Fréttir

Óskir um framlengingu stöðugleikasáttmála!

19 sep. 2010

Ríkisstjórn Íslands og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa, skv. frétt á mbl.is, óskað eftir því við verkalýðshreyfinguna að „Stöðugleikasáttmálinn“ svokallaði, sem gerður var sumarið 2009 verði framlengdur.

 

Það verður að segjast alveg eins og er að þetta eru nokkuð undarlegar fréttir í ljósi frétta sem m.a. hafa birst hér, hér, hér, hér og reyndar miklu, miklu víðar um það að SA hafi sagt sig frá „Stöðugleikasáttmálanum“!  Nú spyr sá sem ekki veit: Hvað hefur ollið þessum sinnaskiptum hjá SA í þá átt að fara fram með bón til verkalýðshreyfingarinnar um að framlengja eitthvað sem einfaldlega hefur ekki verið staðið við?

Landssamband lögreglumanna (LL) tók þátt í „Stöðugleikasáttmálanum“ sumarið 2009.  Þeir samningar sem þar voru gerðir voru reyndar felldir í allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna LL – af þeirri einföldu ástæðu að ríkisvaldið tók einhliða þá ákvörðun, kortéri fyrir gerð kjarasamninga, að lækka laun hvers einasta lögreglumanns í landinu um kr. 15.000,- á mánuði!  Eigi að síður var haldið áfram, af heilindum af hálfu LL, við gerð þeirra samninga sem undirritaðir voru þá um sumarið undir merkjum „Stöðugleikasáttmála“ enda LL hvorki lagt það í vana sinn, né hyggst gera það, að brjóta gerða samninga – annað má segja um stjórnvöld þessa lands – (ATH: hér er ekki gerður greinarmunur á núverandi eða fyrrverandi stjórnvöldum) – svo sem þeir vita sem eitthvað hafa fylgst með kjarasamningasögu LL í gegnum liðna áratugi!  Þolinmæði LL hefur verið rúmlega óþrjótandi í þessum efnum.  Svo mikil reyndar að mörgum almennum félagsmanni innan LL hefur þótt nóg um!!

Eitt af þeim atriðum, sem gengið var frá við gerð „Stöðugleikasáttmálans“ svokallaða, sumarið 2009 og LL batt miklar vonir við, var svokölluð „Sameiginleg framkvæmdaáætlun„.  Í henni er kveðið á um ýmis atriði sem átti að leiða til lykta fyrir ákveðnar dagsetningar s.s. gerð handbókar um umhverfi vaktavinnufólks og ýmsar skilgreiningar í þeim efnum.  Til að gera langa sögu mjög stutta hefur NÁNAST EKKERT GENGIÐ EFTIR AF ÞVÍ sem kveðið er á um í hinni svokölluðu „Sameiginlegu framkvæmdaáætlun“!

LL er ekki óvant því að:

  • kjarasamningar séu sviknir! 
  • kjarasamningar séu ítrekað brotnir á félagsmönnum! 
  • þurfa að sækja umsamin kjör, skv. kjarasamningum, í gegnum dómstóla! 
  • bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir því að ákvæði sem finna hefur mátt í kjarasamningum séu efnd! 
  • ekkert tillit sé tekið til sérstöðu stéttar lögreglumanna þegar kemur að ábyrgð, áhættu og þeirrar hæfni sem krafist er af þeim sem veljast til lögreglustarfa! 

Í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja og m.a. finnast í því sem ritað er hér að ofan hefur stjórn LL tekið þá ákvörðun að VERA EKKI ÞÁTTTAKANDI í gerð framlengingar á hinum svokallaða „Stöðugleikasáttmála“ er núverandi kjarasamningar renna út þann 30. nóvember n.k.  Þessum boðum hefur þegar verið komið á framfæri við stjórn BSRB.

Til baka