Fréttir

Ályktun Lögreglufélags Norðurlands vestra

20 okt. 2010

Lögreglumenn í Lögreglufélagi Norðurlands vestra samþykktu á fundi sem haldinn var á Sauðárkróki þann 05.10. s.l.  að beina því til sveitarstjórna og sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra að standa saman að því að verja það svæði sem lögregluumdæmi.

Á fundi lögreglufélagsins komu fram áhyggjur félagsmanna varðandi fyrirhugaðar breytingar á lögreglulögum og sameiningu lögregluliðanna.  Sú umræða sem fram hefur farið um sameiningu hefur yfirleitt verið á þeim nótum að efla bæri lögregluna bæði faglega og auka styrk hennar með stækkun umdæma svo hún gæti nýtt mannafla og tæki betur en nú er gert.  Sú sameining sem nú er unnið að virðist öll vera gerð í anda sparnaðar eða niðurskurðar og þá kemur sá ótti að jaðarbyggðir fari illa út úr þeim sparnaði. 

Lýstu menn einnig furðu sinni á því að ekki sé farið eftir sóknaráætlun 20/20 hvar stefnt er að því að Norðurland vestra sé eitt umdæmi ásamt Bæjarhreppi.  Engar skýringar hafa komið fram hvers vegna lögregluumdæmin séu ekki látin fylgja áætluninni.

Voru fundarmenn sammála því að skynsamlegra væri að gera Norðurland vestra að einu lögsagnarumdæmi þar sem að mikið samstarf og samvinna er á milli þessarra tveggja umdæma þ.e.a.s. umdæma lögreglustjóranna á Blönduósi og á Sauðárkróki.

Lögreglumenn eru þess fullvissir að með einu lögregluumdæmi á Norðurlandi vestra sé ekki síður hægt að ná fram sparnaði en með stærri sameiningu lögregluumdæma enda skorast þeir ekki undan því að taka þátt í þeim samdrætti, sem yfirvofandi er, til  jafns við aðra.

Hvetur félagsfundur lögreglufélags Norðurlands vestra sveitastjórnarmenn að standa vörð um uppbyggingu lögregluliðanna og að ekki færist vald og fjármunir úr héraði.

Til baka