Fréttir

Nokkrir molar úr starfi LL

4 apr. 2011

Starfsviðtöl vegna ráðningar starfsmanns varðandi uppbyggingu trúnaðarmannakerfisins

Í síðustu viku fóru fram starfsviðtöl við umsækjendur um stöðu verkefnastjóra varðandi störf trúnaðarmanna.  Forsaga málsins er sú að fjögur stéttarfélög, Landssbamband lögreglumanna (LL), Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ), Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutningamanna (LSS) og Tollvarðafélag Íslands (TFÍ) sóttu sl. haust um styrk í Mannauðsspott BSRB til að ráða starfsmann í eitt til tvö ár með það markmið í huga að vinna að uppbyggingu trúnaðarmannanets og samskiptum trúnaðarmanna við atvinnurekendur.  

 

Styrkveitingin var veitt og í framhaldinu var auglýst eftir starfsmanni núna í febrúar sl. og rann umsóknarfresturinn út þann 1. mars sl..  Tíu umsóknir bárust, allt mjög hæft fólk og ákváðum við að boða alla í viðtal.  Viðtölin fóru þau fram sl. mánudag, þriðjudag og miðvikudag og voru það framkvæmdastjórar LL, Sjúkraliðafélagsins og LSS sem önnuðust þau .  Úr varð að við ætlum að boða tiltekinn hóp að nýju í viðtöl og munu þau fara fram í þessari viku.  Við vonumst til að vera komnir með niðurstöðu í lok vikunnar og munum tilkynna það á heimasíðunni.  Framgangur verkefnisins er annars hugsaður þannig að í fyrstu fari fram greiningarvinna á núverandi trúnaðarmannakerfum, tillögur að uppbyggingu til framtíðar og síðan innleiðing.  Starfsaðstaða viðkomandi verður hjá Sjúkraliðafélaginu að Grensásvegi 16 meðan á verkefninu stendur.  Ætlunin er að viðkomandi byrji á að skoða trúnaðarmannakerfi Sjúkraliðafélagsins og er LL síðan næst í röðinni.

 

Fundur með starfsfólki efnahagsbrotadeildar

Formaður og framkvæmdastjóri áttu fund með lögreglumönnum efnahagsbrotadeildar vegna fyrirhugaðrar „sameiningar“ deildarinnar við embætti sérstaks saksóknara.  Töluverð óvissa hefur verið uppi meðal starfsmanna efnahagsbrotadeildar vegna framkvæmdarinnar og á fundinum var farið yfir stöðu málsins.  LL hefur ekki verið upplýst frekar um málið af hálfu innanríkisráðuneytisins að öðru leyti en að unnið sé að gerð lagafrumvarps um þessa breytingu.  Svipuð óvissa hefur verið uppi varðandi ráðningarform tiltekinna lögreglumanna hjá sérstökum saksóknara en LL hefur allt frá því sl. haust gert ítrekaðar athugasemdir um þann þátt og krafist að úr verði bætt.  Formaður LL hefur einnig átt fund með skrifstofustjóra löggæslumála í Innanríkisráðuneytinu þar sem farið var yfir stöðuna í málinu.  Á fundinum kom fram að ráðuneytið mun vinna að þessu máli í samvinnu við LL.

Það er von LL að málið skýrist á næstu dögum og að viðunandi niðurstaða náist í málið enda miklir hagsmunir í húfi fyrir hlutaðeigandi.

 

Eineltismál hjá lögreglu 

Nokkur eineltismál eru til meðferðar í kerfinu okkar í þessum viðkvæma málaflokki.  LL hefur óskað eftir fundi með innanríkisráðuneytinu og starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til að ræða þessi mál og hvernig fara eigi með kostnað sem skapast getur í málsmeðferðinni en skv. lögum og reglugerðum er ljóst að ábyrgð á málaflokknum er hjá viðkomandi stofnun.  Vinna fagaðila sem nauðsynlegt getur verið að kalla til er að sjálfsögðu ekki ókeypis og stofnanir misjafnlega í stakk búnar til að mæta honum.  Þá geta málsaðilar  talið nauðsynlegt  að ráða lögmann til að gæta sinna hagsmuna og spurning hvernig fara eigi með þann þátt.  LL telur mikilvægt að þessi mál fái framgang en verði ekki sópað undir teppið.  Vissulega eru þessi mál erfið fyrir alla sem að þeim koma en þeim mun meiri ástæða er til að taka þau föstum tökum.

 

Norrænt samstarf

Þann 23. – 24. mars sl. var fundur í norræna lögreglusamvinnusamstarfinu og var hann haldinn í Finnlandi.  Þar lét Snorri af formennsku en henni hefur hann gengt í tvö undanfarin ár.  Við formennskunni, næstu tvö árin, tók Lena Nitz formaður Landssambands sænskra lögreglumanna og varaformaður, sama tímabil, er Arne Johannessen, formaður Landssambands norskra lögreglumanna.

 

Kjaramál

Undanfarið hafa verið þreifingar á milli samninganefndar LL og samninganefndar ríkisins(SNR) varðandi viðmiðunartímabilið sem miða á við í tengslum við könnuna á kjaralegri stöðu lögreglumanna.  LL hefur viljað að skoðað yrði tímabilið frá 2001 en SNR hefur haft þá „prinsipp“ skoðun að miða alltaf við síðustu samninga sem er niðurstaða Gerðardómsins frá júní 2010.  LL telur þá afstöðu óásættanlega og málið verið til umráðu á tveimur fundum.  Þokast hefur í rétta átt og SNR hefur lagt fram skjal við við höfum verið að skoða en erum ekki búnir að svara ennþá en verður gert á næstu dögum.

Til baka