Fréttir

Hinn raunverulegi vandi er skortur á löggæslu

26 júl. 2010

Nokkur umfjöllun hefur verið, í blíðviðrinu undanfarna daga, um óreglufólk í miðborg Reykjavíkur.  Þannig hafa birst sjónvarpsviðtöl við starfsmenn ýmissa veitingastaða í miðborginni sem sagt hafa gesti veitingastaðanna hafa orðið fyrir ónæði af óreglufólkinu. 

 

Í einu slíku viðtali hafði einn starfsmaðurinn á orði að mjög löng bið væri oft eftir lögreglu, þegar hringt hafi verið eftir aðstoð, lögregla jafnvel ekki komið á staðinn en þegar hún hafi loksins komið hafi þeir sem hringt hafi verið út af verið á bak og burt.

Í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins í gær, sunnudaginn 25. júlí, birtist viðtal við Þorleif Gunnarsson, fulltrúa VG í velferðarráði Reykjavíkurborgar þar sem hann fjallar um þetta „vandamál“.  Í inngangi fréttarinnar er það fullyrt að hinn raunverulegi vandi sé skortur á löggæslu.  Það er nokkuð athyglisvert að heyra þetta viðtal, sérstaklega þar sem eftirfarandi kemur fram í máli Þorleifs:

„Það sem vantar hér og ég hef horft upp á í mörg ár er sko einfaldlega það að það vantar löggæslu, sýnilega löggæslu, á Austurvöll og sérstaklega á svona dögum.  Til þess að grípa inn í ef að hlutirnir fara úr böndum eða þá líka til að hafa svona forvarnaráhrif með því að vera sýnilegir.“

Svo mörg voru þau orð og áhugverð í ljósi þess að fullyrðingar hafa verið uppi um stóraukna sýnilega löggæslu um allt land í kjölfar sameininga lögregluliða sem hér urðu um áramótin 2006 – 2007.  Aukna sýnilega löggæslu sem m.a. hefur það að markmiði að stórauka öryggi og öryggistilfinningu borgaranna.

Hægt er að horfa á viðtalið við Þorleif Gunnarsson hér.

Til baka