Fréttir

Bréf LA til ríkislögreglustjóra vegna skýrslu RLS um ofbeldi gegn lögreglumönnum

6 des. 2010

Austurlandi 03.12.2010

 

Ríkislögreglustjóri

Skúlagötu 21

101 Reykjavík

 

Á nýafstöðnum fundi stjórnar Lögreglufélags Austurlands var rætt um skýrslu ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn lögreglumönnum og var ákveðið að rita yður þetta bréf. Einnig var ákveðið að bréfið yrði birt opinberlega þar sem nú þegar hefurverið fjallað um efnið sem um ræðir á opinberum vettvangi.

 

Félagið fagnar því að embætti ríkislögreglustjóra hafi verið fengið til að gera úttekt á ofbeldi gegn lögreglumönnum enda mikil þörf á úrbótum á því sviði.

 

Lögreglufélag Austurlands harmar aftur á móti það viðhorf og vanþekkingu embættisins til lögreglumanna í landinu sem endurspeglast í skýrslunni og verður rakið hér á eftir.

 

 

Skýrsluna má t.d. skilja þannig að þar sem ofbeldisbrotum gegn lögreglumönnum hefur ekki fjölgað milli ára þá sé ekki ástæða til að bregðast við með neinum hætti og hlutirnir séu ásættanlegir. Einnig skortir algerlega tillögur til úrbóta sem þó var eitt af því sem dómsmálaráðherra óskaði sérstaklega eftir ef formáli skýrslunnar er réttur.

 

Í skýrslunni eru marg ítrekuð úrræði sem lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hefur yfir að ráða til að bregðast við erfiðum einstaklingum eða fjöldaóspektum en í því sambandi ekki minnst einu orði á það að landið er allt í byggð og lögreglumenn eru starfandi einir, fjarri allri aðstoð um allt land.

 

Einnig er í skýrslunni fjallað um Taser valdbeitingartækið. Þar kemur fram að það sé ljóst að þau tilvik sem Taser valdbeitingartækinu yrði beitt séu almennt útköll sem sérsveitarmenn séu kallaðir í. Í þessu ljósi auglýsum við lögreglumenn á austurlandi eftir okkar sérsveitarmönnum því við höfum hingað til þurft að klára okkar mál sjálfir nema í undantekningar tilfellum þar sem nokkra klukkustunda aðdragandi hefur verið að aðgerðum þannig að flytja mætti sérsveitarmenn á milli landshluta.

 

Það hryggir einnig lögreglumenn á Austurlandi að ríkislögreglustjóri sjálfur virðist ekki bera eins mikið traust til þeirra og þjóðin öll. Mat ríkislögreglustjóra á því að það sé líklegt að Taser valdbeitingartækið yrði notað til að kalla fram hlýðni fólks hlýtur að byggjast á því að lögreglumönnum sé ekki treystandi til að fara eftir þeir reglum sem um tækið yrði sett ef það yrði tekið í notkun. Í þessu sambandi hvetur félagið ríkislögreglustjóra til að rannsaka fjölda tilfella á Austurlandi þar sem piparúða og eða kylfu hefur verið beitt og jafnframt fjölda tilfella þar sem sú valdbeiting hefur ekki verið réttlætanleg.

 

Ef það er stefna ríkislögreglustjóra að almennir lögreglumenn komi ekki að málum þar sem handtaka þarf fólk í annarlegu ástandi eða vopnaða einstaklinga þá verður embættið að gjöra svo vel að dreifa sérsveit sinni um landið allt. Ef embætti aftur á móti sér einhverja anmarka á því að það geti gengið þá verður þú, kæri ríkislögreglustjóri að gjöra svo vel að koma með tillögur til úrbóta fyrir landsbyggðina.

 

Það er mat Lögreglufélags Austurlands að félagsmönnum þess félags sé vel treystandi til að sinna sínum störfum eftir þeim reglum sem um það gilda og að þeir muni ekki breytast í villidýr sem engu eira þó þeir fengju nýtt valdbeitingartæki í hendurnar.

 

Að lokum fagnar Lögreglufélagið því að í skýrslunni kemur fram mikilvægi þess að lögreglumenn séu vel þjálfaðir en auglýsir jafnframt eftir tillögum til úrbóta í þjálfunarmálum lögreglumanna.

 

f.h. Stjórnar L.A.

Óskar Þór Guðmundsson, formaður L.A.

 

Afrit sent: Dómsmálaráðherra og Landsambandi lögreglumanna.

 

Svar Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, er hægt að lesa hér.

Til baka