.“

Landssamband lögreglumanna (LL) fagnar því sérstaklega að farið verði í þá vinnu að kanna hversu margir lögreglumenn slasast árlega við sín skyldustörf.  Þá er það von LL einnig að fram komi, í þeirri úttekt, upplýsingar um það hver kostnaður ríkissjóðs er árlega vegna þessara slysa.

LL hefur, margítrekað, bent á þær staðreyndir að lögregla er of fáliðuð og fjármagn til reksturs lögreglu í landinu er engan vegin í takt við þau verkefni sem lögreglu eru falin að lögum og reglugerðum ýmiskonar.  Þessi staðreynd skýrir, að hluta til, hversu margir lögreglumenn slasast árlega við skyldustörf.

Því ber ekki að leyna, í þessari umræðu, að á 29. þingi LL árið 2008 var samþykkt ályktun þess efnis að lögreglumönnum yrði útveguð rafstuðtæki, sem hluta af þeim búnaði sem lögreglumönnum er skaffaður til löglegrar valdbeitingar vegna starfa sinna.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt, svo ekki verður um villst að slík tæki hafa stórlega fækkað slysum á lögreglumönnum og þeim sem lögregla hefur, því miður, þurft að hafa afskipti af og beita valdi.

Tökum dæmi:

  1. Í Orange sýslu í Florida í BNA hefur verið sýnt fram á það að notkun á rafstuðtækjum fækkaði slysum á lögreglumönnum um 80% á milli áranna 2000 og 2002;
  2. Í borginni Phoenix í Arizona í BNA sýndu sambærilegar rannsóknir fram á fækkun slysa um 67%;
  3. Í Putnam sýslu í Florida í BNA fækkaði slysum á lögreglumönnum um 86% á árinu 2005, eftir að rafstuðtæki voru tekin þar í notkun;
  4. Í Austin í Texas í BNA fækkað slysum á lögreglumönnum um 50% og á þeim sem lögregla hafði afskipti af um 82% í kjölfar þess að rafstuðtæki voru tekin þar í notkun.

Hægt væri að teljar upp slíkar tölur, nánast endalaust, úr rannsóknum sem gerðar hafa verið á notkun rafstuðtækja beggja vegna Atlantshafsins en vegna plássleysis hér, verður það ekki gert, en áhugasömum bent á að kynna sér tækin og rannsóknir á þeim á Internetinu.

Rétt er einnig að benda á þær staðreyndir að fækkun slysa á lögreglumönnum og þeim sem lögregla þarf, vegna starfa sinna, að hafa afskipti af, hefur einnig í för með sér umtalsverða kostnaðarlækkun vegna bótagreiðslna í kjölfar slíkra slysa.

Til baka