Fréttir

Lokun lögreglustöðva

10 jan. 2011

Í frétt á heimasíðu LL þann 5. júlí 2010 var sagt frá lokun lögreglustöðva.  Frá því að sú frétt var birt hafa tvær lögreglustöðvar til viðbótar á landsbyggðinni bæst við þann lista sem birtur var í áðurnefndri frétt þ.e.a.s:

 

  • Ólafsfjörður og
  • Búðardalur.

Á bls. 4 í Morgunblaðinu í dag, mánudaginn 10. janúar er viðtal við Svein Pálsson, sveitarstjóra Dalabyggðar, sem sagði það sérkennilega þróun að leggja niður lögregluvarðstofuna í Búðardal á sama tíma og umferð um Dalabyggð fer vaxandi.  Til stendur að sinna löggæslu á svæðinu frá Borgarnesi í framtíðinni þegar lögregluvarðstofunni í Búðardal verður lokað.

Rétt er hér, í þessu sambandi, að vekja sérstaka athygli á frétt sem birtist á vefsíðu Morgunblaðsins föstudaginn 7. janúar s.l. en þar sagði frá því að ófært hefði verið á Seyðisfjörð frá því miðvikudaginn 4. janúar og í fréttum, í kjölfar þessarar fréttar mbl.is kom fram að skortur væri farinn að gera vart við sig á ferskvöru á borð við mjólk. 

Þá er einnig rétt, í þessu samhengi að minna á fréttaumfjöllun, um löggæslumál á landsbyggðinni, sem var í þættinum Landinn á RÚV þann 31. október 2010 og fjallað var um hér á þessari síðu þann 1. nóvember 2010 undir fyrirsögninni „Þjónustustig lögreglu – eða reyndar skortur þar á!“.

Eins og fram kom í áðurnefndri frétt LL frá 5. júlí 2010 var lögreglustöðinni á Seyðisfirði lokað á s.l. ári í SPARNAÐARSKYNI og henni breytt í áfengisverslun ÁTVR.

Til baka