Fréttir

Nokkrir molar úr starfi LL

11 apr. 2011

Áframhald á starfsviðtölum vegna ráðningar starfsmanns varðandi uppbyggingu trúnaðarmannakerfis LL

Í síðustu viku var framhaldið starfsviðtölum og var rætt við tvo umsækjendur.  Viðtölin fóru fram á skrifstofu Sjúkraliðafélags Íslands að Grensásvegi 16 en þar mun viðkomandi starfsmaður verða með starfsaðstöðu.  Viðtölin gengu vel enda báðir umsækjendur afar hæfir.  Nú stendur yfir lokamat og niðurstaðan verður kynnt innan skamms.

 

 

Úboð vegna slysatryggingar lögreglumanna

Í lok síðasta árs boðaði dómsmálaráðuneytið (IRR) að ákveðið hefði verið að fara í nýtt útboð vegna slysatryggingar lögreglumanna.  Samið var við VÍS um tímabundna framlengingu núgildandi samnings þar til undirbúningi væri lokið og í síðustu viku fengum við hjá LL drög að útboðslýsingu frá Ríkiskaupum og áttum kost á að koma að athugasemdum.  Það eitt að LL skuli eiga kost á að koma að málinu á undirbúningsstigi er afar mikilsvert en um mikla hagsmuni er að ræða fyrir lögreglumenn.  Framkvæmdastjóri ásamt lögmönnum á lögmannsstofunni Fortis hafa í sameiningu sett fram athugasemdir og munum við fylgja því og vonandi verður tekið tillit til sem flestra athugasemda okkar.  Útboðið er á EES svæðinu en vonandi verða það einungis innlendir aðilar sem taka þátt í útboðinu.

 

Lögreglumaðurinn 1. tbl. 2011

Unnið er að lokafrágangi fagblaðsins og er blaðið væntanleg í lok mánaðarins.  Efni er fjölbreytt að vanda en í blaðinu verður m.a. grein um störf lögreglunnar í Eyjafjallagosinu, grein um störf valnefndar LSR og um sáttamiðlun.  Þá er afar áhugaverð grein eftir Jökul Gíslason sem heitir „Hver gætir mín“ sem fjallar um þá staðreynd að margir lögreglumenn sæta kærum í störfum sínum og þann bakhjarl sem LL á/ætti að veita félagsmönum við þær aðstæður.  Síðan eru fastir liðir eins og íþróttaefnið og upplýsingar um orlofsmál sem birtast jafnan í vorblaðinu.

Rétt er að geta þess að stjórn LL hefur sett af stað ákveðna hugmyndavinnu varðandi blaðið undir forystu Jökuls og er ætlunin að ræða þær hugmyndir á formannaráðstefnu LL sem verður þann 6. maí nk.

 

Furmvarp varðandi tilfærslu efnahagsbrotar til embættis sérstaks saksóknara

Eins og gerð var grein fyrir í síðustu viku þá hefur verið töluverð ólga og óvissa meðal starfsmanna efnahgasbrotadeildar vegna hugmynda um tilfærslu starfseminnar til embættis sérstaks saksóknara.  Skrifstofustjóri á löggæslusviði IRR óskaði eftir fundi með formanni LL í lok síðustu viku og var hann haldinn sl. föstudag.  Þar var Snorra loks kynntar hugmyndir ráðuneytisins í þessum efnum og í framhaldinu hélt skrifstofustjórinn fund með starfsmönnum deildarinnar þar sem kynnt var frumvarp þessa efnis. 

Næstu skref í málinu er að vinna að umsögn LL um frumvarpið og síðan að óska eftir áheyrn allsherjarnefndar við þinglega meðferð þess, þegar sá tími verður kominn en að því er stefnt núna í vor. 

 

 

Til baka