Fréttir

Fréttir frá störfum Fata- og tækjanefndar LL og Fata- og tækanefndar RLS

16 feb. 2011

Fyrsti fundur Fata- og tækjanefndar LL var haldinn þann 12. janúar sl. en í nefndina var skipað á þingi LL á sl. ári.  Nefndina skipa, Ágúst Sigurjónsson LRH sem er formaður, Jóhanna Heiður Gestsdóttir Akranesi, Óskar Þór Guðmundsson Eskifirði, Vignir Stefánsson LRH og Guðjón St. Garðarsson Suðurnesjum sem jafnframt er fulltrúi LL í fata- og tækjanefnd RLS

og var hann skipaður í hana á síðasta þing LLi.  Aðrir nefndarmenn í nefnd RLS eru Jónas Ingi Pétursson RLS sem er formaður, Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri

á Selfossi og starfsmaður nefndarinnar er Jónína Sigurðardóttir RLS.

 

Mikilvægt er að tenging sé á milli þessara tveggja nefnda enda eiga sjónamið lögreglumanna þannig greiða leið að því borði þar sem ákvarðanir eru teknar varðandi fatnað og búnaðarmál lögreglumanna.  Það hefur verið skýr krafa frá LL

um að leitað sé eftir sjónamiðum lögreglumanna varðandi þessa mikilvægu þætti í starfsumhverfi lögreglumanna og þau einhvers metin við ákvarðanatökuna enda vandséð hverjir eru betur hæfir til þess að hafa á því skoðun.  Það eru jú lögreglumenn sem klæðast fatnaðinum og nota búnaðinn!

Á fundinum þann 12. janúar var einmitt meginþemað mikilvægi þessa og fengum við á fundinn formann Fata og tækjanefndar RLS og sérstakan starfsmann hennar.  Þar vorum við upplýst um stöðu mála útboðsmála vegna fatnaðarkaupa en mikil vinna var innt af hendi af nefndarmönnum í aðdraganda útboðanna við að setja fram nákvæmlega skilgreindar kröfur lögreglunnar.   Staðan var þá sú að samþykkt höfðu verið tilboð Sjóklæðagerðarinnar (66 ° Norður)  varðandi fatnaðinn, Altex varðandi skóbúnaðinn og P. Eyfeld vegna húfanna.

Frá þeim tíma hafa verið haldnir þrír fundir í nefnd RLS, þann 4. 9 og 14. febrúar sl.  Á fyrstu tveimur fundunum voru m.a. undirritaður samningar við 66° Norður og Altex og ákveðið að semja um kaup á nýju tækjabelti og töskum á beltið.  Varðandi fatnaðinn þá verður úthlutun þannig að lögreglumaður sendir yfirmanni pöntun sem hann gerir á  eyðublaði sem verður útbúið og gert aðgengilegt á vef RLS en lögreglumönnum verður tilkynnt  sérstaklega þegar það er tilbúið.  Það hlýtur að styttast verulega í að þetta verði klárt og kynnt lögreglumönnum þar sem lögreglustjórar verða að vera búnir að senda inn pöntun til RLS fyrir 1. mars nk.  Varðandi skófatnaðinn þá geta lögreglumenn valið um tvær tegundir af götuskóm og svo koma góðir kuldaskór með rennilás.  Lögreglumenn sem starfa inni geta valið hátíðarskó sem úthlutað er fyrir hátíðarföt nr. 1.

Á fundinum þann 14. febrúar voru skoðuð ýmis varnartæki fyrir lögreglu til að hafa í tækjabelti og fyrirhugað er að skoða frekar ýmis mál sem tengast búnaðarmálum lögreglu.  Ágúst formaður nefndar LL hefur nú sent tölvupóst til allra lögreglumanna og óskað eftir ábendingum/skoðunum svo unnt sé að fara með þau sjónarmið inn á fund nefndar RLS.

Eru lögreglumenn hvattir til að láta í ljósi sínar skoðanir á þessum málum sbr. ofangreint svo unnt sé að reyna að tryggja framgang þeirra.

Skrifstoa LL

Til baka