Fréttir

Ástand löggæslumála á Vesturlandi

18 jan. 2011

Í dag, þriðjudaginn 18. janúar, sendi stjórn lögreglufélags Vesturlands frá sér eftirfarandi bréf m.a. á þingmenn kjördæmisins, sveitarstjórnarmenn o.fl.

 

Í bréfinu kemur fram lýsing á ástandi löggæslumála á Vesturlandi og Vestfjörðum, sem helst í hendur við ástandslýsingu löggæslumála annarsstaðar á landinu og áður hefur verið fjallað um á heimsíðu LL, RÚV (fréttaskýringaþátturinn Landinn) og hinum ýmsu fjölmiðlum:

 

*  *  *  *  *  *  *  *  *  * 

„Varhugaverð þróun löggæslumál á Vesturlandi

Frá efnahagshruninu haustið 2008 hafa opinberar stofnanir þurft að taka á sig mikinn niðurskurð til að mæta slæmri stöðu ríkissjóðs.  Hafa lögregluembættin á Vesturlandi öll þurft að skera niður í sínum rekstri með því að draga úr yfirvinnu, draga úr akstri lögreglubifreiða, skila lögreglubílum ásamt því að dregið hefur verið úr afleysingum vegna lögreglumanna sem hafa verið frá vegna frítöku eða veikinda.  Á árinu 2011 er áfram farið fram á það við lögregluembættin á Vesturlandi að þau spari enn frekar þrátt fyrir að glögglega megi sjá að sá sparnaður sem hingað til hefur átt sér stað hafi haft mjög neikvæð áhrif á gæði löggæslu á Vesturlandi.   Hefur stjórn Lögreglufélags Vesturlands miklar áhyggjur af því að öryggi íbúa og lögreglumanna á Vesturlandi verði ógnað með meiri niðurskurði í löggæslumálum á Vesturlandi.

Í byrjun árs fækkaði lögreglumönnum á Akranesi um einn vegna niðurskurðar og var vaktaskipulagi sagt upp af lögreglustjóranum á Akranesi.  Lögreglan í Borgarfirði og Dölum þarf einnig að bregðast við auknum sparnaðarkröfum og lítur út fyrir að það verði gert með því að leggja niður stöðu lögreglumanns búsettum í Búðardal og ráða ekki í sumarafleysingar hjá embættinu.  Lögreglustjórinn á Snæfellsnesi hefur ekki ráðið í tvær lausar stöður lögreglumanna hjá embættinu.   Héraðslögreglumönnum á Vesturlandi hefur einnig fækkað mjög mikið en héraðslögreglumenn hafa verið mikilvægur hluti minni lögregluliða á landsbyggðinni.

Allar þessar breytingar hafa það í för með sér að álag eykst  á þá lögreglumenn sem eftir standa.  Í því samhengi má nefna að Lögreglan í Borgarnesi og Dölum hefur um áraraðir fengið aðstoð frá Lögreglunni á Akranesi í mörgum málum.  Þessar breytingar hafa væntanlega neikvæð áhrif á möguleika Lögreglunnar á Akranesi til að veita þá aðstoð.  Einnig má ætla að fyrirhugaðar breytingar í Búðardal kalli þá á aukna löggæslu í Dalabyggð frá Borgarnesi og auki því enn frekar álagið á þann hluta embættisins.

Sá niðurskurður sem nú þegar hefur átt sér stað í löggæslumálum á Vesturlandi hefur valdið því að frumkvæðismálum lögreglu s.s. umferðarlagabrotum, akstri undir áhrifum áfengis og eða fíkniefna,  fíkniefnalagabrotum og öðrum málum sem krefjast þess að lögregluþjónar fari út og leiti uppi málin hefur stórfækkað. 

Fjárlög ársins 2011 gera ráð fyrir því að kostnaður við löggæslu í umdæmi lögreglunnar á Akranesi kosti 105,6 milljónir, kostnaðaður við löggæslu í umdæmi lögreglunnar á Snæfellsnesi 94,2 milljónir og kostnaður við löggæslu í umdæmi Lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum 104,5 milljónir.  Til samanburðar var í fjárlögum 2009 gert ráð fyrir að löggæsla í umdæmi lögreglunnar á Akranesi kostaði 110,1 milljónir, löggæsla í umdæmi lögreglunnar á Snæfellsnesi 97,5 milljónir og löggæsla í umdæmi lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum 110,5 milljónir.  Eru lögreglu umdæmin síðan misjafnlega í stakk búinn til að takast á við niðurskurðinn.

Í janúar 2012 stendur til að sameina lögregluembættin þrjú á Vesturlandi og lögregluna á Vestfjörðum, þrátt fyrir að bent hafi verið á að fátt ávinnist með þeirri sameiningu og að ekki hafi verið sýnt fram á hagkvæmni slíkrar sameiningar.  Að auki hafa komið fram upplýsingar um að við sameiningu og fækkun lögregluembætta á landsbyggðinni muni ríkissjóður líklega fara fram á enn frekari sparnað í löggæslumálum á landsbyggðinni.   Er þetta þvert á þau upphaflegu markmið með sameiningu lögregluembætta þar sem markmiðið var að efla löggæslu.

Allar þessar breytingar og allur þessi sparnaður hefur og mun veikja löggæsluna á Vesturlandi enn frekar.  Vill Lögreglufélag Vesturlands benda íbúum, sveitastjórnum og þingmönnum Vesturlands á að fólk á Vesturlandi á rétt á lámarks löggæslu og lengra megi alls ekki ganga í niðurskurði löggæslumála á Vesturlandi.  Frekari niðurskurður mun stofna öryggi íbúa og lögreglumanna á Vesturlandi í hættu.

Stjórn Lögreglufélags Vesturlands.“

Til baka