Fréttir

Lítill gangur í kjaraviðræðum

6 apr. 2011

Eins og þeir vita, sem fylgst hafa með fjölmiðlum, þá hefur lítill gangur verið í kjaraviðræðum á hinum almenna vinnumarkaði.  Þannig hefur komið fram, t.d. í frétt á mbl.is að Samtök Atvinnulífsins (SA) segjast hafa gengið út frá því, í sinni vinnu við gerð kjarasamninga undanfarna daga og vikur, að ICESAVE lögin verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni n.k. laugardag.  Ofan í þessar „hótanir“ SA kemur sá ágreiningur sem enn er um útfærslu sjávarútvegsmála þjóðarinnar en sem kunnugt er gerir SA þau mál einnig að bitbeini við gerð kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur í frétt á mbl.is, sem og á heimasíðu VLFA, undir fyrirsögninni „Ótrúleg hótun“ gagnrýnt SA harðlega vegna þessara hótana og hvetur hann jafnframt sína félagsmenn til að skoða vel allar hliðar ICESAVE.  LL tekur heilshugar undir orð Vilhjálms í þessum efnum enda er það hreint alveg með ólíkindum að SA skuli leyfa sér að setja málin fram með þeim hætti sem þau hafa gert og spyrða þannig saman úrslit þjóðaratkvæðgreiðslu um ICESAVE samninginn og gerð kjarasamninga, sem eru tvö alls óskyld mál!

Í annarri frétt á mbl.is í dag kemur fram að stefnt sé að fundi forsvarsmanna SA og ASÍ með forsætis- og fjármálaráðherrum í kvöld eða fyrramálið þar sem m.a. á að ræða enn frekar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir um gerð kjarasamninga.

Inn í allar þessar umræður fléttast svo lífeyrismálin en sem kunnugt er hefur ASÍ verið uppi með ýmsar kröfur í tengslum við kjarasamninga sem koma inn í lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Í þessu sambandi er rétt að benda á enn eina fréttina á mbl.is þar sem fjallað er um orð fjármálaráðherra, sem hann lét falla í ræðu sinni á þingi Kennarasambands Íslands en þar kemur fram að stefna beri að því að koma á einu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn og að með bættum hag ríkis og sveitarfélaga ætti að vera hægt að fara að borga inn á skuld þessara aðila við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.

Í þessu sambandi er einnig rétt að ítreka það, sem áður hefur komið fram hér á heimasíðu LL, að ekkert mun gerast í kjaraviðræðum opinberra starfsmanna fyrr en farið er að sjást til lands í viðræðum á hinum almenna vinnumarkaði þar sem ríkisvaldið „vill ekki vera launaleiðandi á markaði“.

Til baka