Fréttir

Staða kjaraviðræðna

10 des. 2010

Enn og aftur er skemmst frá því að segja að ekkert er að gerast í kjaraviðræðum LL við ríkisvaldið.  Þannig hefur ekki einn einasti fundur samningsaðila verið haldinn frá því að viðræðuáætlun var undirrituð þann 18. október s.l.

 

Ljóst er, eins og fram hefur komið hér á þessari síðu, bæði á opnu og lokuðu svæði, að ríkisvaldið ásamt SA og ASÍ virðast hafa horft til þess að aðilar vinnumarkaðarins færu í sameiginlega vinnu (viðræður) líkt og gert var undir merkjum „Stöðugleikasáttmálans“ á s.l. ári.  Nú má telja ljóst að ekkert verður af þeim fyrirætlunum og vonum stjórnvalda.  LL hafði enda lýst því yfir að lögreglumenn yrðu ekki með í slíkri vinnu í ljósi ýmissa vanefnda, af hálfu ríkisvaldsins, á þeim samningum sem þá voru gerðir og þeim fylgiskjölum er þeim fylgdu (t.a.m. „Sameiginleg framkvæmdaáætlun“)!

Í frétt sem birtist hér á þessari síðu þann 30. nóvember s.l. var, í örstuttu máli, sagt frá fundi sem haldin var á Hilton Hótel Nordica þann 25. nóvember s.l.  Ráðgert var að annar svipaður fundur yrði haldinn þann 9. desember (í gær) en sá fundur var blásinn af!

LL hefur, þrátt fyrir að hafa leitað eftir því, engin viðbrögð fengið frá ríkisvaldinu um framhald kjaraviðræðnanna.  Af því má ætla að litlar sem engar fréttir verði að hafa fyrr en eftir komandi áramót, úr því sem komið er.

Það verður að segjast hreint alveg eins og það er, þegar kjarasamningar hafa verið lausir í níu (9) daga, að staða mála er hvorki til þess fallin að auka bjartsýni né að létta róðurinn og spurning hvort ekki fari að heyrast háværar raddir úr röðum launamanna um verkföll!

Rétt er, hér rétt í lokin, að minna á það það að kjarasamningar LL við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs höfðu verið lausir í rúmt ár síðast þegar niðurstaða fékkst í kjaraviðræður LL, með úrskurði gerðardóms í kjaradeilunni.  Þá er einnig rétt að minna fjármálaráðherra á afmælistertuna sem LL færði honum „í tilefni“ þeirra tímamóta! 

Það skyldi þó ekki vera að kakan hafi verið það góð að hann vonist eftir annarri?

Til baka